Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Mánudaginn 18. desember 1989


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 8. þm. Reykv. beindi til mín nokkrum spurningum. Ég vona að ég hafi skilið það rétt. Í fyrsta lagi spurði hann: Hefur Samvinnubankinn verið seldur? Svarið er að hann hefur ekki verið seldur. ( EKJ: Þá fer fjmrh. ekki með rétt mál?) Ekki enn. Þess vegna er ekki hægt að svara spurningunum um það við hvaða verði hann hafi verið seldur eða hverjum hann hafi verið seldur og ég vil ekki á þessari stundu ræða eignir og skuldir bankans eða tryggingar sem hann hefur fyrir lánum eða aðrir bankar kunna að hafa fyrir lánum en öll þessi atriði fléttuðust saman í spurningum hv. 8. þm. Reykv.
    Það er hins vegar rétt að í plaggi sem bankastjóri Landsbanka Íslands, Sverrir Hermannsson, skrifaði undir ásamt forstjóra Sambands ísl. samvinnufélaga, Guðjóni B. Ólafssyni, fyrsta dag septembermánaðar var gefin ákveðin viljayfirlýsing um það að kanna kosti þess að af slíkum kaupum yrði þannig að Landsbankinn keypti hlutabréf Sambands ísl. samvinnufélaga í Samvinnubankanum. Um það mál mætti setja á langa ræðu sem ég ætla þó ekki að gera hér, en skemmst er frá því að segja að það mál er í athugun hjá þeim sem kaupin vildu gera og vilja gera því að ég hef enn ekki heyrt að þeir breyttu þeirri afstöðu sinni. Ég hef gert það alveg skýrt að ég þurfi að fá svör við ákveðnum spurningum, sumum þeirra mjög í ætt við það sem hv. þm. varpaði fram, enda sjálfsagt og eðlilegt að bankamálaráðherrann fái slíkar upplýsingar áður en ákvörðun er tekin á grundvelli 50. gr. viðskiptabankalaganna þar sem áskilnaður er að samþykki viðskrh. þurfi til þess að viðskiptabankar renni saman eða einn banki yfirtaki annan.
    Fleiri orð vil ég ekki um þetta mál hafa en þó bæta því við að það er ósæmilegt að drótta því hér að mér og öðrum ráðherrum að það ,,eigi að fara að bjarga þeim með óheiðarlegum ráðum`` sem var það sem hv. þm. sagði. Ég vísa því algjörlega á bug.