Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Mánudaginn 18. desember 1989


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Aðeins nokkur orð í tilefni orða hv. þingmanna Halldórs Blöndals og Guðmundar H. Garðarssonar. Það er alltaf gaman þegar Halldór tekur svona smásyrpur hér í ræðustól. Það lífgar aðeins upp á deildina og maður finnur að straumar hláturtauganna fara af stað.
    Það sem mér fannst athyglisvert í ræðum þeirra beggja var einmitt það sem ég sagði hér í upphafi ræðu minnar, þeir vilja afnema þennan skatt núna. Í fimm ár höfðu þeir tækifæri og í staðinn fyrir það framlengdu þeir hann á hverju ári og yfirleitt hækkuðu. Þegar þeir fóru frá árið 1988 var skatturinn 1,5%. Þess vegna finnst mér svolítið skrýtið hvað miklar og háværar umræður verða um þennan skatt, ég held að flestir ættu nú að tala sem minnst um þetta. Þetta er kannski einn af þeim sköttum sem flestir vildu taka af en staða ríkissjóðs knýr menn til að halda áfram með skattlagninguna.
    Út af því að vikið var að mínum flokki, Borgaraflokknum, í þessu sambandi vil ég taka fram að það sem við samþykktum þegar við gengum inn í þessa ríkisstjórn var að skattlagning færi ekki upp fyrir 26% af landsframleiðslu á næsta ári, eða að skattprósentan yrði ekki hærri en var árið 1989. Þarna er aðeins spurning hvernig á að skattleggja innan þessara marka. Á að hækka tekjuskattinn meira? Á að hækka virðisaukaskattinn? Eða á að halda áfram með þá skatta sem voru eins og t.d. skattinn á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og lækka þá á öðrum á móti? Þetta vildi ég að kæmi fram í tengslum við þessa umræðu út af því, og ég skal alveg viðurkenna það, að við erum ekkert hlynntir þessari skattlagningu sem slíkri frekar en mörgum öðrum sköttum. En þar sem greinilega verður að leggja á skatta til þess að standa undir þeim útgjöldum sem ríkið stendur fyrir verður að taka inn tekjur einhvers staðar. Þetta er einn af þeim tekjustofnum sem verið hafa og sem engin ástæða er núna frekar en vanalega til að afnema.
    Þetta vildi ég að kæmi fram til að skýra það sem sagt var um hvernig komið væri fyrir mínum flokki í þessu sambandi.