Launaskattur
Mánudaginn 18. desember 1989


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. á þskj. 346. Nál. er stutt og er á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og fengið til viðræðna Þórarin V. Þórarinsson, framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands, og Ólaf Friðriksson, framkvæmdastjóra verslunardeildar Sambands íslenskra samvinnufélaga. Leggur meiri hl. nefndarinnar til að frv. verði samþykkt óbreytt.``
    Undir nál. skrifa Guðmundur Ágústsson, Jóhann Einvarðsson, Eiður Guðnason, Skúli Alexandersson og Guðrún Agnarsdóttir.
    Þetta frv. er um það að breyta gjalddögum launaskatts úr sex í tólf á ári. Ég vil til skýringar lesa aðeins hér úr athugasemdum við frv. en þar segir:
    ,,Samkvæmt núgildandi lögum um launaskatt, nr. 14/1965, með síðari breytingum, er launaskattur innheimtur á tveggja mánaða fresti og þá fyrir tvo mánuði í senn. Samkvæmt þessu eru gjalddagar launaskatts sex á hverju ári. Gjalddagi vegna launa, sem greidd eru fyrir mánuðina janúar og febrúar, er 15. mars, fyrir mánuðina mars og apríl 15. maí, fyrir mánuðina maí og júní 15. júlí, fyrir mánuðina júlí og ágúst 15. september, fyrir mánuðina september og október 15. nóvember og fyrir mánuðina nóvember og desember 15. janúar. Eindagi er mánuði eftir gjalddaga.
    Samkvæmt þessu frv. er gerð tillaga um að launaskattur verði framvegis innheimtur í hverjum mánuði líkt og gildir um staðgreiðsluskatt af launum, enda er skattstofninn svo að segja sá sami. Með þessu móti yrðu gjalddagar launaskatts tólf á hverju ári í stað sex. Þessi breyting á innheimtu launaskatts mun gera hana mun virkari og eftirlit jafnframt auðveldara. Einnig fylgir þessu ótvírætt bókhaldslegt hagræði fyrir fyrirtækin, enda þótt mörg þeirra kynnu að sakna þess að hafa skattinn ekki lengur í veltunni. Hins vegar má benda á að það þjónar ekki hagsmunum hins almenna skattborgara að geyma féð frekar hjá fyrirtækjunum en ríkissjóði. Gera má ráð fyrir því að við þessa breytingu batni greiðslustaða ríkissjóðs á næsta ári um 200 millj. kr. Jafnframt má benda á að þessi breyting er mikilvægt skref í þá átt að samræma stofn og innheimtukerfi launaskatts við stofn og innheimtukerfi staðgreiðslu.``
    Þetta er úr grg. frv. og meiri hl. nefndarinnar tekur undir það sem þar kemur fram og skilar nál. um það og leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.