Tekjuskattur og eignarskattur
Mánudaginn 18. desember 1989


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð í þessari 1. umr. Það væri hægt að hafa hér langan formála að efnisumræðu um málið, um vinnubrögð á þingi þar sem dengt er inn hverju stórmálinu á fætur öðru. Einmitt mætti benda á að í þessu frv. eru leiðréttingar mála sem kastað var til höndunum í fyrra þannig að þar voru mjög margir endar lausir og vandi sem myndaðist vegna þess hversu hroðvirknislega var unnið. Nú er unnið að því að leysa þau mál hér. Ég ætla ekki að eyða tíma deildarinnar í slíka umræðu þó að rík ástæða sé til þess eins og málin standa núna. Í raun gengur þetta svo fram af manni ár eftir ár og mig undrar það alltaf jafnmikið að það virðist vera alveg sama hvaða hópur manna tekur við stjórn. Vinnubrögðin batna ekki neitt. Nú t.d. í morgun þegar minna en vika er eftir af þingi væntanlega, ef við ætlum að halda jól, þá eru að koma til fjh.- og viðskn. Ed. brtt. við lánsfjárlög og spurning hvort er hægt að ræða þau hér á miðvikudaginn. Sem þýðir að Nd. fær einn, kannski tvo daga í mesta lagi til að fjalla um jafnveigamikinn og flókinn málaflokk sem er jafnóræður og hann er nú. Og þetta er náttúrlega ekkert smámál hvað varðar vinnubrögðin. Það er afskaplega leiðinlegt að standa hér á þessum tíma rétt fyrir jólin og hneykslast í sífellu, en maður getur ekki annað. Þetta er ábyrgðarhluti og að rígfullorðið fólk skuli láta þetta yfir sig ganga ár eftir ár eins og það sé eitthvert náttúrulögmál, það gengur auðvitað ekki. Þannig að maður hlýtur að mótmæla.
    Ég mun fara mjög stutt í efnisumræðu í þessu máli vegna þess að lítill tími hefur gefist til þess að kynna sér málið. Þetta mál hefur þó verið unnið nokkuð vel í fyrri deildinni og þar hefur fulltrúi Kvennalistans skilað sérstöku nál. og vakið þar athygli á, eins og í umræðu um málið, ákveðnum þáttum þess sem okkur finnast vera varhugaverðir.
    Það er þá fyrst að nefna að hér er um að ræða aukna skattbyrði. Það er auðvitað skiljanlegt að tómur ríkissjóður og skuldugur ríkissjóður þurfi að ná sér í meira fé, það er mjög skiljanlegt og það er eðlilegt. En hins vegar er hér verið að auka skattbyrði, sérstaklega á lágtekju- og meðaltekjufólki og þetta þykir okkur ekki réttlátt. Þessu höfum við varað við og okkur þykir þetta ekki réttlátt. Við höfum gert brtt. þess efnis að draga úr þessari skattbyrði í þeirri trú að með því að létta byrði af heimilunum verði þau í raun aflögufærari og neysla þeirra, sem þau munu vitanlega stunda, skila sér eftir öðrum leiðum inn í ríkissjóð. Byrðinni verður að létta af heimilunum, sérstaklega lágtekju- og meðaltekjuheimilunum. Í þessu frv. hefur hins vegar ekki frekar en áður, þrátt fyrir yfirlýstan vilja hæstv. fjmrh., verið ráðist í það að koma upp sérstöku hátekjuþrepi og það má spyrja hæstv. fjmrh.: Hvenær verður tíminn þroskaður? Hvenær verður embættismannakerfið tilbúið til að taka á móti því að hanna fyrir hæstv. ráðherra meðan hann situr í þessum stóli slíkan hátekjuskatt eða þrep? Því það er það sem hann hefur ævinlega sagst vilja. Nú er mesta álagið

liðið hjá í sambandi við staðgreiðsluna, hlýtur að vera, þannig að bráðum fer þetta að verða tímabært. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvenær það verður.
    Það er ekki aðeins Kvennalistinn sem hefur hreyft andmælum við þessari auknu skattbyrði, launþegasamtökin í landinu hafa gert það líka. Auðvitað hljóta þau eins og við að efast um getu fólksins til þess að greiða aukna skatta á sama tíma og kaupmáttur hefur rýrnað, á sama tíma og verið er að lögfesta matarskattinn sem mun verða þyngri byrði á flestum venjulegum heimilum þessa lands. Það er enginn vafi á því, þrátt fyrir endurgreiðslurnar sem hæstv. fjmrh. hefur eflaust af góðum hug reynt að koma á, að finna út aðferðir til að milda þennan slæma skatt. Því hann veit að þetta er slæmur skattur og hann getur ekki --- ég bara trúi því ekki, samvisku sinnar vegna, sagt það við nokkurn mann að hann sé stoltur af því að leggja matarskatt á þessa þjóð. Ég bara get ekki ímyndað mér það. Þetta hlýtur að vera af afar illri nauðsyn og auðvitað hefur hæstv. ráðherra reynt að milda og draga úr. En hann veit það jafnvel og ég og eflaust betur að óvissuþættirnir í því endurgreiðsludæmi eru svo margir að hann hlýtur að sitja heima hjá sér með fingurna krosslagða á hverju kvöldi og biðja um að þetta megi nú rætast, ekki bara í janúar, jafnvel líka í febrúar. En þetta eru auðvitað ástæðurnar fyrir því að maður óttast að þessi skattbyrði verði of þung og því höfum við borið fram brtt. til þess að reyna að draga úr henni.
    Síðan eru það vaxtabæturnar. Eins og kom fram í umræðum í Nd., og reyndar líka í nál., teljum við að þessar bætur sem nú eiga að leysa af hólmi vaxtaafslátt og húsnæðisbætur séu í raun talsvert óljóst dæmi og þar sé mörgum spurningum ósvarað. Þetta mál var ekki rætt í milliþinganefnd eins og hæstv. fjmrh. hélt að hefði verið og fullyrti í ræðu sinni í Nd. en það var á misskilningi byggt. Fulltrúar Kvennalistans í milliþinganefnd hafa fullyrt að þar var þetta mál aldrei rætt. Hins vegar var meiningin að ræða ætti það þar, það var ætlunin en var bara aldrei gert. Þess vegna hefur vaxtabótamálið í raun aldrei verið endurskoðað sem skyldi. Kvennalistinn studdi húsbréfakerfið
með því skilyrði að þessar vaxtabætur yrðu endurskoðaðar og vextir af húsnæðislánum hækkuðu ekki, þ.e. hækkunin yrði ekki afturvirk. Því setjum við miklar spurningar við hugmyndirnar um vaxtabætur.
    Ég vil víkja aðeins að því sem hæstv. ráðherra sagði um einstaklinga og einstæða foreldra, að eignarmörkin, á skattskýrslum held ég að hann hafi sagt, væru mjög svipuð. Ég hlýt að vekja athygli hæstv. ráðherra á því, hafi hann ekki hugsað um þá breytu í dæminu, að framfærslubyrði einstæðs foreldris er meiri en einstaklings. Eignastaðan skiptir ekki meginmáli þar vegna þess að framfærslubyrðin er talsvert miklu þyngri. Það er kannski meginefni í þessu frv., þó vissulega séu þarna atriði til bóta, því ekki er rétt að líta yfir það sem vel er gert. Það eru vissulega atriði til bóta í málinu þó að þar séu gallar á. Það skiptir auðvitað verulega miklu máli hver

framfærslubyrði einstaklingsins er og til þess hefur ekki verið tekið tillit í þessu dæmi. Þau dæmi sem hafa verið gefin í sambandi við útreikning á þessum skatti eru einhvers konar sígild, sumir mundu segja ,,týpisk`` dæmi um fjölskyldur sem reiknimeistarar virðast hafa augastað á. Þessar fjölskyldur eiga gjarnan tvö börn og annað undir sjö ára aldri. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra kannast við könnun sem Félag einstæðra foeldra lét gera á sínum tíma um hvað það kostaði að eiga barn, þ.e. fjárhagslega. Og þá var allt talið til sem barn þurfti á fyrsta ári sínu, á öðru ári, þriðja ári o.s.frv. Kostnaður við fatnað, kostnaður við t.d. sérstaklega ungabörn, vagn, rúm, vagga o.s.frv. o.s.frv., kerrupoki og hvað eina. Eftir því sem barnið vex, þá kemur í ljós að það er þurftarmeira. Það er nefnilega mun dýrara fjárhagslega heldur en að eiga lítið barn innan sjö ára. Það er miklu dýrara í rekstri, ekki síst fyrir einstætt foreldri. Ég held að áhugavert væri ef fleiri breytur kæmu, fleiri ólík dæmi um fjölskyldur, inn í þá útreikninga sem stundaðir eru hjá fjmrn., hjá hagsýslu o.s.frv. einmitt til þess að gera sér grein fyrir þörfum fólksins.
    Það var vikið að neyslukönnunum, t.d. til að gera sér grein fyrir þörfum einstaklings. Það er dálítið merkilegt einmitt vegna þess að hæstv. ráðherra tók dæmi af einstaklingi. Meðal íslensku þjóðarinnar eru kannski fleiri einstæðir foreldrar en víða gerist, og það er auðvitað ábyrgðarhluti fyrir alla þjóðina að slíkir foreldrar og börn þeirra hafi góðar aðstæður. Það eru kannski 14 þúsund börn, ég man ekki síðustu nýjar tölur, það eru kannski 14--15 þúsund börn sem alast upp undir forsjá einstæðs foreldris á Íslandi í dag. Og meginhlutinn --- það þarf ekki að segja hv. þm. það --- meginhluti þessara einstæðu foreldra, yfir 90%, eru einstæðar mæður. Og það skiptir auðvitað verulega miklu máli hvernig búið er að þessum börnum og foreldrum þeirra eins og öllum öðrum börnum í samfélaginu. Þess vegna held ég að mjög mikilvægt sé að tekið sé tillit til þarfa einstaklinga í neyslukönnunum en ekki einhverra tilbúinna dæmigerðra fjölskyldna sem ævinlega eru notaðar sem viðmiðun. Ekki síst vegna þess að oft er dýrara fyrir einstakling eða einstætt foreldri að reka sína fjölskyldu en fyrir stærri fjölskyldur. Og einmitt þess vegna er nauðsynlegt að hafa upplýsingar um slíka könnun. Kvennalistinn hefur margoft lagt þessa fyrirspurn til Hagstofunnar en alltaf fengið þau svör að svo afskaplega erfitt væri að rannsaka þetta og það hefði ekki verið gert enn þá. En ég hygg að þessi neyslukönnun sé í gangi og það verður verðmætt að fá þær upplýsingar, ekki síst fyrir þá sem eru að reikna út skatta á einstæð foreldri og einstaklinga jafnt sem fjölskyldur. Ég legg það til að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því að fleiri og fjölbreyttari dæmi um fjölskyldur verði tekin við slíkan útreikning á skattaálagningu.
    En eins og ég sagði ætlaði ég ekki að hafa mjög mörg orð í þessari 1. umr., ekki síst vegna þess að tíminn hefur verið svo naumur til að kynna sér af einhverri kostgæfni og alúð þau mál sem hér þjóta

fram hjá manni eins og lauf í vindi og því miður visna þau mörg eins og lauf í haustvindi reynslunnar. Og verða ekki beysnari en slík lauf í raun og veru vegna þess að til þeirra er ekki vandað. Ótal dæmi höfum við um það. Og ef þessi ríkisstjórn lifir til vorsins vil ég biðja hæstv. ráðherra hér og nú, og báða þessa ráðherra sem sitja þarna og stinga saman nefjum, að bera þau skilaboð til annarra ráðherra að gera nú ekki sínum eigin sóma og hinum margumtalaða sóma og virðingu Alþingis það að fleygja yfir okkur stórmálunum í vor, láta okkur böðlast um í þessu, vansvefta, þjótandi milli funda, vitandi tæplega á hvaða fund við erum að fara, reynandi að vera á tveimur fundum í einu. Ég bið hæstv. ráðherra að hlusta á mál mitt og vanda svo undirbúning mála sinna að okkur sé sæmd að því að vinna hérna, en þurfum ekki að fyrirverða okkur fyrir það hversu litla alúð við getum lagt í verkin og mundum ekki vilja vera þekkt fyrir að vinna svona á nokkrum öðrum vinnustað því að við neyðumst til að dragast inn í þessa hringiðu. Það er lögmál vinnustaðarins hvað sem við spyrnum við fótum og mótmælum. Þetta er mjög athugavert háttalag. Og þar sem ég verð ekkert mjög lengi á þingi get ég óhikað sagt það og ég mun endurtaka það aftur og aftur. Þetta er e.t.v. eitt af því sem mest grefur undan virðingu Alþingis, hversu illa er vandað til stórra, afdrifaríkra mála sem hafa áhrif á alla þjóðina meira eða minna. Stórfelldar breytingar sem eru illa undirbúnar og þarf að
leiðrétta en hafa í leiðinni kostað ótal fjölskyldur mikinn persónulegan, félagslegan og fjárhagslegan vanda. Það gengur náttúrlega ekki upp.