Frsm. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Fjh.- og viðskn. deildarinnar flytur frv. á þskj. 339 um breytingu á lögum nr. 9 frá 1984, um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri, með síðari breytingum. Þetta frv. er flutt af nefndinni og byggir að stofni til á frv. sem hv. þm. Friðrik Sophusson og fleiri fluttu á þskj. 97. Í samráði við ríkisskattstjóra og starfsmann fjmrn. hafa verið gerðar ýmsar breytingar á upphaflega frv. og eftir þær breytingar taldi nefndin eðlilegt að flytja málið sem sjálfstætt frv.
    Markmið þessa frv. er að renna styrkari stoðum undir atvinnulífið með því að auka eigið fé fyrirtækja. Með því eru bætt kjör almennings ef hann festir fé sitt í atvinnufyrirtækjum og ekki er síst tekin upp sú stefna að styðja minni fyrirtæki. Þar eru oft ekki síðri möguleikar til nýsköpunar og framfara í atvinnulífinu en í hinum stærri fyrirtækjum. Ákvæði frv. eru helst þessi:
    1. Heimild til einstaklinga til frádráttar á tekjum vegna hlutabréfakaupa er aukin og verður fyrir hjón 230 þús. Ef einstaklingur kaupir hlutabréf fyrir meira í einu en sem svarar til árlegrar frádráttarheimildar er heimilt að flytja það sem umfram er milli ára í allt að 5 ár og tekur ónýtt frádráttarheimild hækkunum milli ára skv. 26. gr. laga um tekju- og eignarskatt.
    2. Heimild til frádráttar frá tekjum vegna hlutabréfakaupa er látin ná til minni fyrirtækja en þeirra sem talin eru í gildandi lögum í dag. Skilyrði um lágmark hlutafjár í hlutafélagi og lágmarksfjölda hluthafa er því breytt í þá veru. Líkt og gildir um ný hlutafélög getur ríkisskattstjóri heimilað frádrátt frá tekjum þrátt fyrir að skilyrðum um lágmark hlutafjár og lágmarksfjölda hluthafa hafi ekki verið fullnægt í árslok þegar um er að ræða starfandi hlutafélag sem er að auka hlutafé sitt eða hluthafafjölda. Til að ríkisskattstjóri veiti slíku hlutafélagi staðfestingu þarf þó, líkt og gildir um ný hlutafélög, að liggja fyrir yfirlýsing frá stjórn hlutafélagsins og gögn sem gera það líklegt að mati ríkisskattstjóra að skilyrðunum verði fullnægt innan árs frá því að ákvörðun var tekin um hlutafjáraukningu.
    Frv. þetta var flutt af nefnd og nefndin varð sammála um að flytja það. Þar af leiðir, herra forseti, að ég tel ekki ástæðu til að þessu máli verði vísað til nefndar hér í deildinni en legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr.