Tilhögun þingfunda
Mánudaginn 18. desember 1989


     Eyjólfur Konráð Jónsson (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég fagna því að framhald verði á umræðunni um skýrslu hæstv. utanrrh. um Evrópubandalagið og EFTA, en ég leyfi mér að benda forseta á að hér var útbýtt í Sþ. þann 30. nóv. till. til þál. um samningaviðræður við Evrópubandalagið um viðauka við bókun nr. 6 frá 1972, en flm. eru Eyjólfur Konráð Jónsson, Kristín Einarsdóttir og Ragnhildur Helgadóttir.
    Um þetta mál, um sérstaka tvíhliða samninga við Evrópubandalagið, var mjög mikið rætt dagana á undan, síðustu dagana í nóvember, í tengslum við umræðuna sem þá fór fram hér í Sþ. í utanrmn. á löngum og ströngum fundum þar sem reynt var að ná fullnaðarsamkomulagi um það sem núna er mest aðkallandi, þ.e. að ná tvíhliða samningum við Evrópubandalagið til þess að losna við 1--2 milljarða tolla, hvorki meira né minna, á sjávarafurðir í Evrópubandalaginu. Ég leyfi mér að fara þess á leit við hæstv. forseta að þetta mál verði einnig á dagskrá á morgun því að það er óhjákvæmilegt að umræður um þetta mál spinnist inn í hinar almennu umræður um samskiptin við Evrópubandalagið og EFTA, ekki síst þar sem einmitt núna á þessum degi sem hafinn er skrifar okkar utanrrh. undir það að Íslendingar taki þátt í samningaviðræðum EFTA og EB og þá er þessum þætti í viðamiklum og aðkallandi störfum ráðherrans lokið. Þess vegna þyrfti þessi till. til þál. að komast til utanrmn. nú fyrir þinghlé ef hún yrði þar strax rædd.
    Ég óska sem sagt eftir því að hún verði á dagskrá á morgun samhliða skýrslunni.