Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Mánudaginn 18. desember 1989


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Nú verð ég að biðja forseta minn velvirðingar á því að ég var í síma þegar ég átti að fara hér í ræðustól og er það auðvitað ekki sæmandi. En ég vissi ekki nákvæmlega hvenær hv. þm. Halldór Blöndal mundi ljúka sinni ræðu. Í staðinn skal ég þá bara flytja þeim mun styttra mál.
    Tilefni þess að ég kem hér nú er það að í ræðu sinni áðan gat hæstv. fjmrh. þess þegar hann var að svara spurningum um hag Sambands ísl. samvinnufélaga að kannski væri merkast í þeim aðgerðum sem þau samtök hafa haft á prjónunum að nú væri búið að selja Samvinnubankann. Þetta voru upplýsingar sem komu mér á óvart. Ég vissi ekki til þess að nein sala hefði farið fram, en ég sagði hæstv. viðskrh. frá því áðan undir ræðu síðasta ræðumanns að ég mundi óska skýringa frá hæstv. fjmrh. núna á þessum ummælum hans og ég skildi það svo að hæstv. viðskrh. mundi þá verða viðstaddur og óska ég nú að honum verði kunngert um það að ég sé stiginn í stól til þess að varpa fram þessari spurningu varðandi Samvinnubankann og sölu hans. Ég veit að hæstv. viðskrh. vill gjarnan hlýða á það sem nú fer okkar á milli, okkar hæstv. fjmrh., og doka þá við þar til hæstv. viðskrh. er hér mættur.
    Ég veit, forseti, að hæstv. viðskrh. ber ekki sérstök skylda til að vera hér mættur og er ekki að ásaka hann fyrir það þó að hann hafi þurft að bregða sér frá. ( Forseti: Ég hef ítrekað óskað eftir að hann sé fundinn og vonast til að hann komi.) Já, en eins og ég tók fram áðan hafði ég orðað það við hann að ég mundi bera fram hér fyrirspurn sem varðaði hann og hans embætti.
    Hæstv. viðskrh. er nú genginn í salinn. Ég tók það fram, hæstv. ráðherra, við forseta að ég hefði aðeins sagt þér frá því að ég mundi bera fram fyrirspurn til fjmrh. og óskaði þess þá jafnframt að viðskrh. yrði viðstaddur. Tilefnið er það að hér fyrir stundu ræddi hæstv. fjmrh. um Samband ísl. samvinnufélaga og þau ummæli sem hann viðhafði hér á hinu háa Alþingi, í nóvembermánuði á sl. ári hygg ég að það hafi verið, um að Samband ísl. samvinnufélaga mundi verða gjaldþrota á næstu 10--14 mánuðum ef ekki gerðist þá eitthvað óvænt. Ekki man ég nú orðalagið á því sem á eftir fylgdi. Þetta var sem sagt mat sjálfs hæstv. fjmrh. á þeirri stundu, að stærsta fyrirtæki landsins riðaði á gjaldþrotsbarmi og ætti kannski svo sem eins og eitt ár ólifað. Hæstv. ráðherra bætti því nú við í sinni ræðu að hann hefði mælt þetta
á þeim forsendum að þá, þegar orðin voru mælt, hefði allt stefnt í óefni, ekki bara fyrir Sambandi ísl. samvinnufélaga heldur fyrir atvinnuvegum almennt og þess vegna hefði hann talið að miklar breytingar yrðu að verða á til þess að þetta félag gæti lifað en það gæti það kannski með breytingum og vildi segja að sumt af því væri þegar komið fram. Þar á meðal nefndi hann sölu á ýmsum eignum Sambandsins og mikilvægast væri, ég held að það orðalag hafi verið notað, það sem mest um munaði, eitthvað í þá áttina

... (Gripið fram í.) Og nú er komið að því sem mig langaði að hæstv. viðskrh. hlustaði á og það var það að þar munaði mestu um sölu Samvinnubankans. Nú vil ég gjarnan fá að vita hvort það sé rétt að búið sé að selja Samvinnubankann, þá á hvaða verði og hvers virði hann kunni að vera.
    Við vitum að einhvers konar óformlegt tilboð var gert, eða samningsdrög, á milli Landsbanka Íslands og Samvinnubankans fyrr á árinu. Nú langar mig að fá upplýsingar um það hvað hæstv. fjmrh. átti við með þessum mikla mun, hvað Samband ísl. samvinnufélaga hefði stórbætt sinn hag mikið með því að selja Samvinnubankann, ef hann er þá seldur, og hvert verðið hafi verið og þá náttúrlega hverjar séu skuldbindingar Samvinnubankans og hverjar séu tryggingar kaupandans o.s.frv. Það liggur fyrir í löggjöf að banki verður ekki seldur eða banki keyptur af ríkisbanka öðruvísi en með samþykki hæstv. viðskrh. Málið er honum þess vegna meira en lítið skylt og hann kemst ekki undan því að svara hvort það sé rétt sem hæstv. fjmrh. segir hér. Ég vil nú halda því fram að hann hafi sagt það berum orðum eða a.m.k. látið að því liggja að Samvinnubankinn sé þegar seldur. Og þá spyr ég þá báða, hvorn í sínu lagi: Er það rétt að þegar á þessari stundu hafi Samvinnubankinn verið seldur? Og ef hann hefur verið seldur hefur einhver keypt hann, og þá spyr ég: Hver keypti hann og á hvaða verði og hvernig eru þessi samningamál öllsömul? Það er ekki hægt að segja það hér í þessum ræðustól á Alþingi, þar sem allir geta heyrt mál manna, um fyrirtæki sem fyrir ári síðan var að dómi hæstv. fjmrh. að verða gjaldþrota og mundi verða það á 10 eða 14 mánuðum nema á yrðu einhverjar verulegar breytingar að þær breytingar sem mest hafi um munað hafi verið sala Samvinnubankans. (Gripið fram í.) Þessi orð voru mælt hér: Það sem mest um munaði, sala Samvinnubankans.
    Nú vita menn það og það er upplýst að Samband ísl. samvinnufélaga skuldar eitthvað yfir tug milljarða kr. Það á auðvitað eignir á móti, einhverjar í öllu falli, en það hlýtur að verða tekið eftir því þegar sagt er að búið sé að selja Samvinnubankann og þar með væntanlega þá með í kaupunum öll hutabréf Sambands ísl. samvinnufélaga í Olíufélaginu hf. sem munu vera 54% af Olíufélaginu því að þau munu vera handveð í Samvinnubankanum en alls ekki
Landsbankanum. Þá sé sem sagt Landsbankinn eða einhver annar banki, hver sem hann ætti nú að vera, orðinn meirihlutaeigandi í Olíufélaginu hf. því að væntanlega mundu þau bréf sem eru að handveði fyrir gífurlegum skuldum Sambands ísl. samvinnufélaga og kaupfélaganna við Samvinnubankann, þann banka sem á að selja, fylgja með í kaupunum. Og hvert er andvirði þess banka sem á að selja, hæstv. viðskrh.? Hefur hæstv. viðskrh. heimilað söluna og hefur hann heimilað kaupin? Hefur hann heimilað þá samningsgerð ef samningsgerð skyldi kalla sem mikið var um rætt fyrir nokkrum mánuðum? Það er rétt að þetta komi hér allt fram á hinu háa Alþingi. Það er

ekki hægt að bauka með þetta með þessum hætti. Segja hér stórtíðindi, af hæstv. fjmrh. --- ekki er hann óábyrgur maður, ekki er embætti hans svo óábyrgt að hann geti sagt hvað sem er í sambandi við mikilvægustu fjármál og viðskiptamál í þessu landi. Það er þó einu sinni stærsta fyrirtæki landsins sem um hefur verið að ræða og við viljum fá að vita það auðvitað og fyrirtækið sjálft og þeir sem að því standa hljóta að eiga heimtingu á að vita hvað það er sem fjmrh. er að segja, hvað það var sem hann sagði í nóv. á sl. ári, að fyrirtækið væri að verða gjaldþrota, og hvað það er sem hann er að segja núna, að mest muni um að það sé kannski ekki gjaldþrota að það hafi selt Samvinnubankann. Á hvað seldi það Samvinnubankann? Hvers virði er hann? Hvernig eru þessir samningar allir útlítandi? Undan svörum við þessu geta þessir hæstv. ráðherrar ekki vikið sér. Það er á allra vitorði að það eru milljarða skuldir við erlenda banka algjörlega ótryggðar. Á kannski að veita erlendu bönkunum ríkisábyrgð en íslensku bankarnir að tapa sínu ef í það færi? Hvernig hanga þessi mál öll saman? Á þetta að vera einhvers konar baktjaldamakk og einhvers konar pukurstarfsemi þegar það er lögbundið að hæstv. viðskrh. verður að leggja blessun sína yfir þetta? Á hæstv. fjmrh. að geta sagt hér án þess að svara því hreint út: Hvað var það sem munaði svona miklu þegar Samvinnubankinn var seldur? Hvernig bjargaðist SÍS? Hvað var það? Voru það 100 milljónir eða voru það kannski 10 milljarðar sem Sambandið rétti hag sinn við með því að selja Samvinnubankann eins og hæstv. ráðherra sagði að gert hefði verið? Mestu munaði um sölu Samvinnubankans.
    Ég endurtek spurninguna til þeirra hvers um sig: Hefur Samvinnubankinn verið seldur? Hver er kaupandinn? Hvert er kaupverðið? Hverjar eru raunverulegar eignir Samvinnubankans og hverjar eru skuldirnar? Og hverjir eru skuldararnir og hverjar eru tryggingarnar? Hefur hæstv. viðskrh. heimilað þessa sölu? Hefur hann kynnt sér hana? Ef svo er ekki, þá hefur ekki sala farið fram, en úr því að farið er að hafa orð á þessu hér og nú er auðvitað nauðsynlegt að alþjóð fái að vita hvað þarna hangir á spýtunni. Hvað er að gerast í þessum fjármálaheimi? Það er ekkert grínmál að stærsta fyrirtæki landsins sé gjaldþrota. Og það er heldur ekki grínmál ef á að fara að bjarga því með einhverjum óheiðarlegum ráðum. Ég trúi því ekki að hæstv. viðskrh. hafi samþykkt slík kaup eða slíka sölu öðruvísi en í samráði við Alþingi. Ég vona að hann geri hreint fyrir sínum dyrum. En hæstv. fjmrh. verður líka að segja okkur hvað það er sem hann átti við með því að Samnband ísl. samvinnufélaga hefði bjargað sér með sölu Samvinnubankans þegar allir vita að samvinnufélögin og Sambandið sjálft eru aðalskuldararnir í Samvinnubankanum. Hvernig er þetta allt saman vaxið? Á að taka erlenda kröfuhafa fram yfir íslenska? Á að veita ríkisábyrgðir fyrir þeirra lánum en láta síðan allar skuldirnar lenda á Landsbankanum ef hann kaupir Samvinnubankann eða hefur þegar gert það? Þessi svör verður þjóðin að fá.