Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Mánudaginn 18. desember 1989


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil að gefnu tilefni fá að varpa fram spurningu við hæstv. viðskrh. þar sem það hefur komið fram, og hjá honum núna í ræðu hans rétt áðan, að hann hefði lagt ákveðnar spurningar fyrir eigendur Samvinnubankans sem ekki hafa borist svör við. Gæti hæstv. ráðherra upplýst það eftir hvaða upplýsingum hæstv. ráðherra er að sækjast í sambandi við Samvinnubankann þannig að hugsanleg viðskipti geti átt sér stað milli Landsbankans annars vegar og Samvinnubankans hins vegar, þ.e. kaup og sala? Það er mjög þýðingarmikið vegna þess að þetta mál hefur dregist alllengi. Því miður hefur maður ástæðu til að halda að það verði ekki dregið öllu lengur að það uppgjör fari fram er lýtur að Sambandinu og Samvinnubankanum sem hlýtur að verða að eiga sér stað ef takast á að tryggja það að þarna eigi sér ekki stað hugsanlega stórslys og stórtöp, ekki aðeins fyrir viðkomandi fyrirtæki heldur fyrir þjóðina í heild.