Tekjuskattur og eignarskattur
Mánudaginn 18. desember 1989


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Þegar rætt er um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekju- og eignarskatt, er verið að ræða um hagsmuni almennings í landinu. Það er verið að ræða um þá hagsmuni er snerta hvern og einn vinnandi mann í landinu og menn sem eiga eitthvað smávegis eða mjög mikið. Það er verið að ræða um lífskjörin í landinu. Og núv. ríkisstjórn hefur ákveðið að skerða lífskjörin. Hún hefur ákveðið að fólkið í landinu eigi að hafa minna á milli handanna en nokkru sinni fyrr á tíu árum. Ríkisstjórnin í landinu hefur ákveðið það að svíkja allt sem hún hefur lofað, bæði í samningum og í ríkisstjórnarsáttmálanum. Hún hefur ákveðið það að auka skattbyrðina í tekjuskatti með þeim hætti að aldrei hafur verið greiddur hærri tekjuskattur á Íslandi. Þegar haft er í huga að núverandi kerfi var sett með svokölluðum staðgreiðsluskattslögum sem þýddi það að greiðslubyrði skatta jókst sem verðbólgunni nam auk þeirra prósentna sem nú hafa verið lagðar á. Þá hafa skattar hækkað með þeim hætti að óviðunandi er.
    Og hver skyldi vera skýringin? Skýringin er sú að ríkisstjórn Íslands, ráðherrarnir hæstv., hafa ekki stjórn á fjármálum ríksins. Þeir hafa ekki stjórn á sínum ráðuneytum og þeir hafa ekki stjórn á eyðslunni. Þegar þeir eru búnir að láta ráðuneytin reka stjórnlaus og uppgötva að þau hafa farið langt fram úr því sem áætlað var í fjárlögum hverju sinni, þá segja þeir: ,,Ríkið þarf, ríkið þarf --- að fá auknar tekjur. Við verðum að leggja fram ný tekjuöflunarfrv.`` En það er ekki þetta sem verið er að gera. Það er verið að leggja meiri skatta á fólkið vegna þess að ríkisstjórnin er liðónýt og öllum gagnslaus og væri best að hún færi frá strax í dag. Hv. þm. Kvennalistans
sömdu við hæstv. ríkisstjórn um vaxtabætur til að koma í gegn nýju kerfi í húsnæðislögum. Nú liggur fyrir að ríkisstjórnin hefur svikið hv. þingmenn Kvennalistans og vaxtabæturnar eru nánast öllum gagnslausar. Jafnframt þessu er verið að taka flóknari og flóknari kerfi í notkun. Tekjutrygging eignarskatts, vaxtabætur, sem er svo flókið í framkvæmd að sérfræðingar þjóðarinnar, skattstjórarnir, vita ekki sitt rjúkandi ráð og þeir vita ekki hvernig á að komast að þessum málum og reikna þetta út. Og það má reikna með að hægt sé með þessum hætti að auka mannaflann í fjmrn. við að reikna út prósentur í tekjutryggingum og vaxtabótum og guð má vita hvað og svo komi hæstv. fjmrh. næsta ár og segi: Ríkið þarf meiri tekjur því það er svo dýrt að reka fjmrn., en fjmrn. hefur vaxið langt umfram það sem eðlilegt er á undanförnum árum.
    Sumir hafa rætt um að skattarnir eigi að jafna aðstöðu. Síðan koma sömu menn hér upp og segja að það eigi að fá sömu laun fyrir sömu vinnu og þá vandast nú málið því að eftir því sem skattkerfið verður flóknara þess minni líkur eru á að menn fái sömu laun fyrir sömu vinnu. Það er nefnilega þannig að það er ekki spurningin um hvort hér er um konur að ræða eða karla í vinnu, eða sömu störf, heldur er

spurningin um það hvort menn fá sömu laun fyrir sömu vinnu í raun. En skattakerfið, eins og það nú er, ýtir undir það að launamisréttið aukist í landinu. Menn með sömu menntun er vinna sambærileg störf fá ekki sömu laun vegna þess að það er alltaf verið að búa til flóknari reglur sem mismuna mönnum eftir því hvað ríkisstjórninni finnst hverju sinni að eigi að auka þetta misrétti mikið. Það gleymist hins vegar að einstaklingarnir eigi að bera ábyrgð á sínum gerðum. Öll sú skattheimta sem nú fer fram miðar að því að gera menn sem minnst ábyrga og skattleggja þá sem eru ábyrgir sem allra mest. Og nú væri reyndar fróðlegt að hafa fjmrh. hér í salnum en ég geri ekki ráð fyrir að það breytti neinu hvort hann væri hér eða ekki. Best væri að hann kæmi aldrei í þingsalinn. Ég held að þjóðin mundi síst sakna þess manns.
    Nú nýlega lagði hæstv. fjmrh. fram fréttatilkynningu um útreikning á eignarsköttum og tekjusköttum og hefur launþegahreyfingin þegar hrakið útreikninga hæstv. fjmrh. á tekjuskattinum. Það hefur komið fram að skattbyrðin eykst um 4% á milli ára. En hvað með eignarskatta? Hæstv. fjmrh. fullyrti hér að þeir lækkuðu, en hver er raunin? Ef miðað er við eign sem var 3 millj. 540 þús. kr. á síðasta ári og hækkar nú samkvæmt meðaltali um hækkun á fasteignamati upp í 4 millj. 250 þús. kr. hækka eignarskattar á milli ára um 25% sem þýðir að það er 7% aukning á skattbyrði á minnstu eignunum á milli ára. Þetta er nú það sem er kallað hundalógík fjmrh. með þessum útreikningi. Og þegar við skoðum háskattaþrepið sem er 8 millj. 50 þús. kr., þá hefði það verið sambærileg eign fyrir einu ári síðan sem var þá 6 millj. og 825 þús. kr. Með þessu frv. er þessi eign hækkuð í sköttum um 21,6%. Ekki er það lækkun.
    Í fréttatilkynningu hæstv. fjmrh. er sýnt fram á lækkun á eign sem var 7 millj. kr. Ef við skoðum 7 millj. kr. eign í fyrra sem verður nú, með þeim breytingum sem eru áætlaðar, 8 millj. 260 þús. kr., þá hækka skattar á þessari eign um 25,2%. Þetta eru lækkanirnar sem hæstv. fjmrh. hefur verið að boða á eignarsköttunum. Og stendur hér glókollurinn sjálfur og boðar þessar lækkanir sem eru ekkert nema rangfærslur með tölur. Ef við skoðum eign sem var 14 millj. kr. fyrir ári og hækkar samkvæmt meðaltali upp í 16 millj. 520 þús. er
hækkunin 0,3%. Þá förum við að koma að því að eignirnar lækki þegar þær hækka enn meira. Ef við tækjum hins vegar og skoðuðum þær hækkanir sem voru í fyrra og þær hækkanir sem voru núna, þá hefur enginn skattstofn eða skattar fyrr eða síðar hækkað meira á Íslandi.
    Þessar hækkanir vekja upp þær spurningar hvort það sé kerfisbundið verið að koma á sósíalisma og breyta þjóðfélagsgerðinni frá sjálfseignarfyrirkomulagi fólksins á íbúðum í ríkis- og bæjarforsjá. Það bendir margt til þess, m.a. þær breytingar sem voru gerðar á sveitarstjórnarlögunum á síðasta ári sem þýða miklar hækkanir á fasteignagjöldum úti á landi og þýða það að fasteignagjöldin geta hækkað um 25--70%. Allar

þessar hækkanir ber að sama brunni. Það er verið að ráðast á fólk sem hefur með dugnaði og ráðdeild reynt að eiga sitt skuldlaust. Nú má það ekki á Íslandi lengur. Það eina sem menn mega eiga er ef þeir fjárfesta í tapi ríkissjóðs, í ríkisskuldabréfunum, ef þeir fjárfesta í skuldum framtíðarinnar, ef þeir fjárfesta í aukinni skattlagningu á æskuna í framtíðinni. Það er það eina sem á ekki að leggja á eignarskatta.
    Við hv. þm. Ingi Björn Albertsson og ég höfum lagt fram brtt. á þskj. 360 við frv. um tekju- og eignarskatt og það hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Á eftir 9. gr. komi ný grein er orðist svo:
    Á eftir 1. mgr. 8. gr. laganna bætist ný málsgrein svohljóðandi:
    Íbúðarhúsnæði til eigin nota telst ekki hluti eignarskattsstofns.``
    Þessi till. er sú eina raunhæfa eins og málin eru. Hún hnígur að því að menn geti búið hér í þessu kalda landi í sínu eigin íbúðarhúsnæði án þess að vera skattlagðir af ríkinu. Ef við tökum samanburð við nágrannalöndin, t.d. Danmörku, sjáum við að Dönum, sem búa þó í landi sem er með miklu mildara loftslag, dettur ekki í hug að leggja á eignarskatta fyrr en eignir hafa náð 12 millj. kr. íslenskum. Og jafnframt eru lánin til húsakaupa svo há að það kemur aldrei til með að leggjast eignarskattur á íbúðarhúsnæði í Danmörku. Fleiri lönd gæti ég nefnt með þessum hætti. En hæstv. ríkisstjórn hefur lagt skattana á því að hún er haldin þeirri firru að enginn megi eiga neitt. Og það sem er athyglisverðast í útreikningum fjmrh. um eignarskattana er að fjmrh., hver sem nú trúir því, hefur gleymt að reikna inn í sína útreikninga þjóðarbókhlöðuskattinn sem er líka eignarskattur. Það væri fróðlegt ef menn almennt í þjóðfélaginu gætu komist upp með slíka útreikninga, að þeir tækju út hluta af dæminu til að reyna að fá hagstæða útkomu.
    Þessir skattar sem hér eru eru, eins og ég sagði áðan, árás á fólkið í landinu. Og er nú tími til kominn að hæstv. ríkisstjórn hætti að leika sér, ráðherrarnir sitji heima á næsta ári, hætti að ferðast um heiminn á kostnað ríkisins og vinni og vinni hörðum höndum. Vinni að því að minnka umfang ríkissjóðs og auka hlutdeild almennings og fyrirtækja í þjóðartekjunum því að sú stefna sem núv. ríkisstjórn hefur fylgt, að auka skattana með þessum hætti og auka sjóðakerfið með þessum hætti, leiðir til glötunar, leiðir til sömu niðurstöðu. Og við höfum séð hvernig hefur farið í austantjaldsríkjunum sem núna hafa ákveðið að breyta yfir í vestræna hagstjórn. En hæstv. fjmrh. sem kom hér og þóttist boða vestræna hagstjórn verður ekki tekinn alvarlega í því frekar en mörgu öðru. Útreikningar hans og manna hans á sköttum rýra traust almennings á stjórnmálamönnum. Og þeir rýra það traust sem á að bera til fjmrn. um að þeir reikni rétt og gefi upp réttar upplýsingar. En þær upplýsingar sem hafa komið frá fjmrn. eru ekki réttar og farið er rangt með tölur á nærri öllum vígstöðvum. Það hlýtur að vera krafa að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands standi og falli með því að þær tölur sem þeir gefa upp séu

réttar en séu ekki með þeim hætti sem hefur verið sýnt fram á að blekkja fólkið í landinu, blekkja þingmenn og blekkja fólkið með þeim hætti að teljast verður ógnvænlegt. Ég ætla að vona það að við eigum von á betri tíð í stjórnmálum og þessi ríkisstjórn falli sem allra fyrst því það er það eina sem getur bjargað okkur frá þeim illu örlögum sem þjóðin nú býr við þessar stundir.