Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það má kannski segja að tímamót séu í samskiptamálum Vestur-Evrópu á þessum degi og þar með samskiptum okkar við Evrópuríki. Einmitt núna á þessari stundu er utanrrh. okkar að ganga frá samkomulagi um framhald viðræðna EB og EFTA eins og allir vita. Því má segja að þessi umræða sé nokkuð seint á ferðinni, þó hún sé kannski ekki lokaumræða um skýrslu ráðherrans. Sú umræða getur auðvitað haldið áfram seinna og ekki síður þó að ráðherrann sé nú kominn til landsins. Það er jafnvel frekar ástæða til að halda henni þá áfram. Miðað var við að henni yrði lokið áður en þessi dagur rynni upp, en svo er nú ekki.
    Ég vil byrja á því að taka fram að stefna míns flokks, Sjálfstfl., er alveg skýr í þessum málum. Við styðjum að samkomulag sé gert um áframhald viðræðna við EFTA og EB, buðumst raunar til að standa að formlegri samþykkt um það efni sem ekki hefur verið þegið og er út af fyrir sig ekkert við því að segja. Þegar að samningum kemur, og ég tala nú ekki um þegar að lyktum þeirra kemur, þá verður það mál auðvitað borið undir Alþingi þannig að þó þessu góða boði okkar hafi verið hafnað erum við ekki að erfa það.
    Að hinu leytinu teljum við alveg ljóst að taka beri upp viðræður til að undirbúa beinar samningaviðræður við Evrópubandalagið í samráði við utanrmn. um viðauka við bókun 6 frá 1972 eða um viðskiptamálefni Íslands og Evrópubandalagsins. Eins og nú háttar er það sem verið er að vinna að sameiginlega með öðrum EFTA-ríkjum einmitt enn þá brýnna en nokkurn tímann áður. Þó það sé góðra gjalda vert þá tekur það sinn tíma en hægt er að hraða hinu mikla nauðsynjamáli, að fá breytingar eða óska eftir breytingum á viðskiptasamkomulagi okkar við Evrópubandalagið sem er bandalaginu mjög hagstætt núna. Við flytjum inn svo til allar þeirra iðnaðarvörur tollfrjálsar en þeir tollleggja mikið okkar útflutningsvörur.
    Það kom mjög flatt upp á mig að hæstv. sjútvrh. skyldi hér í ræðu sinni enn túlka sjónarmið sem ég tel fráleit og ekki styðjast við nokkra stoð. Það kom líka flatt upp á mig að hann segir að nú, nánast í gær eða dag, hafi hann rætt við samstarfshóp atvinnurekenda í sjávarútvegi --- var það ekki það sem ráðherrann átti við? --- og þeir væru sér nokkurn veginn sammála um að ekkert hastaði að taka upp samningaviðræður um þann gífurlega óhag sem við höfum, ég nota það orð, óhag, í tvíhliða viðskiptum við Evrópubandalagið. Það tollleggur okkar vörur en við seljum þeirra vörur án tolla. Þetta veit ég að ráðamenn í Evrópubandalaginu munu vilja skoða og þess vegna er mjög brýnt að Alþingi afgreiði till. til þál. sem ég flyt ásamt hv. þm. Kristínu Einarsdóttur og Ragnhildi Helgadóttur á þskj. 233. Sú tillaga er einföld í sniðum. Hún fæddist raunar í löngum umræðum á utanríkismálanefndarfundum sem stóðu fram á nótt þar sem ég vissi ekki betur en menn ætluðu að reyna að

slíðra sverð og byrja að tala af einhverju viti um þessi mál en ekki með einhverjum fullyrðingum og kúrsum þannig að allsherjarsamkomulag hefði getað tekist um málið. Því miður fór svo að það sprakk nú degi síðar hver sem hefur orðið valdur að því og skal ég engan dóm á það leggja.
    En ég er sem sagt með tillögu í þessa átt sem hér er flutt. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela forsrh. og utanrrh. að undirbúa nú þegar í samráði við utanrmn. beinar samningaviðræður við Evrópubandalagið um viðauka við bókun 6 frá 1972.``
    Auðvitað er það ekkert kappsmál flm. að tillagan sé samþykkt nákvæmlega orðrétt eins og hér stendur. Henni má auðvitað breyta, en aðalatriðið er að hún verði afgreidd nú og ég er forseta mjög þakklátur fyrir að verða við þeim tilmælum mínum sem ég setti fram í umræðum um þingsköp á liðinni nóttu um að þessi tillaga yrði nú á dagskrá samhliða skýrslunni sem við erum að ræða og að hún fengi afgreiðslu a.m.k. með þeim hætti að hún yrði send til hv. utanrmn. þar sem hún yrði rædd. Ef þinghlé verður með eðlilegum hætti er einmitt upplagt að nota tímann til að utanrmn. starfi. Þá verður hæstv. utanrrh. kominn og búið að leysa hann undan þeim miklu skyldum sem hann hefur gætt, ekki bara fyrir Íslendinga heldur fyrir EFTA-löndin í heild sl. hálft ár, en sá tími rennur einmitt út um áramót. Hann mun þá hafa miklu meiri tíma til þess að vera hér með okkur og ræða þessi sérstöku hagsmunamál okkar.
    Ástæða þess að ég held að þetta muni geta tekist er sú að einmitt í bókun ríkisstjórnarinnar frá 29. nóv. er talað um tvíhliða viðræður. Menn eru farnir að tala um það í öðru orðinu að sjálfsagt sé að vera með tvíhliða viðræður en í hinu að það eigi alls ekki að gera það. Ég skil satt að segja ekki röksemdafærsluna sem að baki þessu liggur. En svo að ég ljúki nú við að yfirfara það sem hæstv. sjútvrh. sagði hér áðan, að við værum ekki í stakk búnir til að hefja tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið, ekki í stakk búnir til þess. Og ástæðurnar eru fjórar: Viðræður milli EB og EFTA. Þær halda auðvitað áfram alveg burtséð frá því hvort við ræðum við Evrópubandalagið. Við höfum fullan rétt til þess. Þeir hafa meira að segja æ ofan í æ óskað eftir
díalóg við okkur. Það hefur verið gert núna árum saman og það hafa verið æðstu menn sem það hafa gert. Það hefur t.d. verið de Clercq. Sjútvrh. talaði um að við hefðum einhvern tímann verið að ræða við einhverjar sjávarútvegsnefndir Evrópubandalagsins. Allt frá 1976, þegar talað var um bókun 6, er það Gaston Thorn, forseti ráðherraráðs EB, sem við okkur ræddi. Og að Evrópubandalagið krefjist veiðiheimilda fyrir viðskiptasamninga, það stendur hvergi stafur um það og hefur aldrei gert í okkar viðræðum fyrr nema þá núna upp á síðkastið, síðustu missiri. Því hefur alltaf verið neitað, aldrei komið til greina. Það eru ekki tvíhliða viðræður þó að einhverjir menn hittist, einstaklingar, þó þeir séu með ráðherraembætti. Það eru tvíhliða og beinar viðræður við bandalagið sjálft

sem stofnun sem farið er fram á og sjálfsagt er að uppfylla. Ekki er hægt að benda á eitt einasta dæmi neins staðar um að það sé stefna Evrópubandalagsins að alltaf þegar samið er um viðskipti skuli veiðiréttindi koma í staðinn. Hvernig getur mönnum dottið þessi endaleysa í hug? Um hvað er verið að semja við Svisslendinga, Austurríkismenn, Ungverja og alla mögulega? Ætla þeir að fá fiskveiðiréttindi fyrir tollaréttindin? Þetta dæmi gengur bara ekki upp. Menn verða að hætta að hugsa svona. Við fáum náttúrlega enga samninga við menn sem við ætlum ekkert að semja við ef við erum að bjóða þeim veiðiréttindi, sem aldrei verða föl.
    Síðan var annar liðurinn: Jafnframt er það ljóst að það sem staðið hefur í vegi er sjávarútvegsstefna Evrópubandalagsins, sem hefur uppi kröfur um fiskveiðiréttindi í staðinn fyrir aðgang að mörkuðum. Hvar eru þessar kröfur nema í hugarheimi ráðherranna? Ég hef ekki séð eða heyrt neinn setja fram kröfur um fiskveiðiréttindi á Íslandsmiðum. Það er bara í þessum sal sem verið er að tala um þessa endaleysu.
    Það þriðja var: Líklegt er að sjávarútvegshagsmunir verði mjög uppi ef við förum að ræða viðskiptamál og tollamál við Evrópubandalagið. Ég óskaði eftir greinargerð, að utanrrn. útvegaði greinargerð um gang mála í kerfi Evrópubandalagsins. Þá greinargerð fékk raunar sjútvrh. líka. Það er flókinn gangur mála þar, það er alveg rétt. Ég er auðvitað búinn að afhenda þetta öllum í Evrópubandalagsnefnd sem nú starfar að þessum málum. Líklega er rétt að lesa þessa skýrslu sendiráðsins upp hér, með leyfi forseta, þannig að menn sjái að það er ekki sjávarútvegsráðuneyti sem ræður öllum málum þarna, tollamálum og viðskiptamálum, aldeilis ekki. En skýrslan hljóðar þannig:
    ,,Allar aðgerðir, ákvarðanir og tilkynningar framkvæmdastjórnar EB eru gerðar í nafni hennar allrar og ber hún sameiginlega ábyrgð á þeim. Því eru allar ákvarðanir bornar undir allar aðalskrifstofurnar 23. Þetta á ekki síst við þegar framkvæmdastjórnin gerir tillögur til ráðsins um samningsumboð sér til handa við þriðja ríki [sem við erum að fara fram á hér]. Drög að slíkum tillögum eru þá send öllum skrifstofum til umsagnar og vega þá umsagnir þeirrar skrifstofu þyngst sem málið er skyldast. Til þess að unnt væri að ganga frá umboði til samninga við Ísland sem hefðu það að markmiði að rýmka innflutning íslenskra sjávarafurða fyrir EB, yrði sjávarútvegsskrifstofan að samþykkja það.``
    Það má kannski teygja þetta orðalag. Við erum hins vegar ekki að fara fram á rýmkaðan innflutning, við höfum frjálsan innflutning þangað. Við erum að fara fram á tollamál, lækkun tolla og almennan viðskiptasamning. Að sjálfsögðu er verkaskipting meðal skrifstofanna og hefur hver sín sérsvið sem hún ber aðalábyrgð á. T.d. má nefna að DG, þ.e. stjórnardeild, vil ég nú kalla þetta, stjórnardeild 1 sér um samskipti við þriðja ríki og viðskiptastefnu Evrópubandalagsins. Stjórnardeild 14 sér um

sjávarútvegsmál og stjórnardeild 21 sér um tollamál og óbeina skatta. Hin síðastnefnda ber þó aðeins ábyrgð á rekstri tollabandalagsins en tekur ekki efnislega afstöðu til þess hvort hækka eigi eða lækka tolla, setja tollakvóta eða afnema þá.
    Ég ætla nú aðeins að stytta mál mitt og lesa niðurlagið en skýrslan er aðgengileg hverjum sem vill hafa hana. Niðurlagið er svona:
    ,,Ef hins vegar er um að ræða meiri háttar viðskiptasamninga þar sem gæta verður jafnréttis milli margra ólíkra þátta tekur utanríkismálaskrifstofan yfir oddahlutverkið og gengur frá samningnum en að sjálfsögðu í samráði við viðkomandi faglegar skrifstofur.``
    Þetta er nú mergurinn málsins. Og af því að hv. þm. Matthías Bjarnason situr hér á móti mér, þá minnist hann þess vel hvernig farið var með þessi mál þegar hann var ráðherra. Það var auðvitað aldrei léð máls á nokkrum fiskveiðiréttindum. Það stendur bókað bæði í bak og fyrir í öllum skjölum utanrrn.
    Það fjórða sem hæstv. ráðherra nefndi var að sjávarútvegsskrifstofan væri í gegnum tíðina fyrst og fremst í forsvari, t.d. 1972--1976. Hún kom hvergi nærri. Það voru æðstu menn bandalagsins sem voru þá líka raunar að leysa deilu á milli aðildarríkis að Evrópubandalaginu, Bretlands, og Íslendinga. Menn þekkja allir hér inni sögu bókunar 6. Þar voru æðstu menn Evrópubandalagsins að verki en engin sjávarútvegsskrifstofa. Jafnframt yrði rætt um tolla, segir hæstv. ráðherra. Tollar heyra alls ekki undir sjávarútvegsskrifstofuna. Þeir
heyra undir, eins og ég var að lesa upp, deild 23 eða 22, ég man nú ekki hvor það var, það skiptir ekki máli.
    Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta. Þessi ummæli hæstv. sjútvrh. hafa vissulega valdið mér gífurlegum vonbrigðum. Ég hélt fyrir nokkru þegar við ræddum saman um þessi mál að sættir mættu takast um að vera ekki að deila um þetta, svona sjálfsagðan hlut, og ég vonaði að það mundi niður falla og af minni hálfu gerir það það. Mér finnst ekki sæmandi að vera að rífast um þetta lengur, þetta liggur allt fyrir. Við getum hvenær sem er orðið við óskum Evrópubandalagsins um díalóginn sem þeir hafa verið að tala um, m.a. de Clercq hér í Reykjavík 1986, margsinnis í mín eyru af því það vildi svo til að ég hafði nokkurra klukkutíma tækifæri til að ræða við þann mann. Við eigum ekki að vera að vekja upp þennan draug og aldrei að orða það héðan í frá að til greina geti komið að Evrópubandalagið fiski svo mikið sem einn einasta ugga við Ísland. Þegar sú yfirlýsing liggur fyrir mun enginn innan bandalagsins nokkru sinni orða það, ef þeir hafa þá haft frumkvæðið að því að vekja þetta upp. Ég kemst ekki hjá því að fá að lesa hérna upp örfáar línur eftir Jakob Jakobsson. Hann fjallar um fiskveiðiréttindi, að sjálfsögðu, um fiskveiðar. Hann segir hér fyrir viku síðan, með leyfi forseta:
    ,,Nú er gegndarlaus ofveiði stunduð í Norðursjó og ber Evrópubandalagið alla ábyrgð á henni. Reynsla

okkar af stjórn þeirra á fiskveiðum er skelfileg. Við erum hreinustu englar samanborið við þá. Ef Evrópubandalagið verður látið hafa forsjá með fiskveiðum við Íslandsstrendur, þá hika ég ekki við að segja að fiskimiðin okkar verða einskis virði innan fárra ára.`` Það er gegndarlaus ofveiði í landhelgi Evrópubandalagsríkjanna. Og hvað er þar við lýði? Það er hin sameiginlega fiskveiðistefna Efnahagsbandalagsins sem allir eru að tala um. Hún er á milli bandalagsríkjanna sjálfra, ekki út á við, það ættu menn að fara að skilja. Þessi sameiginlega fiskveiðistefna er að eyðileggja alla stofna undan ströndum Vestur-Evrópu. Það er þess vegna sem við eigum ekki undir neinum kringumstæðum að óbreyttum aðstæðum að ýja að því að við ætlum að ganga í bandalagið. Við fengjum kannski einhver sérréttindi til fiskveiða fyrst eftir að við værum orðnir aðilar að bandalaginu en það mundi fljótt hverfa. Þá yrði hin sameiginlega fiskveiðistefna Evrópubandalagsins sem rakin er allt aftur til Rómarsáttmálans sem var samþykktur 1957 virk. Það er enn þá verið að vitna í hann um sameiginlega fiskveiðistefnu sem á að ná hér norður til Íslands þó að við höfum aldrei sótt um neina aðild að þessu sameiginlega bandalagi. Það er um þetta sem málið snýst og ég hélt að ég þyrfti ekki að orða það hér nú.
    En margir eru á mælendaskrá og margir eiga rétt á því að komast að. Þessi umræða hefur dregist um of á langinn og þess vegna ætla ég ekki að lengja mjög mál mitt. Ég vil aðeins vekja athygli á að það eru viss orð eða nöfn á umræðum o.s.frv., nýyrði nánast, sem menn verða að átta sig á. Menn eru stundum að blanda því saman hvað felist í þeim viðræðum sem fram fara á hverri stundu. Utanrrn. hefur sent til mín og okkar í EB-nefndinni skýringar sem væri gott að menn hafi allir á takteinum. Það er í fyrsta lagi að viðræður sem staðið hafa yfir voru könnunarviðræður en á ensku hafa þær verið nefndar ,,informal talks`` eða ,,fact finding talks``. Annað er að viðræður sem fyrirhugaðar eru í byrjun árs 1990 verða undirbúningsviðræður vegna væntanlegra samninga. Á ensku eru þær nefndar ,,exploratory talks``, og þriðja: Viðræður sem fylgja í kjölfar undirbúningsviðræðnanna verða formlegar samningaviðræður, þýðing á ensku orðunum ,,formal negotiations``. Ég held að nauðsynlegt sé að við hugleiðum öll að fara þarna rétt með.
    Enn þá er eftir það sem hér er kallað undirbúningsviðræður og það er það sem verið er að ákveða í dag að við tökum þátt í. Við erum ekki að skuldbinda okkur til eins eða neins með því að taka þátt í þeim viðræðum og kannski heldur ekki formlegum samningaviðræðum. Við erum ekki skuldbundnir fyrr en við höfum skrifað undir og Alþingi staðfest það samkomulag ef það í einhverju skerðir íslenska lögsögu, snertir íslenska löggjöf eða það á einhvern hátt gæti rýrt íslensk landsréttindi. Það bíður allt síns tíma. Þess vegna er engin áhætta í því fólgin að halda þessum viðræðum áfram, en auðvitað verður bæði þing og þjóð að fá að fylgjast með þeim

og við erum svo heppin að hafa nú einmitt utanrmn. þar sem alger þagmælska ríkir og svo EB-nefndina þar við hliðina sem auðvitað er undir sömu sökina seld að uppljóstra ekki því sem dult á að fara. Þarna eigum við auðvitað að vinna saman að því að fylgjast með hverju spori sem stigið verður. Eins og ég sagði áðan mun hæstv. utanrrh. að sjálfsögðu hafa miklu meiri tíma til að starfa að þessum málum með okkur hér þegar hann er laus undan þungum skyldustörfum sem hafa á honum hvílt.
    Eins og komið hefur fram í ræðum margra manna eru umbyltingarnar í Evrópu svo örar að menn fygjast þar varla með. Þess vegna er alveg fráleitt að vera að tala um einhverja stefnu eða ákvarðanir sem teknar hafa verið um að miða við árið 1992 eða 1993 eða eitthvað slíkt, að ekkert geti gerst fyrr, vitna jafnvel aftur í Rómarsáttmálann 1957, að allt sé óbreytt síðan þá. Breytingarnar eru svo örar að við megum hafa okkur öll við að fylgjast með því
sem er að gerast. Nú síðast er það að á þessari stundu er hvorki meira né minna en utanríkisráðherra Sovétríkjanna, Shevardnadze, í heimsókn hjá Atlantshafsbandalaginu, aðalstöðvum þess í Brussel, þessari frægu Brussel sem allt snýst um nú um þessar mundir. Við skulum þess vegna ekki bíta okkur í eitthvað sem var rétt í gær eða fyrradag eða hittiðfyrradag. Við skulum líta á staðreyndirnar eins og þær eru. Það er allt galopið í Evrópu í dag, allt saman. Allar viðræður er hægt að taka upp hvaða nafni sem þær nefnast. Þó að allt sem sagt hefur verið um erfiðleika við að taka upp tvíhliða, beinar, formlegar viðræður við EB kynni að hafa verið satt fyrir tveim, þrem eða fjórum árum, þá er það allt saman fokið út í veður og vind. Það er talað um hvað sem er, hvar sem er. Við eigum að taka þátt í þeim viðræðum, auðvitað formlegum, benda á það algera réttlætismál að við sitjum við sama borð í tollamálum og viðskiptamálum og Evrópubandalagið nýtur gagnvart okkur. Að það ríki jafnrétti. Það er einmitt það sem þeir eru alltaf að segja, eitthvað í staðinn fyrir eitthvað. Þegar við erum búnir að opna okkar markað fyrir þeirra vörur, þá eru þeir skyldugir eftir sínum eigin kenningum að opna sinn markað fyrir okkar vörur. Ef það er tollfrelsi á þeirra vörum hér á eftir kennisetningunni að vera tollfrelsi á okkar vörum hjá þeim. Það er gagnkvæmnin. Og ef mennirnir geta ekki skilið þetta þá skilja þeir ekki neitt.
    En ég segi aftur, reynum nú að setja þessar deilur niður og sameinumst um að vinna þetta mál og komast að niðurstöðu. Það hafa oft verið heitar deilur á Alþingi Íslendinga um utanríkismál og miklu heitari en við höfum kynnst hér. Hér held ég að sé meira og minna um misskilning að ræða. En í svo til öllum tilfellum hefur Alþingi borið gæfu til þess, t.d. í landhelgismálunum og í öllum hafréttarmálunum sem við höfum verið að vinna stórsigra í á síðustu 12 árum, Jan Mayen-málin bæði og fiskveiðiréttindin og landgrunnsréttindi á Reykjaneshrygg, Rockall-svæðið o.s.frv., allt saman samþykkt einróma á Alþingi og enginn þurfti að rífast um það. Við förum heldur

ekkert að rífast um fiskveiðiréttindin, þau látum við aldrei af hendi. Það er alveg á hreinu og þýðir ekkert um það að tala.
    Hitt er annað mál að einmitt vegna þessa mikla hraða sem er á má kannski segja að við séum ekki, svo ég víki aftur að orðum hæstv. sjútvrh., eins vel í stakk búin eins og þyrfti að vera, við þyrftum kannski að hafa hér fleiri embættismenn og meira starf. En ég held nú samt að okkar embættismenn standi fullkomlega jafnfætis embættismönnum stóru þjóðanna. M.a. vegna þess að þeir hafa afmörkuð starfssvið og þeir vita hvað þeir vilja og þeir vita hvað þeirra þjóð vill og þeirra stjórnendur og þurfa að vita það. En vandasamt verk er fram undan fyrir okkur hér á þinginu og við eigum að einbeita okkur að þessum málum. Að vísu eru tollarnir sem teknir eru í Evrópubandalaginu kannski ekki nema einn milljarður, gætu orðið tveir á þessu næsta ári. Það er líka peningur þegar rifist er um hverja krónu. En það er auðvitað metnaðarmál okkar að láta ekki fara svona með okkur, að við leggjum niður alla þeirra tolla en þorum ekki einu sinni að spyrja þá: Getið þið nú ekki leyft okkur að tala um það við ykkur í fullri alvöru hvort þetta sé réttlæti? Má ekki spyrja mennina að því, æðstu mennina að sjálfsögðu, bandalagið sjálft? Ekki einhverja gesti eða gestgjafa. Það er góðra gjalda vert að gera það líka. En það eru formlegar viðræður að sjálfsögðu við bandalagið, Evrópubandalagið, ekki einstakar bandalagsþjóðir, formlegar viðræður við viðsemjendur okkar, sem er Evrópubandalagið allt frá 1972, frá bókun 6. Þá er það Evrópubandalagið og menn vita væntanlega hvað það er. Það er stofnun sem hefur aðalaðsetur í Brussel og 20 þúsund starfsmenn, þar af eitthvað 50 manns í þessu sjávarútvegsráðuneyti sem fer með 0,14% af heildarveltu bandalagsþjóðanna og hefur áhrif eftir því. Það þýðir lítið að tala við það fólk. Það á að tala við þá menn sem ráða í þessu bandalagi.
    Ég hef lofað bæði ráðherra og einum hv. þm. að skilja eftir tíma þannig að fleiri en einn eða tveir eða þrír kæmust að og ætla þess vegna að ljúka máli mínu.