Tekjuskattur og eignarskattur
Mánudaginn 18. desember 1989


     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. Hann samanstendur af hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni og mér. Það skal tekið fram að nál. sem við höfum gefið út er tiltölulega ítarlegt og verður að benda mönnum á að lesa það og óþarfi að fara mjög nákvæmlega í gegnum öll þau atriði sem þar er að finna.
    Það er ljóst, virðulegur forseti, að þetta frv. er skattahækkunarfrv. Það er alveg kristaltært eftir störf hv. nefndar og þá skoðun sem nefndin hefur gert á þessu máli að breytingar sem nú verða gerðar, annars vegar á lögum um virðisaukaskatt sem leiða til þess að virðisaukaskattur verður tekinn upp um næstu áramót og eins sú breyting á tekjuskattinum sem verið er að gera tillögu um í stjórnarfrv. því sem nú er til umræðu, leiða til verulegrar skattahækkunar. Þegar tekið hefur verið tillit til tekjutaps ríkissjóðs vegna breytingar á eignarsköttum má gera ráð fyrir að tekjuauki ríkissjóðs eingöngu af þessum tveimur frumvörpum verði á bilinu 2--3 milljarðar. Ég vek athygli á þessu vegna þess að þetta er þvert á það sem hæstv. fjmrh. hefur haldið fram þegar hann í blekkingarleik sínum hefur látið í það skína að ekki fáist meiri tekjur úr þessari breytingu heldur en efni stóðu til. Ástæðan er auðvitað sú að hæstv. ráðherra miðar við fjárlagafrv. sitt en ekki þær tekjur sem hefðu fengist ef óbreytt lög yrðu í gildi á næsta ári.
    Í öðru lagi vil ég taka fram að frv. sem hér er til umræðu og þær breytingar á tekjuskattinum sem því fylgir ef frv. verður samþykkt er skýlaust brot á því óformlega samkomulagi sem gert var með víðtækum hætti þegar staðgreiðslulögin voru samþykkt á sínum tíma. Því hefur verið haldið fram og það þekkja þeir menn sem komu að því máli á sínum tíma að gert hafi verið samkomulag um að skattbyrði tekjuskattsins skyldi minnka þegar kaupmáttur minnkaði eða drægist
saman en aukast að sama skapi ef launabreytingar yrðu meiri, þ.e. ef laun hækkuðu umfram verðlag. Þetta samkomulag, sem ég leyfi mér að kalla svo, er brotið í þessu frv. sem hv. meiri hl. fjh.- og viðskn. leggur til að verði samþykkt. Nú má segja að sú regla sé ein í gildi að sama sé hvort tekjur hækka eða lækka, það skipti ekki lengur máli hvort kaupmáttur launa sé meiri eða minni. Hvort heldur er er öruggt mál að ríkissjóður eykur tekjur sínar og skattbyrði einstaklinganna vex. Á þetta ber að leggja áherslu þegar málið er hér til 2. umr. eftir skoðun í hv. nefnd.
    Í þriðja lagi vil ég leggja sérstaka áherslu á vaxtabæturnar. Þau viðhorf hafa komið fram að vaxtabæturnar, eins og þær eru nú í lögum, séu þannig útbúnar að þær komi ekki þeim að gagni sem helst skyldi. Vaxtabæturnar séu þannig að þær kæmu helst til þeirra sem hvort sem er hafa ekki efni á því að kaupa sér húsnæði eða byggja yfir sig.
    Þá vil ég benda á að þeir fulltrúar sem komu á

fundi nefndarinnar frá ríkisskattstjóra hafa miklar efasemdir um framkvæmd fyrirkomulagsins sem vaxtabæturnar byggjast á, og reyndar á það einnig við um svokallaðan vaxtaafslátt. Ég leyfi mér að vísa til fskj. II. með nál. 1. minni hl. en þar kemur glöggt fram að framkvæmdin er mjög erfið, annars vegar fyrir skattayfirvöld sem eiga þess engan kost að kynna sér efni framtalanna og auk þess er kerfið orðið svo flókið að ekki er hægt að gera ráð fyrir því að aðrir en endurskoðendur geti áttað sig á því hvernig telja skuli fram fyrir þá sem vilja afla sér vaxtabóta. Þetta er mjög mikilvægt atriði í ljósi þess að lög um vaxtabætur voru samþykkt á síðasta þingi eða um mitt þetta ár. Þessi lög hafa enn ekki öðlast gildi. Þess vegna er verið að breyta lögum sem enginn veit hvernig munu verða í framkvæmd. En nú þegar hafa fulltrúar skattayfirvalda lýst efasemdum og ætti það að leiða til þess að hæstv. ríkisstjórn fylgdist vel með því hverju fram vindur í þessu máli og gera þá viðeigandi breytingar þannig að vaxtabæturnar komist til skila til þeirra sem upphaflega var ætlað.
    Í fjórða lagi vil ég benda á, og reyndar kom það fram við 1. umr. málsins, að eignarskattsfrelsi það sem um getur í 9. gr. frv. nær eingöngu til ríkisbréfa og gerir það að verkum að vextir geta orðið lægri á bréfum sem ríkið gefur út eða ber ábyrgð á. Það þýðir að vaxtamunurinn mun aukast, annars vegar á þeim bréfum og hins vegar þeim bréfum sem eru á hinum almenna markaði og tryggð með eðlilegum hætti. En það eru einmitt slík bréf sem atvinnureksturinn þarf á að halda þannig að ekki verður lengur neitt að marka vaxtastig þeirra bréfa sem ríkið á aðild að, ef svo má að orði komast, þegar rætt er um vaxtaþróun í landinu. Þetta er vissulega óréttlátt en 1. minni hl. nefndarinnar telur eigi að síður að það sé skref í rétta átt að gefa fólki heimild til að draga þessar eignir frá eignum sínum þegar í framtali, áður en eignarskattur er lagður á, ekki síst þar sem um er að ræða bréf sem geta hvatt til þess að húsbréfakerfið sé notað. En eins og allir vita hefur tilraun hæstv. ríkisstjórnar til að koma húsbréfakerfinu á gjörsamlega mistekist vegna þess að fólk hefur ekki áhuga á bréfum sem seld eru með slíkum afföllum sem gera má ráð fyrir að verði á húsbréfunum á hinum almenna markaði.
    9. gr. frv., ef að lögum verður, getur komið til móts við þennan hóp en eftir stendur það óréttlæti að eignarskattsívilnunin nær nánast eingöngu til þeirra bréfa sem ríkissjóður ber ábyrgð á eða gefur út.
    Í fimmta lagi vil ég nefna 10. gr. frv. Hv. meiri hl. nefndarinnar gerir ekki tillögu til þess að breyta 10. gr. frv. Þess ber að geta að í nefndinni kom fram að hvorki fulltrúar fjmrn. né fulltrúar ríkisskattstjóraembættisins vissu af nokkru öðru landi í heiminum þar sem slíkur háttur er hafður á, að eignarskattar séu reiknaðir með tilliti til tekna einstaklingsins, a.m.k. þegar um er að ræða aðrar tekjur en þær sem koma af viðkomandi eign. Hér er því um algjöra nýbreytni að ræða. Það hlýtur að vera athugunarefni hvort eðlilegt sé að leggja eignarskatt á

með tilliti til heildartekna þegar ljóst er að vandamál margra í þessum efnum er einmitt það að geta ekki losað sig við þær eignir sem um er að ræða. Nefndin fékk upplýsingar um fjölmörg dæmi þess að fullorðið fólk, í mörgum tilvikum ekkjur, býr í húsum þar sem fasteignamat er mjög hátt, getur ekki losað sig við þær eignir og verður að borga fullan eignarskatt af slíkum eignum. Nú er það svo að í frv. er gert ráð fyrir því að efra þrepið sé með þeim hætti að það lækkar eftir því sem tekjur viðkomandi lækka, en samt sem áður fást í ríkissjóð verulega miklu meiri tekjur af þessu kerfi sem hér er bryddað upp á en áður fékkst af eignarskattinum, þ.e. áður en sú breyting varð sem nú er í gildi, en sú breyting var gerð fyrir nákvæmlega ári síðan.
    Það er af þessum ástæðum m.a., virðulegur forseti, sem 1. minni hl. nefndarinnar gerir tillögu um að eignarskattur einstaklinga verði færður aftur í fyrra horf og fyrstu 2 millj. 875 þús. kr. í eignarskattsstofni verði skattfrjálsar en eftir það verði eitt þrep, 0,95%, sem leggist á allar eignir sem eru yfir þessum mörkum.
    Í því sambandi vil ég vitna til frv. sem sjálfstæðismenn í Nd. undir forystu hv. 17. þm. Reykv. hafa flutt í haust. Minni hl. nefndarinnar tekur upp þá tillögu, hefur reyndar fært skattleysismörkin upp sem nemur verðbólgunni og breytingu á fasteignamati en mun standa að slíkum tillöguflutningi.
    Í sjötta lagi ber að geta þess að öll nefndin stendur að tillöguflutningi sem 1. minni hl. telur að sjálfsögðu vera til bóta. Sérstaklega vil ég benda á brtt. nefndarinnar um sérsköttun barna eða heimild til sérsköttunar barna sem misst hafa foreldri en þau atriði eru í fullu samræmi við tillöguflutning nokkurra þingmanna, þar á meðal þess sem hér stendur, nú fyrir nokkrum vikum.
    Ég verð að skjóta því hér inn í að því miður gleymdi nefndin að afgreiða annað frv. Það var frv. til breytinga á tekjustofnalögum um sama mál en það kann að skrifast á reikning þess sem hér stendur sem lét vísa málinu til fjh.- og viðskn. en það mál hefði að öllu eðlilegu átt að fara til hv. félmn. Vonandi verður hægt að finna lausn á því áður en þing er úti fyrir jól.
    Ég tel sem talsmaður 1. minni hl. að þessar brtt. séu til bóta en auk þess er fyrsta brtt. á þskj. 343, þ.e. brtt. frá fjh.- og viðskn., um hækkun á þeim upphæðum sem einstaklingar geta dregið frá tekjum vegna hlutabréfakaupa. Vil ég á sama hátt fagna því að þessi upphæð skuli hækka en það er gert til samræmis við það frv. sem hv. nefnd kom sér saman um að flytja og hv. formaður nefndarinnar hefur nýlega mælt fyrir hér í Nd.
    Þá vil ég geta þess að 1. minni hl. flytur á þskj. 345 níu brtt. Þessar brtt. eiga það flestar sammerkt að vera í samræmi við tillöguflutning sjálfstæðismanna fyrr á þessu þingi. Því miður náðist ekki samkomulag í nefndinni um flutning á slíkum brtt. við lagafrv. en í nál. 1. minni hl. er þess getið hver sé meginstefnan varðandi þessar brtt. og vil ég, með leyfi hæstv.

forseta, lesa það upp. Helstu brtt. sem koma fram á þessu þskj. eru:
    1. Söluhagnaður af hlutabréfum verði skattfrjáls eftir þriggja ára eignarhaldstíma.
    2. Tap af sölu hlutabréfa verði frádráttarbært frá söluhagnaði af hlutabréfum.
    3. Skattfrelsismörk arðs af hlutabréfum vegna tekjuskatts einstaklinga verði meira en tvöfölduð.
    4. Heimilt verði að miða skattfrjálsar arðgreiðslur við allt að 15% af stofni sem markast af nafnverði ásamt þeim jöfnunarhlutabréfum sem heimilt hefði verið að úthluta samkvæmt almennum verðbreytingum. Hjá fyrirtækjum verði úthlutaður arður frádráttarbær af sama stofni. --- Ég skýt því hér inn í lesturinn að við hefðum að sjálfsögðu verið tilbúnir til þess að breyta viðmiðunum og jafnvel upphæðum í þessu frv. ef samstaða hefði náðst um það --- og held ég síðan áfram lestrinum.
    5. Tekin verði upp almenn heimild til sveiflujöfnunar í atvinnulífinu og fyrirtækjum veitt heimild til þess að geyma allt að 30% af hreinum tekjum á bundnum reikningum.
    6. Sú lækkun, sem núv. ríkisstjórn gerði á fyrningarhlutföllum hjá fyrirtækjum fyrir sl. áramót, verði tekin aftur og atvinnulífinu gefnir á ný eðlilegir möguleikar til þess að afskrifa eignir.
    7. Fyrirtækjum verði heimilt að gjaldfæra strax kostnaðarverð lausafjár með
skemmri endingartíma en þrjú ár. --- Ég skýt hér inn í að samkvæmt stjfrv. er sú upphæð hækkuð sem snýr að þessu atriði en þar segir nú að kaupi fyrirtæki afskrifanlegan hlut sem kostar minna en 100 þús. kr. megi afskrifa hann á einu ári í stað þriggja og er það vissulega til bóta þótt hvergi sé komið nærri því til móts við sjónarmið sjálfstæðismanna í því máli. --- Áfram með lesturinn.
    8. Heimild til varasjóðsmyndunar í fyrirtækjum með framlagi í fjárfestingarsjóð verði hækkuð úr 15% í 30%.
    9. Tekjuskattshlutfall fyrirtækja verði lækkað úr 50% í 48%.
10. Lagaákvæðum um tekjuskatt og eignarskatt verði breytt í því skyni að auðvelda viðskipti með hlutabréf á Verðbréfaþingi Íslands.
11. Skattfrelsismörk hlutabréfa við eignarskattsálagningu einstaklinga verði meira en tvöfölduð og nemi allt að 4 millj. fyrir hjón.
12. Eignarskattur fyrirtækja lækki og verði 0,95% eins og áður var.
    Þessu til viðbótar flytur 1. minni hl. tvær tillögur. Annars vegar þá sem ég hef þegar gert grein fyrir, að eignarskatturinn verði reiknaður með sama hætti og var áður en núgildandi breyting kom til við lok sl. árs. Hins vegar leggur 1. minni hl. til að sá frestur sem ekkjum og ekklum er gefinn verði lengdur úr fimm árum í átta ár. Stjórnarandstaðan hér á hv. Alþingi knúði fram á sl. vori þá breytingu á eignarskattslögunum að fólk sem hefur misst maka sinn geti fengið skattlagningu á eignarsköttum með sama hætti og ef um hjón væri að ræða á næstu fimm

árum eftir dauðdaga þess sem féll frá. Nú er lagt til af 1. minni hl. nefndarinnar að þetta tímabil lengist í átta ár. Er það sett fram vegna raka sem komu fram í nefndarstarfinu frá fólki sem býr við slíkar aðstæður.
    Það væri vissulega ástæða til þess, virðulegur forseti, að fjalla mjög rækilega um þetta frv. og kalla til hæstv. fjmrh. sem mun því miður vera upptekinn við iðju sína í Ed. Það verður þó að koma hér mjög skýrt fram að þetta frv. er skattahækkunarfrv. og allir forustumenn launþegahreyfingarinnar sem komu til fundar við nefndina voru sannfærðir um að þetta frv. mundi í öllum tilvikum leiða til skattahækkunar í tekjuskatti. Þá eru ekki undanskildar einstæðar mæður eða barnmargar fjölskyldur.
    Ástæðan fyrir þessu er auðvitað augljós. Hæstv. ríkisstjórn hefur tekið lánskjaravísitöluna úr sambandi sem gat mælt þær frádráttarupphæðir sem eru í lögunum. Þar með hefur hæstv. ríkisstjórn náð stjórn á því hve frádrátturinn getur orðið mikill frá einum tíma til annars. Og hæstv. ríkisstjórn miðar við sínar eigin áætlanir um verðlagsþróun og launaþróun á næsta ári en augljóst er, ef skoðaðar eru spár Þjóðhagsstofnunar á umliðnum árum, að fjarri lagi er að slíkar spár hafi gengið eftir.
    Í því sambandi, virðulegur forseti, má ég til með að benda á það sem kemur fram á bls. 3 í nál. 1. minni hl. en þar eru birtar annars vegar áætlanir Þjóðhagsstofnunar í þjóðhagsáætlun og hins vegar sú niðurstaða sem fékkst þegar reynslan lá fyrir. Þessar tölur eru fengnar frá Þjóðhagsstofnun og í ljós kemur að yfirleitt eru verðlags- og tekjutölurnar í raun a.m.k. helmingi hærri en þær áætlanir sem komu fram í þjóðhagsspám á hverjum tíma. Þá er miðað við þjóðhagsspár sem lágu fyrir við upphaf þings og notaðar voru við fjárlagagerðina. Ef sama reynsla verður á næsta ári verður hér um stórkostlega tekjuskattshækkun að ræða og enginn hópur undanskilinn. Ekki einu sinni sá hópur sem hæstv. fjmrh. talaði sem mest um, þ.e. barnmargar fjölskyldur og einstæðar mæður. Um þetta eru allir forustumenn launþegahreyfingarinnar, sem komu á fund nefndarinnar, sammála. Ég vek sérstaka athygli á því að í nál. 1. minni hl. er ítarlega gerð grein fyrir þeim viðræðum, ef ég má nota það orð, sem hafa átt sér stað milli fjmrn. annars vegar í formi útgáfu á fréttatilkynningum og yfirlýsingum sem birst hafa frá launþegahópum eins og ASÍ, BSRB og BHMR. En þeir aðilar eru nánast í öllum atriðum sammála um það sem verða mun, verði þetta frv. samþykkt. Þess vegna má enginn, virðulegur forseti, samþykkja þetta frv. án þess að sá hinn sami geri sér grein fyrir því að verið er að draga verulega úr ráðstöfunartekjum venjulegs launafólks í landinu.
    Með nál. 1. minni hl. birtist fskj. I. sem er blaðagrein eftir hæstv. fjmrh. sem hét ,,Milljarðamistök í ríkisfjármálum`` og var greinargerð hans sem formanns Alþb., skrifuð 14. júlí 1988, u.þ.b. tveimur mánuðum áður en hæstv. ráðherra tók við völdum. Það sem þar stendur er margt ágætt og birtingin á þessari grein verður vonandi til þess að hæstv.

ráðherra og stuðningsmenn hans lesa sér til um það hverju þeir héldu fram rétt áður en þeir tóku þátt í núv. hæstv. ríkisstjórn. Þar á meðal er kannski hægt að rifja það upp að hæstv. fjmrh. réðist með heift á forvera sinn, sem nú er hæstv. utanrrh., og sakaði hann um milljarða mistök í ríkisfjármálum þar sem endar næðu ekki saman og lýsti því yfir að í stað þess að ríkissjóður ætti að vera tæki til að draga úr verðbólgunni hefði hann í höndum þáv. fjmrh. orðið hreinn verðbólguvaldur. Má því segja um hæstv. fjmrh. að það sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann.
    Það eru líka athygli verð lokaorðin í greinargerð formanns Alþb. Eftir að hafa fjallað þannig um ráðherratíð forvera síns að hvert orð getur staðið um
hann sjálfan og þá reynslu sem þjóðin hefur haft af fjármálastjórn hans kemst hann að þeirri niðurstöðu sem sést í lokaorðunum sem eru svohljóðandi, með leyfi forseta: ,,Það er því nauðsynlegt að ráðherrarnir horfist í augu við veruleikann. Ríkisstjórnin á að biðjast lausnar og síðan þarf að efna til kosninga svo að þjóðin geti veitt nýrri ríkisstjórn umboð til að hefja hið mikilvæga endurreisnarstarf.`` Nú hefur hæstv. ráðherra tækifæri til þess að horfa framan í veruleikann, eins og hann stakk upp á að aðrir gerðu, og getur hann að sjálfsögðu sagt af sér ásamt sinni ríkisstjórn og efnt til kosninga. Mér segir hins vegar svo hugur um að hæstv. ráðherra, eins og aðrir hæstv. ráðherrar, hafi ekki mikinn hug á því. Þeir vilja sitja eins lengi og sætt er vegna þess að þeir þora ekki að efna til alþingiskosninga þar sem þeir óttast dóm íslensku þjóðarinnar.
    Að svo mæltu, virðulegur forseti, lýk ég orðum mínum og þeir sem hafa hlýtt á mitt mál hafa varla farið í grafgötur með það að minni hlutinn leggur til að meginþorri frumvarpsgreinanna verði felldur.