Launaskattur
Mánudaginn 18. desember 1989


     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Eyjólfur Konráð Jónsson):
    Herra forseti. Minni hl. nefndarinnar, við hv. þm. Halldór Blöndal skilum minnihlutaáliti þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt frv. verður gjalddögum um launaskatt fjölgað og greiðslum til ríkissjóðs flýtt. Þess vegna vex fjárbinding þeirra fyrirtækja sem greiða launaskatt. Hér er því á ferðinni enn eitt frv. sem ætlað er að bæta stöðu ríkissjóðs á kostnað atvinnulífsins.
    Ríkisstjórninni hefði verið nær að endurskoða lögin um launaskatt með tilliti til þeirrar mismununar sem fyrirtækin þurfa að búa við.
    Minni hl. leggur til að frv. verði fellt.``
    Eins og alkunna er hefur launaskattur verið á lagður um langt skeið, mismunandi eftir atvinnugreinum og hæst í verslun, 3,5%, sums staðar raunar enginn eða mjög lágur. Í eðli sínu er þessi skattur auðvitað eins og allir aðrir skattar eignaupptaka til ríkissjóðs, kemur þó auðvitað þyngst niður á launafólkinu, ekki síst láglaunafólki sem borgar sömu prósentuna og aðrir. Í versluninni t.d. er mikið af allra lægst launaða starfsfólki í þjóðfélaginu. Þetta er auðvitað skerðing á kjörum þessa fólks. Það er beinlínis verið að taka hluta af launum þess í ríkissjóð, enda ber nafnið þess merki að menn voru þó ekki svo forstokkaðir að skíra þetta eitthvað annað en það er þegar það var á lagt. Þetta er skattur á laun og skattur á launamenn. Það er hreinskilni í þessu orðalagi. Það er ekkert verið að dylja launamenn því að ríkið taki líka þarna sinn skerf beint áður en tekjuskattur kemur til o.s.frv.
    Og auðvitað á nú heldur að þyngja þennan skatt þannig að í rauninni má segja, enda kom það fram á nefndarfundum, að hér sé verið að hækka launaskattinn um 8%. Það á að taka í ríkissjóð núna 13. mánuðinn með þessum aðgerðum. Auðvitað má líka segja það um aðra þá skatta sem inn eru heimtir og
gjöld eins og lífeyrissjóðsgjöld o.s.frv., sem að vísu koma launafólki til góða og tryggja hag þess að vissu marki, að þar sé verið að seilast í launakjörin frá mánuði til mánaðar eða viku til viku. Launatengd gjöld munu nú vera einhvers staðar á bilinu 25--28%. Ef það væri hægt að lækka þessi launatengdu gjöld, þó þau væru nú ekki afnumin því að lífeyrissjóðina vilja menn nú í öllu falli halda í, þá mætti hækka laun manna um sömu upphæðina.
    Það er ljóst að hér er um launaskatt að ræða, skatt sem lendir langþyngst á láglaunafólki og er þess vegna sérstakt gleðiefni að hækka hann þótt í litlu sé, mikið gleðiefni núv. ríkisstjórnar sem er sífellt að gera kjör hinna lægst launuðu verri og er þar á enginn bilbugur eins og menn vita.
    En þetta er auðvitað margrætt og menn láta sér ekkert segjast, þeir eru handjárnaðir, greiða atkvæði með öllum málunum, þessum skatti í dag, þeim næsta á morgun. Með matarskatti, hækkuðum og hækkuðum matarskatti. Með bros á vör fella menn tillögu um að

afnema matarskatt eða lækka hann. Og auðvitað er það sérstakt gleðiefni verkalýðsleiðtoga að íþyngja láglaunafólkinu með þeim hætti sem hér er --- sýna það í þessu litla sem skiptir ríkissjóð svo sáralitlu máli, en samt að sýna það hver hugurinn er gagnvart launafólkinu, láglaunafólki sérstaklega. (Gripið fram í.) Ég held að hv. þm. Karvel Pálmason hafi heyrt þetta en ekki þóst heyra það.