Virðisaukaskattur
Mánudaginn 18. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um breytingu á lögum um virðisaukaskatt eins og það er nú eftir afgreiðslu í hv. Ed. Eins og hv. alþm. er kunnugt hér í Nd. mun virðisaukaskattur koma til framkvæmda um næstu áramót og á undanförnum mánuðum hafa verið í undirbúningi ýmsar breytingar á gildandi lögum um virðisaukaskatt sem og víðtækur undirbúningur að framkvæmd málsins.
    Í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar starfaði sérstök nefnd sem skilaði ítarlegri vinnuskýrslu sem formaður hennar, Kjartan Jóhannsson, samdi. Í henni var gerð grein fyrir ýmsum helstu álitamálum sem eftir var að leiða til lykta þegar gildandi lög voru afgreidd. Í skýrslunni var jafnframt að finna fjölmargar tillögur um það hvernig þessi álitamál skyldu til lykta leidd. Fyrir rösku hálfu ári síðan fengu allir þingflokkar einstak af þessari skýrslu og ég skipaði síðan samráðsnefnd fulltrúa þingflokka til þess að fylgjast með því hvernig með þessi álitamál yrði farið. Í frv. sem hér er lagt fram er að finna afstöðu til þeirra allra þar sem skýrt kemur fram með hvaða hætti ríkisstjórnin leggur til að virðisaukaskatturinn, sem tekur gildi um næstu áramót, verði framkvæmdur. Í frv. er gert ráð fyrir skatthlutfallinu 24,5% og einnig að inn í virðisaukaskattslögin verði tekið fastbundið endurgreiðslukerfi sem felur það í sér að á framleiðslustigi verði ígildi 14% skatts á nýmjólk, dilkakjöt, fisk og innlent grænmeti.
    Í umræðum um tekju- og eignarskatt sem hér fóru fram í hv. deild var gerð grein fyrir samhengi þeirra breytinga sem hér eru lagðar til á virðisaukaskattinum og breytinganna á tekju- og eignarskattinum og tel ég óþarfa að verja tíma hér til þess að reifa þann þátt málsins en er vissulega tilbúinn að gera það verði þess óskað. Heildaráhrifin eru hins vegar þau að vega upp það tekjutap ríkissjóðs sem fólst í því að miða hlutfallið við 24,5% í stað þeirra 26% sem miðað var við í forsendum fjárlaga. Það er hins vegar rétt að árétta það að með þessum breytingum sem eru lagðar til, bæði í frv. um tekju- og eignarskatt og frv. um virðisaukaskatt, er verið að flytja til hlutfallið milli beinna og óbeinna skatta á Íslandi, en það hefur lengi verið álit þeirra efnahagssérfræðinga innlendra og erlendra sem um íslensk efnahagsmál hafa fjallað að nauðsynlegur þáttur í því að koma á varanlegum stöðugleika í íslenskri hagstjórn væri að draga úr hinu háa hlutfalli óbeinna skatta og auka hlutfall beinna skatta. Ástæðan er sú að á Íslandi er einstaklega hátt hlutfall óbeinna skatta miðað við önnur vestræn lönd. Þetta háa hlutfall gerir okkur erfiðara fyrir að bregðast við hagsveiflum á réttan hátt og koma í veg fyrir að þær valdi varanlegum efnahagslegum óstöðugleika.
    Þau áhrif á verðlag sem þessar breytingar sem hér eru lagðar til fela í sér gera ráð fyrir, þegar heildaráhrifin eru metin, að þau muni leiða til 1--1,5% lækkunar á framfærsluvísitölu miðað við það sem ella hefði orðið. Það gerist með mjög margvíslegum hætti, bæði vegna þess að ýmiss konar viðskipti bera nú

annan skatt í virðisaukakerfinu en þau gera í söluskattskerfinu og má þar nefna t.d. ýmiss konar tryggingar sem bera í dag söluskatt en munu ekki bera virðisaukaskatt, í öðru lagi hinar sérstöku endurgreiðslur á algeng matvæli og í þriðja lagi hin innbyggðu verðlækkunaráhrif virðisaukaskattsins sem til eru komin af þeirri ástæðu að virðisaukaskatturinn ber ekki í sér þá uppsöfnun sem söluskattskerfið hefur borið í sér. Enn fremur er ljóst að virðisaukaskatturinn mun styrkja samkeppnisstöðu íslenskra útflutningsgreina og íslensks iðnaðar með margvíslegum hætti.
    Ég vil aðeins árétta það hér vegna þess að nokkuð hefur borið á misskilningi í þeim efnum að endurgreiðslan í virðisaukaskattskerfinu varðandi þær tegundir innlendra matvæla sem ég nefndi hér áðan er gerólík því niðurgreiðslukerfi sem við höfum búið við hér um langan tíma. Endurgreiðslan verður fastur hluti af virðisaukaskattinum. Henni verður ekki breytt nema með formlegri lagabreytingu á Alþingi. Hins vegar eru niðurgreiðslurnar eins og menn vita afgreiddar í einni upphæð til ríkisstjórnar í fjárlögum og hún hefur allmikið svigrúm frá einum mánuði til annars, jafnvel frá einum degi til annars, ef hún kýs svo, að breyta niðurgreiðslunum allmikið milli tegunda og reyndar einnig að magni og hafa þannig margvísleg áhrif á verðlag. Aftur á móti verður endurgreiðslukerfið í virðisaukaskattinum stöðugt og óbreytt þar til Alþingi færir það í annan búning með lagabreytingu.
    Það er einnig rétt að geta þess hér að það hafa auðvitað lengi verið deilur hér á Íslandi um það hvort virðisaukaskattur ætti að vera í fleiri en einu þrepi. Ríkisstjórnin hefur ákveðið, og það hefur verið tilkynnt hér á hv. Alþingi, að láta fara fram ítarlega athugun á næsta ári. Sú athugun á að beinast að því að kanna annars vegar áhrif þess að vera með virðisaukaskatt í tveimur þrepum og hins vegar áhrif þess að vera með virðisaukaskatt á víðtækara grunni en í einu þrepi sem þá yrði lægra. Hv. Alþingi og þingflokkum verður að sjálfsögðu gerð grein fyrir þessum þáttum málsins þegar niðurstaða athugunarinnar liggur fyrir.
    Eins og ég vék að áðan, virðulegi forseti, var ljóst þegar núgildandi lög
voru samþykkt að þau þyrfti að taka til margvíslegrar athugunar og m.a. var talið nauðsynlegt að skoða skattskylduna sjálfa. Ýmis menningarstarfsemi er í gildandi lögum skattskyld en samkvæmt því frv. sem ég mæli hér fyrir verður menningarstarfsemi ýmist undanþegin virðisaukaskatti með núllskatti skv. 12. gr. eða utan skattkerfisins skv. 2. gr.
    Gert er ráð fyrir að leikhús hvers konar og tónleikastarfsemi falli undir 2. gr. laganna á sama hátt og t.d. heilbrigðisstarfsemi, söfn og félagslegar stofnanir. Einnig er lagt til að útgáfa tímarita verði undanþegin skv. 12. gr. á sama hátt og dagblöð og héraðsfréttablöð. Þá er lagt til að útgáfa bóka á íslenskri tungu falli undir sömu undanþágugrein frá og með 16. nóv. á næsta ári. Ástæða þess að sú dagsetning var valin er að ekki var talið rétt að láta

þessa breytingu hafa áhrif á tekjuforsendur fjárlaga fyrir næsta ár.
    Ég vænti þess að ekki þurfi að útskýra það hér í hv. deild að mikilvægt er að íslensk tunga og íslensk menning njóti ákveðinnar stöðu í skattakerfi landsins þar sem þessir tveir grundvallarþættir eru í reynd það sem gerir okkur að sjálfstæðri þjóð. Þess vegna taldi ríkisstjórnin rétt að beita sér fyrir þeim breytingum sem hér eru lagðar til á gildandi lögum um virðisaukaskatt.
    Í frv., eins og það er lagt hér fyrir hv. deild, er einnig lagt til að undanþágur verði vegna hitunar á húsnæði. Myndaðist nokkuð breið samstaða um það að rétt væri að undanþiggja hitunarkostnað og voru uppi hugmyndir um að gera það með ýmsum hætti, en hér er beinlínis lagt til að tekið verði af skarið með það að kostnaður við húshitun beri ekki virðisaukaskatt.
    Þá er einnig tekin hér inn undanþága vegna ökukennslu og enn fremur er undanþágan vegna íþrótta rýmkuð á þann hátt að íþróttastarfsemi, hver svo sem stendur straum af henni, njóti sömu skattameðferðar hvort sem hún fer fram hjá íþróttafélögum eða annars staðar. Einnig er að finna í frv. nokkuð nákvæm ákvæði um endurgreiðslu til íbúðabyggjenda vegna virðisaukaskatts af vinnu á byggingarstað og tekur það bæði til nýbygginga og einnig til verulegra endurbóta á húsnæði. Gert er ráð fyrir að endurgreiðslurnar verði með eftirfarandi hætti:
    1. Endurgreiða skal húsbyggjendum sem byggja íbúðarhúsnæði á eigin kostnað þann virðisaukaskatt sem þeir greiða vegna vinnu manna á byggingarstað við íbúðabygginguna.
    2. Endurgreiðslan skal ná jafnt til þeirra sem byggja íbúðarhúsnæði til eigin nota og þeirra sem byggja íbúðarhúsnæði til útleigu eða sölu.
    3. Endurgreiðslan fari fram ársfjórðungslega og skýrslu og sundurliðun á vinnureikningum skuli skilað í hvert skipti.
    4. Á reikningum frá byggingarverktökum skal vinnuþáttur tilgreindur sérstaklega.
    Þá kemur enn fremur fram í frv. að sömu reglur skuli gilda um endurbætur sem nema a.m.k. 7% af fasteignamati húseignarinnar.
    Í frv. er lagt til að fjmrh. verði heimilt að ákveða með reglugerð að endurgreiða sveitarfélögum virðisaukaskatt sem þau hafa greitt vegna kaupa á skattskyldri vöru eða þjónustu af atvinnufyrirtækjum. Samkvæmt gildandi lögum um virðisaukaskatt var ætlunin að sveitarfélögin greiddu neysluskatt af mun breiðari stofni en í dag vegna þess að vinna manna á byggingarstað verður skattskyld eftir áramót. Hins vegar hefur verið ákveðið af hálfu ríkisstjórnarinnar í fyrsta lagi að beita sér fyrir því að virðisaukaskattur til sveitarfélaga verði endurgreiddur. Í öðru lagi hefur fjmrn. nú þegar tilgreint ákveðna þætti þar sem endurgreiðslan mun gilda í bréfi sem ég sendi sveitarstjórnum og ég hef á fundi með forráðamönnum Sambands ísl. sveitarfélaga lýst því yfir að ekki sé ætlun ríkisstjórnarinnar að hafa framkvæmdir sveitarfélaga að sérstakri tekjulind í þessum efnum og

boðið forsvarsmönnum sveitarfélaga upp á nána samvinnu við fjmrn. um að fylgjast með hvernig virðisaukaskatturinn kemur út gagnvart sveitarfélögum og aðlaga framkvæmdina þeirri reynslu. Það hefur tekið nokkurn tíma í ýmsum löndum þar sem virðisaukaskattur hefur verið við lýði að finna honum eðlilegt form varðandi sveitarfélögin. Ég tel eðlilegt að það sé einnig gert hér í góðri samvinnu ríkisvalds og sveitarfélaga. Það er einnig mikilvægt að tryggja að jafnræði gildi milli sveitarfélaganna í þessum efnum vegna þess að ljóst er að virðisaukaskatturinn mun koma nokkuð misjafnt við sveitarfélögin.
    Þá hefur verið ákveðið hvað snertir greiðslufrest að í upphafi verði heimilaður gjaldfrestur í tolli á hráefni til iðnaðar og olíuvörur og skoðuð síðan frekari framkvæmd gjaldfrests í ljósi reynslunnar af næstu mánuðum og missirum. Það hefur nokkuð verið um það rætt að það kunni að leiða til verðhækkana að veita ekki þennan greiðslufrest í tolli strax í upphafi á allan innflutning. Það hafa farið fram ítarlegar athuganir í þessum efnum. Sérstakur óháður sérfræðingur sem samtök verslunarinnar fengu til þess að meta þennan þátt komst að þeirri niðurstöðu að ef greiðslufresturinn sem heildverslunin veitti smásölunni væri innan við 45 daga mundi þetta ekki leiða til neinna hækkana, jafnvel beinlínis lækkunar á vöruverði. Það væri ekki fyrr en
greiðslufresturinn sem heildsalan veitti smásölunni væri kominn yfir 45 daga að hugsanlega færi að koma inn einhver hækkun sem væri þó mjög lítil, ekki nema um 0,5--1% þegar komið væri yfir um tveggja mánaða frest frá heildverslun til smásöluverslunar.
    Það er líka rétt að árétta í þessu sambandi vegna þess að ég hef tekið eftir að það hefur nokkuð farið fram hjá mönnum í umræðunni að smásöluverslunin greiðir í dag töluverðan söluskatt, söluskatt af aðföngum, söluskatt af ýmissi þjónustu og öðru sem smásöluverslanir nota. Hjá smásöluverslun á landsbyggðinni hefur þessi söluskattur verið sérstaklega hár vegna þess að hann hefur lagst ofan á allan tilkostnað. Með virðisaukaskattinum fær smásöluverslunin þennan kostnað frádreginn í formi innskatts þannig að þessum skatti verður létt af smásöluversluninni, og það er alveg ljóst að nettóáhrifin eru þau að smásöluverslunin ber miklu minni fjármagnsbyrði eftir þessa breytingu en áður vegna þess að söluskatturinn íþyngdi smásöluversluninni nokkuð, sérstaklega smásöluverslun landbyggðarinnar, en nú verður allur slíkur skattur í formi innskatts sem viðkomandi fyrirtæki fá frádreginn. Sá sérstaki sérfræðingur sem Kaupmannasamtökin og Verslunarráðið fengu til þess að meta þetta mál og kynnti niðurstöður sínar á morgunverðarráðstefnu þessara samtaka fyrir u.þ.b. tveimur mánuðum síðan benti rækilega á það hvernig fjárhagsstaða smásöluverslunarinnar mundi styrkjast við þessa breytingu. Það er þess vegna alveg nauðsynlegt að hafa þennan þátt í huga þegar menn eru að meta tollkrítina eina og sér vegna þess að það eru heildaráhrifin á fjárhagsstöðu verslunarinnar sem

ber að skoða.
    Í frv. er einnig að finna ýmiss konar tæknilegar lagfæringar á virðisaukaskattslögunum sem sérfræðingar ríkisskattstjóraembættisins og fjmrn. og ýmsir aðrir sérfræðingar sem fengnir hafa verið til þessara starfa hafa talið nauðsynlegt að yrðu settar inn í lögin.
    Ég tel, virðulegi forseti, í ljósi tímans ekki þörf á að reifa þetta mál nánar hér í framsögu. Vissulega væri tilefni til þess að fara ítarlega út í virðisaukaskattinn sem slíkan. Hér er á ferðinni kerfisbreyting í skattamálum sem búið er að ræða um í hálfan annan áratug. Aðdragandi þessarar kerfisbreytingar hefur verið langur. Ýmsar ríkisstjórnir hafa komið að þessu verki og nú blasir það við okkur að láta hann koma til framkvæmda hér á Íslandi. Reynslan frá öðrum löndum kennir okkur það að það eru eðlilega, jafnvel á upphafsárum slíkrar skattbreytingar, ýmsir þættir sem þarf að skoða í ljósi reynslunnar og umræðan í Evrópu um virðisaukaskatt landa Evrópubandalagsins sýnir að menn ná aldrei lokaniðurstöðu í umræðunni um það hvers konar þrep eða hve margskiptur skattur er í sjálfu sér æskilegastur. Þess vegna er það auðvitað alveg ljóst að umræðunni um virðisaukaskatt er ekkert lokið hér á Íslandi þrátt fyrir þessa kerfisbreytingu. Þvert á móti er ég sannfærður um það að reynslan af framkvæmdinni mun á næsta ári leiða af sér margvíslegar umræður um reynsluna af þessum nýja skatti. Ég hef þó sannfærst um að hann feli í sér mikilvæga hagsmunabót fyrir atvinnuvegi okkar Íslendinga, sérstaklega útflutningsgreinarnar og þann iðnað sem á í samkeppni á erlendum mörkuðum og á innlendum markaði. Í því atvinnuástandi og því efnahagsástandi sem nú ríkir hér á Íslandi er mikilvægt að geta nýtt slíka kerfisbreytingu atvinnulífinu í landinu til hagsbóta.
    Ég mælist svo til þess, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr.