Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Mánudaginn 18. desember 1989


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegur forseti. Bara örstutt, virðulegur forseti. Ég hefði nú vænst þess að hæstv. fjmrh. svaraði minni fsp. ( Fjmrh.: Það er engin ástæða fyrir því að koma hingað með þetta.) Ég vil gjarnan fá það þá skýrt frá honum hvort hann álíti að staða Sambands ísl. samvinnufélaga og staða kaupfélaga og staða verslunar í strjálbýlinu sé þannig í dag að unnt sé að skattleggja hana með þeim hætti sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég heyrði það að hæstv. fjmrh. mun svara þessari spurningu hér á eftir. En þetta tengist því sem hv. þm. Guðmundur Ágústsson sagði hér rétt áðan þegar hann vék að því að hann sagðist ekki skilja það hvers vegna sjálfstæðismenn vildu núna afnema þennan skatt. Ástæðurnar eru augljósar, hv. þm. Það er geysileg breyting á rekstrarstöðu verslunar frá því sem áður var. Staða verslunar er mun lakari en hún hefur verið í áratugi. Verslanir eiga í miklum erfiðleikum, sérstaklega í strjálbýlinu. Þá má minna á það sem hv. þm. Halldór Blöndal sagði, að þessi skattur mun við þessar aðstæður leggjast á viðskiptavini verslunarinnar. Staða þeirra er mun lakari en hún hefur verið í áratugi. Íslenskt atvinnulíf er í mikilli lægð, þess vegna á að aflétta sköttum eða lækka þá eins og unnt er.