Tekjuskattur og eignarskattur
Mánudaginn 18. desember 1989


     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. sem er að finna á þskj. 352.
    Þetta nál. er nokkuð ítarlegt og liggur að vísu á borðum þingmanna en í því annríki sem hér ríkir koma viðlíka plögg á síðustu stundu og þess vegna varla að vænta að menn hafi kynnt sér það ítarlega. Því mun ég feta mig í gegnum nál. auk nokkurra orða til viðbótar.
    Það er ekki lengra liðið en tvö ár síðan fyrst var farið að innheimta skatta eftir lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Í tvígang hefur það gerst að tekjuskattshlutfall einstaklinga hefur verið hækkað, í fyrra skiptið um 2,3% og nú er lagt til að önnur 2% bætist við. Ef heldur fram sem horfir og þetta verður árviss venja, að hækka um 2% á ári, mun það nokkurn veginn fylgjast að að við siglum inn í nýja öld og verðum komin yfir 50% í tekjuskatt. Þar sem ekkert lát virðist vera á fjárþörf er ekki óeðlilegt að maður taki þessa samlíkingu og reyni að benda á hvernig fari ef ekki verður spyrnt við fótum.
    Í þeim breytingum sem gerðar voru á lögum um tekju- og eignarskatt um sama leyti í fyrra, fyrir réttu ári, var sett inn bráðabirgðaákvæði í lögin um tekju- og eignarskatt þar sem kveðið var á um að álagsprósenta skyldi vera 30,8% í stað 28,5%. Þetta ákvæði til bráðabirgða fellur úr gildi 1. jan. nk. og því er ástæða til þess að vekja athygli á því að hæstv. ríkisstjórn er í rauninni að leggja til að tekjuskattshlutfallið hækki um rúm 4% en ekki 2% eins og menn halda fram.
    Við kvennalistakonur mótmæltum þessari hækkun í fyrra og vildum að hlutfallið héldist óbreytt en það náði ekki fram að ganga. Jafnframt var stigið það ógæfuspor um sama leyti að hætt var að miða m.a. persónuafslátt og barnabætur við lánskjaravísitölu, heldur skyldi frá og með þeirri breytingu miðað við skattvísitölu, þ.e. þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar í fjárlagafrv. hvers árs.
    Þetta er eitt af því sem síðan er notað í rökum fyrir því að með þeim breytingum sem nú eru lagðar til af hendi hæstv. ríkisstjórnar sé í raun verið að lækka skatta en ekki hækka sem er náttúrlega undarleg staðhæfing. Þessu til sönnunar, að 2% hækkun sé lækkun, hafa verið tekin dæmi um skattbyrði nú í lok þessa árs og borin saman við væntanlega skattbyrði í janúar. Það hafa auðvitað fjölmargir orðið til þess að benda á að þessir tveir mánuðir eru hreint ekki samanburðarhæfir vegna þess hve skattbyrðin þyngist í rauninni í lok hvers viðmiðunartímabils og er því þar af leiðandi þyngst í desember en léttist í bili aftur í janúar.
    Þetta hafa m.a. öll launþegasamtökin bent á en það hefur ekki dugað til. Hæstv. fjmrh. lætur sig þá lítið muna um að láta nánast endurprenta plagg sem hafði birst nokkrum dögum áður, ein af fjölmörgum fréttatilkynningum. Þessi fréttatilkynning var send út í tilefni þess að útreiknuð dæmi

verkalýðshreyfingarinnar voru birt í fjölmiðlum. Það eina sem var í nýrri fréttatilkynningu var í rauninni að fyrirsögnin hafði breyst. Nú stóð þar stórum stöfum: ,,Eru útreikningar fjmrn. villandi?`` Síðan fetaði maður sig í gegnum plaggið, og viti menn: hafi útreikningarnir verið villandi í fyrri fréttatilkynningu voru þeir það svo sannarlega enn frekar í þessari.
    Það er undan því kvartað í verkalýðshreyfingunni að æ minna samráð sé haft við hana um þær ráðstafanir sem verið er að gera í fjármálum og verða það að teljast undarleg ummæli um þá ríkisstjórn sem a.m.k. lengi vel kenndi sig við einhvers konar jöfnuð. Það heyrist að vísu æ sjaldnar í máli hæstv. ríkisstjórnar eða ráðherra, að vonum, en síst hefði maður nú ætlað að m.a. hæstv. fjmrh. þyrfti að liggja undir þeim dómi verkalýðshreyfingarinnar að hann hefði minna samráð við launþegahreyfingar en fyrirrennarar hans í starfi. Ein afleiðing þessa skorts á samráði er að menn geta kastað tölum í milli sín án þess í rauninni að takast á um þær í návígi, en ég held að það dyljist engum sem fer af gaumgæfni gegnum dæmin, eins og þau eru reiknuð bæði hjá hæstv. fjmrh. eða fjmrn. annars vegar og launþegahreyfingunni hins vegar, að meiri sannleik sé að finna í dæmum launþegahreyfingarinnar.
    Varðandi þessi tvö atriði, þ.e. annars vegar hækkun tekjuskattshlutfallsins og hins vegar útreikning persónuafsláttar og barnabætur, flytur Kvennalistinn brtt. í því skyni að reyna að ná fram einhverri leiðréttingu á þessum málum og mun ég víkja aðeins betur að því í skýringum með brtt.
    Um vaxtabætur sem boðaðar eru í frv. ríkisstjórnarinnar og eiga nú að leysa af hólmi vaxtaafslátt og húsnæðisbætur er það að segja að enn er þar ýmsum spurningum ósvarað. Ég vil ítreka að milliþinganefnd sem átti að endurskoða lögin um húsbréfakerfið átti einnig að taka sérstaklega til athugunar ákvæði um tekju- og eignaviðmiðun í nýsettum lögum um vaxtabætur.
    Ég vil vekja athygli á því, virðulegi forseti, að hér í nál. á þskj. 352 hefur prentast: að ,,endurskoða félagslega hluta húsnæðiskerfisins`` en á að vera endurskoða lögin um húsbréfakerfið.
    Þessi endurskoðun hefur ekki farið fram og m.a. þess vegna vil ég af gefnu
tilefni ítreka að fulltrúi Kvennalistans í húsnæðisstjórn samþykkti ekki hækkun vaxta af húsnæðislánum í 4,5%.
    Eins og ég sagði í 1. umr. um frv. um tekju- og eignarskatt líst okkur kvennalistakonum að vaxtabætur muni að mörgu leyti vera til bóta umfram þetta kerfi sem nú er í framkvæmd, en meðan ekki hafa fengist nýjar forsendur, sem hugsanlega verða niðurstöður endurskoðunar, er erfitt að átta sig á því hvort áhrif vaxtabótanna verða þau sem til var ætlast með upptöku þeirra. Látum við því í rauninni enn bíða að lýsa yfir sérstakri hrifningu á þeim eða andúð.
    Það er mála sannast að þær brtt. sem Kvennalistinn flytur við áðurnefnt frv. hníga flestar í þá átt að létta skattbyrði af einstaklingum og af því leiða

óhjákvæmilega minni tekjur fyrir ríkissjóð. Fyrir þessu eru þó mörg rök og vil ég nú leyfa mér að vitna beint í nál., með leyfi forseta:
    ,,Í fyrsta lagi ber að nefna að Kvennalistinn telur að stjórnvöld hafi nú þegar seilst allt of langt ofan í vasa lágtekju- og meðaltekjufólks. Skattbyrði hefur þyngst á sama tíma og kaupmáttur launa hefur rýrnað að mun. Auknum skattaálögum er að sönnu ætlað að auka tekjur ríkisins og þar með að minnka halla ríkissjóðs. En staðreynd er að fjölmörg heimili eru nú þegar rekin með halla og geta hreinlega ekki risið undir meiru.``
    Það er auðvitað svo að við alla skattlagningu eru tvær hliðar sem þarf að hyggja að. Annars vegar er auðvitað hlið þess aðila sem innheimtir skattinn. Hins vegar og ekki síður þarf að athuga kjör og greiðslugetu þeirra sem eiga að greiða umræddan skatt. Nú er ég ekki að halda því fram að skattinnheimta sé alltaf andstæð hagsmunum þeirra sem greiða skatta, langt í frá, en þarna verða þó að vera einhver hófleg mörk á. Og það er einu sinni svo að það er eins og það hafi vegið miklu þyngra þegar skattar eru lagðir á, þegar skattar eru auknir, hver afkoma ríkissjóðs er en hver afkoma heimilanna er.
    Við höfum margbent á það kvennalistakonur að ríkissjóður hefur marga möguleika til þess að auka tekjur sínar, og höfum við lagt fram ýmsar tillögur í því sambandi sjálfar. Eins hefur ríkissjóður möguleika til sparnaðar og niðurskurðar í mörgum atriðum. En því er öðruvísi farið með heimilin. Flestir hafa þann eina möguleika til að auka tekjur sínar að vinna hreinlega meira. Nú er málum þannig háttað í íslensku þjóðfélagi að það er ekki alltaf hægt að sækja þá vinnu jafnvel þó að vilji væri fyrir hendi. Og þó að vinnu sé að fá eru takmörk fyrir þreki og vinnugetu hvers einstaklings, og þar hygg ég að við Íslendingar séum komnir á ystu mörk. Það hefur iðulega verið um það rætt hér í þingi hvaða afleiðingar það hefur á heimili, fjölskyldur og einstaklinga þegar vinnuþrælkun er með þeim hætti sem hún er hér á landi.
    Í öðru lagi viljum við kvennalistakonur benda á að þær tekjur sem ríkið hugsanlega missti við samþykkt brtt. okkar væru alls ekki með öllu glataður eyrir. Það er auðvitað ljóst að því meira fé sem fólk hefur milli handanna til ráðstöfunar því hærri upphæðir skila sér til ríkisins aftur í óbeinum sköttum. Það er gjarnan látið sem svo að þeir peningar sem ríkið verður af ef tekjuskattshlutfall er ekki hækkað, hverfi með öllu og ríkið sjái aldrei tangur né tetur af þeim þó að menn viti auðvitað betur.
    Það er vert að benda á núna, þegar samningar ríkisins og BSRB eru lausir, að lækkun skatta og hækkun persónuafsláttar og barnabóta væru verðugt innlegg stjórnvalda í þá kjaramálaumræðu sem fram undan er. Ég hygg að launþegahreyfingarnar hafi ekki skorast undan því hlutverki að taka þátt í þeirri vinnu með ríkisvaldinu að finna leiðir til að stemma stigu við kauphækkunum sem ekki skila sér í raun í vasa fólks og væru, að ég held, fúsar til að taka upp nána samvinnu við ríkisvaldið um að ræða fleiri leiðir til

raunverulegrar kaupmáttaraukningar en ekki endilega krónutöluaukningar.
    Það má auðvitað benda á að nú við upptöku virðisaukaskatts hefði verið annað gullið tækifæri til að ráðgast við verkalýðshreyfinguna sem öll er á einu máli um það ranglæti sem felst í mikilli skattlagningu matvæla svoleiðis að ef hæstv. fjmrh. hefði tíma eða áhuga á að taka upp raunverulegar viðræður við verkalýðshreyfinguna um öll þessi mikilvægu mál hygg ég að hans tíma væri vel varið.
    Auk þess vill Kvennalistinn minna á að ríkisvaldið hefur ekki nýtt þá tekjujöfnunarmöguleika sem ekki bara Kvennalistinn hefur oft bent á heldur þó nokkrir sem nú eiga sæti í hæstv. ríkisstjórn. Þegar hæstv. fjmrh. mælti fyrir breytingum á tekju- og eignarskatti sl. ár varði hann löngum tíma ræðu sinnar í að tala um hátekjuþrep í tekjuskatti. Ég gat ekki skilið betur en að hann harmaði að það hefði ekki náðst sú vinna sem nauðsynleg væri til undirbúnings slíku þrepi en að það væri forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar eða fjmrn. strax upp úr áramótum, þ.e. í byrjun árs 1989.
    Hann tilkynnti jafnframt að þingflokkum yrði gert kleift að fylgjast með þeim undirbúningi og þeirri vinnu þannig að góður tími gæfist til að gaumgæfa málin. Það þarf ekki að orðlengja það að hvorki hefur sést tangur né tetur af slíkum hugmyndum og það sem verra er, þær er ekki lengur að finna á óskalista hæstv. fjmrh. ef marka má athugasemdir með frv. sem hér um ræðir. Þar er að vísu að finna hugmyndir um skattlagningu á fjármagnstekjur sem nú hafa tekið
sess hátekjuþreps sem óskaverkefni hæstv. fjmrh. númer eitt.
    Við kvennalistakonur höfum marglýst því yfir að við værum sammála því að fjármagnstekjur yrðu skattlagðar ekkert síður en launatekjur. Við létum að vísu í ljósi það álit að ekki væri tímabært að gera það í flýti núna rétt fyrir áramót þar sem svo mörg stór mál væru í undirbúningi og ætti að hrinda í framkvæmd um þessi áramót og ber þá auðvitað hæst virðisaukaskattinn og hyggjum að það eigi eftir að reynast rétt að það verði ærið verkefni fyrir framkvæmdarvaldið að komast yfir þann hjalla. En það breytir því ekki að hæstv. fjmrh. á að geta tekið til hendinni við skipulagningu á skattlagningu fjármagnstekna og hátekjuþreps strax upp úr áramótum ef áhugi er fyrir hendi. Hann benti sjálfur á í ræðu sinni í fyrra að ekki væri úr vegi að innheimta skatt samkvæmt hátekjuþrepi eftir á og því ætti honum að gefast nægur tími til þessa undirbúnings ef hann vill. En þá verður líka að geta þess að Kvennalistinn telur mjög áríðandi, hverjar leiðir svo sem farnar eru til þess að afla ríkissjóði aukinna tekna, og ekki síst ef þær eru sóttar til þess fólks sem meira má sín í þjóðfélaginu, að þær verði nýttar til jöfnuðar en ekki einungis til þess að staga í göt.
    Um fyrstu brtt. Kvennalistans fjölyrði ég ekki meira. Hún gengur út á það að horfið verði til upprunalegrar ákvörðunar um tekjuskattshlutfall og það verði 28,5% í stað 32,8% eins og nú er áætlað.
    Í annarri brtt. leggjum við til að persónuafsláttur

hækki í 300 þús. kr. í stað 250.200 kr. á ári eins og lagt er til í frv.
    Hækkun persónuafsláttar vegur langþyngst hjá lágtekjufólki og síðan æ minna eftir því sem ofar dregur í launastiganum og því er aðgerð sem þessi mjög vel til þess fallin að jafna aðstöðu og gera skattheimtu réttlátari. Við þessa breytingu yrðu skattleysismörk tæplega 63 þús. kr. á mánuði.
    Ég vil geta þess í því sambandi að það er vissulega fleira sem við kvennalistakonur höfum áhuga á að breytist í meðferð persónuafsláttar, en í stað þess að flytja það sem brtt. við þetta frv. höfum við ákveðið að leggja fram og höfum reyndar þegar lagt fram frv. sem kom á borð þingmanna í dag, á þskj. 354, þar sem lagt er til að sú heimild sem nú er fyrir hendi í lögum um að hjón geti millifært ónotaðan persónuafslátt annars maka og þar með lækkað tekjuskatt, nýtist líka einstæðum foreldrum, þ.e. að einstæðir foreldrar geti nýtt ónýttan persónuafslátt barns sem á hjá því lögheimili.
    Við höfum að vísu áður lagt fram frv. í þessa veru sem fékk því miður ekki nógu góðar undirtektir hér á Alþingi en talsverðar umræður þó, en við leggjum það fram aftur vegna þess að við höfum sannfærst um mikilvægi þess, ekki síst vegna þeirra viðbragða sem við höfum fengið við þessu frv. utan úr þjóðfélaginu.
    Í brtt. 3 og 4 eru lagðar til hækkanir á barnabótum, sömu hlutfallshækkanir eins og við leggjum til í hækkun persónuafsláttar. Barnabætur eru ævinlega teknar með í skattadæmið eins og barnabætur séu einhvers konar endurgreiðsla á skatti eða félagslegar bætur. Við kvennalistakonur erum mjög ósammála þessum málflutningi og viljum benda á að barnabætur eru ætlaðar börnunum sjálfum, þó að þær komi ekki til greiðslu til þeirra, til þess að standa straum af uppeldi og umönnun barna og er því skerfur hins opinbera til foreldra til að styðja þá í því mikilvæga hlutverki sem þeir gegna í að endurnýja þetta þjóðfélag, þ.e. leggja því til nýja þegna.
    Það hefði verið freistandi að fá reiknuð ýmiss konar dæmi þar sem barnabætur væru teknar með mismunandi hætti inn í dæmin fyrst hæstv. fjmrh. vill hafa það svo. Það vill svo einkennilega til að í öllum dæmum fjmrn. eru fjölskyldur þannig saman settar að það skulu vera tvö börn og annað á að vera undir sjö ára aldri. Í þeim flýti sem er á afgreiðslu mála reyndist ekki kleift að fá reiknuð út fleiri dæmi, þ.e. með mismunandi háum barnabótum og í mismunandi samansettum fjölskyldum, og því báðum við kvennalistakonur um að fá reiknað dæmi eins og við viljum helst sjá það, þ.e. þar sem barnabætur eru ekki teknar inn í skattadæmið og vil ég vísa hér til fskj. II. og benda mönnum á að bera þær tölur um skattbyrði saman við þær tölur sem birtast um skattbyrði í plöggum fjmrn. og reyndar í útreikningum ASÍ sem líka fylgja hér með því þeir taka barnabætur inn í, eflaust til þess að dæmin séu samanburðarhæf við dæmi fjmrn.
    Fimmta brtt. okkar stendur í sambandi við eignarskattana, þ.e. álagningu eignarskatts í háþrepi og

þann eignarskattsstofn sem lagður er til grundvallar eignarskattsálagningu, bæði í venjulegu þrepi og háþrepi.
    Það gætir nokkurs misræmis eða óréttlætis í því að einstaklingar og einstæðir foreldrar skuli ætíð reiknaðir aðeins hálft ígildi hjóna. Þó að eðli málsins samkvæmt sé venjulega einum fleira í heimili þar sem hjón eru eða sambýlisfólk munar nú ekki svo mikið um þennan einstakling að hægt sé að helminga húsnæði ef hann einhverra hluta vegna er ekki hluti af fjölskyldu. Við leggjum því til að einstaklingur eða einstætt foreldri sé 60% ígildi hjóna í samanlögðum eignarskattsstofni þeirra.
    Hvað varðar eignarskattsþrepið sjálft héldum við óbreyttum
eignarskattsstofni hjóna en hækkuðum eignarskattsstofn einstaklinga og einstæðra foreldra. Kvennalistinn leggur til að hann verði 3 millj. 450 þús. hjá einstaklingum og einstæðum foreldrum en héldum honum óbreyttum í 2 millj. 875 þús. hjá hvoru hjóna. Hvað efra þrepið áhrærir fórum við öfuga leið, héldum eignarskattsstofni einstaklinga og einstæðra foreldra óbreyttum, þ.e. í 8 millj. og 50 þús. kr. en lækkuðum eignarskattsstofn hjóna niður í 6 millj. 708 þús. kr. hjá hvoru um sig, þannig að það þrep eignarskattsins kæmi fyrr til framkvæmda hjá hjónum samanlögðum en hjá einstaklingi.
    Sjötta brtt. felur það í sér að aflagður verði sá siður að framreikna tölur samkvæmt skattvísitölu, eins og kveður á um í 122. gr. laganna, og horfið til fyrri aðferðar, að einu breyttu þó. Við leggjum til að miðað verði við framfærsluvísitölu en ekki lánskjaravísitölu. Ástæðan er sú að eðli lánskjaravísitölunnar hefur breyst mikið við það hvernig hún er nú útreiknuð. Nú eru laun tekin inn í útreikning lánskjaravísitölu og við það hefur lánskjaravísitalan hækkað minna en efni stóðu til þar sem laun hafa ekki hækkað eins og aðrir þættir sem mældir eru í vísitölunni.
    Okkur sýnist að ef persónuafsláttur og barnabætur sérstaklega eiga að einhverju leyti að halda í við verðlagsþróun í landinu sé vænlegasta leiðin sú að miða við framfærsluvísitölu. Þar mælist þó sannanlega framfærsla og kostnaður hverrar fjölskyldu, þó að meðaltali sé, á hverjum mánuði. Auk þess leggjum við áherslu á það hér í þessum brtt. að tvær upphæðir, þ.e. persónuafsláttur og barnabætur, séu reiknaðar upp mánaðarlega til þess að vægið breytist ekki eins og það gerir nú þegar það er reiknað upp einungis tvisvar á ári.
    Að lokum vil ég aðeins undirstrika að í brtt. Kvennalistans kemur ljóslega fram stefna hans varðandi skattlagningu einstaklinga og fjölskyldna. Það er nú svo komið að eftir myndun hæstv. ríkisstjórnar, þeirrar sem nú situr, virðist lágtekju- og meðaltekjufólk og svo barnafjölskyldur eiga sér afskaplega fáa málsvara en það er einmitt hagur þessara hópa sem Kvennalistinn leitast við að standa vörð um og breyta til hins betra. Það er í fullu samræmi við stefnu Kvennalistans, forgangsröð hans og verðmætamat að þar skipi fjölskyldan og þeir sem

minna mega sín verðugan sess.
    Að lokum vil ég taka fram, hæstv. forseti, að 2. minni hl. stendur að sameiginlegum brtt. nefndarinnar sem eru á þskj. 343 en flytur einn brtt. á þskj. 353 sem hefur verið lýst hér að framan. Verði brtt. Kvennalistans samþykktar munu þingkonur hans greiða atkvæði með frv. Að þeim felldum munu þær greiða atkvæði gegn frv. í heild.