Viðskiptabankar
Föstudaginn 15. desember 1989


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það frv. til laga sem hér liggur fyrir um breytingu á lögum nr. 86/1985, um viðskiptabanka, er mál sem hefði fyrir löngu átt að vera komið hér til umræðu í þinginu. Það er vítavert að þetta mál skuli lagt fram núna svo seint fyrir áramót og ætlast til að það sé afgreitt hér með hraði. Það hefur ekki fengið þá umfjöllun sem það hefði þurft. Það er alveg ljóst að hér er um gífurlega háar fjárhæðir að ræða. Ekki liggur fyrir hvað ríkið er að borga með bankanum --- eða gefa bankann í raun og veru. Þær raddir hafa komið fram og komu fram á síðasta aðalfundi Útvegsbankans sem segja að í raun væri verið að gefa bankann. Með frv. vantar ítarlega greinargerð um söluna, söluverðmæti og yfirtöku skulda ríkisins af bankanum. Sú málsmeðferð sem hér er viðhöfð er með öllu ótæk. Þegar verið er að selja eignir ríkisins og láta í hendur annarra með þeim hætti sem hér er, þá er verið að afhenda eignir almennings og það verður að vera alveg ljóst að greitt sé fullt verð fyrir það en ekki verið að gefa þessar eignir. Ég vil ítreka það hér að ég óska eftir ítarlegum upplýsingum um kaupverð og þá yfirtöku ríkisins á skuldum og þeim kostnaði sem ríkið hefur af þessu. Jafnframt er það mjög sérstakt ákvæði í 2. gr. um eignarhaldsfélög sem kom fram í máli hæstv. ráðherra. Það hlýtur að vera krafa að slíkur banki sem Íslandsbanki lúti almennum reglum um hlutafélög og þau hlutabréf sem eru keypt og stofnuð í slíkum banka séu til sölu á almennum markaði. Þetta á ekki að vera lokaður klúbbur fyrir einhverja fáa aðila. Og það er mikils um vert að hér sé ekki verið að hygla einhverjum aðilum í þjóðfélaginu með kaupum á þessum banka.
    Útvegsbankamálið hefur komið hér til umræðu áður og það hafa verið skiptar skoðanir um það. M.a. minnist ég þess þegar þetta kom til umræðu í sumar að ákveðnir þingmenn og ákveðnir stjórnmálaflokkar sögðu að þetta mundi aldrei
fara í gegn. Þeir höfðu allan fyrirvara á um það. Því miður eru þeir menn nú ekki staddir hér í þingsalnum enda eru menn hér út um víðan völl að sinna nefndarstörfum. Því er bagalegt og alls ekki hægt að samþykkja að svona frv. sé lagt fram á síðustu dögum þings fyrir jólaleyfi því að þetta er miklu stærra mál heldur en það virðist vera. Og ég ítreka það hér að miklu, miklu betri upplýsingar verða að fylgja þessu máli en hér koma fram. Það er vítavert hvernig hefur verið unnið að þessu máli. Og fólkið í landinu á kröfu á því að vita hvað raunverulega gerðist.
    Við höfum líka séð að Landsbankinn hefur haft áhuga á að kaupa annan banka, Samvinnubankann. Fregnir eru um að þau kaup eigi að ganga til baka vegna þess að þeir hafi boðið of hátt fyrir. Jafnframt hafa komið fram yfirlýsingar frá bankastjórum Landsbankans um að verðið á Útvegsbankanum sé langt yfir því sem eðlilegt geti talist. Þessar upplýsingar verða að liggja hér fyrir og það er krafa þingmanna að svo verði því að á sama tíma og

ríkisstjórnin er að skattleggja almenning í landinu með gífurlega auknum sköttum á almenningur kröfu á því að vita hvort ríkið er að gefa einhverjum aðilum úti í bæ í lokuðum klúbb, eins og virðist eiga að stofna um Útvegsbankann, þennan banka.