Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Mánudaginn 18. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Mér þykir nú leitt ef þessi langa umræða hefur spunnist út af stuttu svari mínu við fyrirspurn frá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni sem ég kaus að svara hér fyrr í umræðunum og taldi nú að ég hefði ekki þar gefið tilefni til víðtækra umræðna um þróun efnahagsmála á undanförnum árum eða næstu árum. Vegna fyrirspurnar frá hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni, þá var ég beðinn um af hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni að veita svar við horfunum á næsta ári þegar þessi skattur kæmi til innheimtu. Hæstv. viðskrh. hefur upplýst það hér, eins og hv. þm. vita, að það hafa farið fram viðræður og verið undirrituð ákveðin viljayfirlýsing varðandi kaup á Samvinnubankanum og ég hlýt að vænta þess, eins og aðrir, að því máli verði lokið það fljótlega að það dragist ekki út næsta ár. En fyrirspurnin sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson beindi til mín vék að horfum á næsta ári.