Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Mánudaginn 18. desember 1989


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Vegna beinnar spurningar hv. 14. þm. Reykv. um það eftir hvaða upplýsingum viðskrn. leiti hjá Samvinnubanka Íslands hf. vil ég taka fram að fyrirspurnir þær sem ég hef í frammi gagnvart þeim sem slík kaup vilja gera beinast alls ekki eingöngu að Samvinnubankanum heldur ekki síður hinum aðilanum að kaupunum. Það þarf að gera það ljóst hvernig bankinn sem myndast kann, verði af slíkum kaupum og samruna, stendur gagnvart þeim kröfum sem bankalög og reglur gera til bankarekstrar varðandi eiginfjárstöðu, varðandi lausafjárhlutföll, varðandi tryggingar fyrir skuldum, varðandi stöðu einstakra skuldara gagnvart bankanum. Þetta eru sjálfsögð mál en vafalaust á því eðlilegar skýringar að þeir sem að þessum samningum hafa staðið geta enn ekki gefið þessa mynd. Það skil ég mætavel því kaupin hafa enn ekki verið gerð.