Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Mánudaginn 18. desember 1989


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. um frv. um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Nál. er á þskj. 348. Þetta frv. er nú flutt, að ég hygg, í tíunda skipti en gildistími laganna hefur yfirleitt verið eitt ár, þannig að það hefur verið flutt sams konar frv. árlega. Það eina sem hefur munað er mismunandi prósenta á þessum skatti. Það er best að vísa til þess sem segir í athugasemdum um frv., en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Sérstakur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði var lagður á í fyrsta sinn á árinu 1979. Hefur skatturinn síðan verið lagður á árlega samkvæmt sérstökum lögum sem gilt hafa fyrir eitt ár í senn. Í ár fer um álagningu og innheimtu hans eftir lögum nr. 100/1988. Í endurskoðaðri tekjuáætlun fyrir árið 1989 er áætlað að innheimtar tekjur af skattinum verði um 330 millj. kr. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1990 er gert ráð fyrir að framhald verði á skattlagningu þessari.``
    Hér er sem sagt verið að ræða um skatt sem verið hefur við lýði undanfarin 10 ár og ekki hefur þótt ástæða til þess að fella niður, en skattprósentan er samkvæmt lögunum 1,5%.
    Til að fjalla um frv. fékk nefndin til viðræðna Þórarin V. Þórarinsson, framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands, og Ólaf Friðriksson, framkvæmdastjóra verslunardeildar Sambands íslenskra samvinnufélaga. Leggur meiri hl. nefndarinnar til að frv. verði samþykkt óbreytt, eins og segir í nál.
    Það skal tekið fram að ég held að allir flokkar sem eiga eða hafa átt sæti á Alþingi hafi verið með í því að setja þennan skatt á nema Kvennalistinn enda hafa þær ekki setið í ríkisstjórn og nú er það Borgfl. sem á sinn þátt í því að þessi skattur er kominn á eða a.m.k. framlengdur. Eins og ég sagði í upphafi máls míns er skattprósentan það eina sem hefur breyst frá ári til árs. Hún hefur verið rokkandi á bilinu 1,1--2,4%. Á síðasta ári þegar frv. var lagt fram var hún 2,4% en ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir hafa ákveðið að lækka þessa prósentu nú í 1,5%.