Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég held ég verði að fara fram á að einhver ráðherra Alþb. sé viðstaddur þessa umræðu. ( Forseti: Forseti skal fara fram á það við þingverði að ráðherrum Alþb. verði gert að koma til þingsalar.)
    Hæstv. forseti. Fulltrúi Kvennalistans í Evrópustefnunefnd, hv. þingkona Kristín Einarsdóttir, hefur þegar lýst afstöðu okkar kvennalistakvenna til þeirra viðræðna sem hér hafa verið á dagskrá. Mig langar samt að segja hér nokkur orð og þá til að leiða hugann að öðru samhengi en flestir hafa rætt hér. Reyndin er sú að umræður um Evrópubandalagið, viðræður milli þess og EFTA, svo og umræður um afstöðu Íslendinga gagnvart þessu stóra bandalagi, eru komnar mjög stutt á veg þrátt fyrir þann tíma sem hér var tilgreindur að talað hefði verið í þingsölum --- og sakna ég nú hæstv. staðgengils utanrrh. í salnum --- bæði meðal þingmanna og þjóðarinnar allrar, eins og reyndar kom fram í nýlegri skoðanakönnun um þetta mál. Við getum efalaust mörg litið í eigin barm og fundið til vanþekkingar á veigamiklum málsatriðum í þessu máli. Jafnvel þó við höfum reynt að kynna okkur það af alúð. Samt er málið afar mikilvægt og varðar í raun sjálfstæði Íslands og afkomu í framtíðinni ef vel er að gáð.
    Svo virðist sem jafnaðarmenn á Norðurlöndum séu öðrum fremur hugfangnir af þátttöku og aðild að Evrópubandalaginu. Er það ekki síst á grundvelli alþjóðahyggju þeirra og virðast þeir bera furðu litla tortryggni gagnvart slíkri aðild eða líta hana ekki mjög gagnrýnum augum, jafnvel fulltrúar fámennra þjóða. Undrast ég það, einkum þegar litið er til megináherslna bandalagsins á frelsi fjármagns, vöru, vinnuafls og þjónustu, umfram skilgreiningar á frelsi, jöfnuði og rétti fólksins sem býr í þessum löndum. Nú eru vissulega ýmsir Norðurlandabúar sem vilja fyrst og fremst líta á sig sem
Evrópubúa, sem þeir vissulega og eru. Þeir segjast finna til ríkari menningarlegrar samkenndar með þjóðum Evrópu en með þjóðum annarra heimsálfa og vilja einnig meiri og greiðari samskipti þjóðanna. Sumir eygja jafnvel von um meiri líkur á friði til frambúðar þegar samskipti aukast því með þeim hljóti einnig að fylgja ríkari skilningur, færri fordómar, frjóari jarðvegur fyrir friðsamlega sambúð. Þessar væntingar eflast svo þegar Vestur-Evrópubúar horfa á það og trúa vart sínum eigin augum hvernig Austur-Evrópa opnast dag frá degi, múrar hrynja og lengi bæld frelsisþrá þjóða ryður burt hindrunum. Staðnaðir gæslumenn úrelts kerfis víkja, bráðna næstum eins og snjókarlar í vorsól og renna burt í leysingunum. Þessar hindranir og þessi frelsisskerðing sem var ákveðin og fyrirskipuð af mönnum bjó einnig í huga okkar hinna sem löngu þekkt staðreynd og birtist á táknrænan hátt í þeim Berlínarmúr sem nú hefur verið brotinn. Baráttan til að opna múrinn, eyða tortryggninni, hefur verið langtímaverkefni margra og margir hafa einnig hætt og fórnað lífi sínu til að leita annarra kosta. Það undarlega er að einn daginn opnast

hann svo friðsamlega og, að því er virðist, fyrirhafnarlaust á jafntáknrænan hátt og hann var reistur, þ.e. samkvæmt ákvörðun og fyrirskipun mannanna.
    Sú samstaða og þrá fólksins í Austur-Evrópu eftir öðru og betra lífi sem okkur Vestur-Evrópubúum hefur birst í sjónvarpi og öðrum fjölmiðlum hefur snortið okkur. Vestur-Berlínarbúar gáfu samlöndum sínum austan að hundrað vestur-þýsk mörk til að versla fyrir og njóta lífsins þegar þeir komust í gegnum múrinn. En hvað er það í raun og veru sem Vestur-Evrópa býður Austur-Evrópu upp á? Og hvað er það sem Evrópubandalagið og þjóðir Evrópu bjóða umheiminum upp á? Eru Vestur-Evrópuþjóðir að bjóða Austur-Evrópuþjóðum sæti við veisluborð neysluþjóðfélagsins þegar veislunni er þegar lokið? Geta Evrópuþjóðirnar í raun haldið áfram uppteknum hætti við auðlindirnar og við náttúruna í sókn eftir auknum hagvexti? Getur sá hluti jarðarbúa sem byggir norðurhvel jarðarinnar og Evrópa tilheyrir haldið áfram að efla veldi sitt og ágang á auðlindir, mengað bæði vistkerfi sitt og annarra jarðarbúa með þeim lífsháttum sem við höfum tamið okkur? Hverjar eru svo meginforsendur þess Evrópubandalags sem við ræðum um nú? Eru þær líklegar til að efla friðinn milli fólksins, milli þjóðanna, vernda náttúruna og virða auðlindirnar? Eru þær til þess fallnar að styrkja menningarlega samkennd Evrópubúa? Eru þær til þess fallnar að vernda rétt þriðja heimsins? Hafa þær félagslega velferð fólksins í huga, fólksins sem býr í Evrópu, vinnuaflsins sem á að öðlast frelsi til búsetu hvar sem er? Og leiði menn nú hugann að því þegar Norðurlandabúar og aðrir Evrópubúar sóttust eftir ódýru vinnuafli annars staðar úr Evrópu, Suður-Evrópu og jafnvel úr Asíulöndum. Þá hugsuðu menn um vinnuafl. Þeir hugsuðu ekki um manneskjur. Þeir hugsuðu ekki, þeim datt ekki í hug að vinnuaflið ætti kannski eiginkonur, það ætti börn, það ætti ömmur og afa, það ætti systkini og frænkur sem líka vildu flytjast til landsins. Menn gerðu ekki ráð fyrir því að vinnuaflið hefði tilfinningar, þrár og þarfir. Nú sitja menn uppi með vandamál sem þeir sjálfir hafa boðið heim, grunlausir, án þess að gera sér grein fyrir hvað þeir voru að fjalla um. Eru þessar reglur Evrópubandalagsins settar af og komnar frá fólkinu sjálfu? Svari nú hver fyrir
sig. Og dettur mönnum í hug að það frelsi sem Austur-Evrópubúar eru að sækjast eftir sé einmitt sú tegund frelsis og sú þjóðfélagsgerð sem við skilgreinum og iðkum hér á Vesturlöndum? Frelsi til umhverfisspjalla, frelsi til hagvaxtarfíknar, frelsi til að ganga á auðlindir. Ég efast um það. Það er kannski fyrst og fremst frelsi til að fá að ákveða sjálfur og það er af allt öðrum toga spunnið.
    Eins og málið blasir við mér er fyrst og fremst um að ræða forsendur sem settar hafa verið með tilliti til hagsmuna fyrirtækja og fjármagns og það fjórþætta frelsi sem við ræðum nú er fyrst og fremst þeim í hag. Hins vegar hafa þeir þættir er snerta þarfir almennings, fólksins, verið látnir sitja á hakanum, þ.e.

félagslegu og menningarlegu þættirnir, og lítið er vikið að verndun náttúrunnar og auðlindanna.
    Mikið hefur verið rætt um ákvarðanatöku innan Evrópubandalagsins, feril hennar og aðild og rétt einstakra ríkja að henni, með tilliti til evrópska efnahagssvæðisins. Eins og nú er er hið yfirþjóðlega vald bandalagsins andstætt þeim lýðræðislegu hefðum sem við aðhyllumst og ber í sér margvíslega hættu. Og mig langar að nefna dæmi sem ég tók reyndar í umræðu um fyrirspurn sem hér var gerð á dögunum því að dæmið er mjög ljóst.
    Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur það hlutverk að annast skráningu þeirra efna í markaðsvörum sem eru ýmist sannanlega skaðleg lífi og heilsu manna eða talin líklegir skaðvaldar. Þessari skrá Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er dreift til aðildarríkja, þar á meðal ríkja Evrópubandalagsins. Í henni eru á þriðja hundrað efna sem talin eru sannanlega skaðleg. Hins vegar eru aðeins rúmlega áttatíu þessara efna á skrá Evrópubandalagsins. Staðall þess er því mun lægri og frjálslegar farið með þau efni sem skaðað geta líf og heilsu manna. Öll Norðurlöndin hafa hins vegar strangari kröfur í þessum efnum en Evrópubandalagið. Danmörk t.d. sem eitt Norðurlandanna verður þó að láta af þessum kröfum sínum vegna aðildar sinnar að Evrópubandalaginu. Má sem dæmi nefna eiturefni í málningu sem er innflutt til Danmerkur. Slíka málningu má ekki merkja með viðvörunarmerkjum um að hún innihaldi eiturefni til þess að vernda viðskiptafrelsið. Þetta er vegna þess að ákvarðanir, reglur og lög Evrópubandalagsheildarinnar eru ákvörðunum, reglum og lögum einstakra aðildarlanda yfirsterkari. Og ég tek þetta sem varhugavert dæmi.
    Um leið og ég legg áherslu á mikilvægi friðsamlegra samskipta og viðskipta okkar við aðrar þjóðir og ég vara við einangrunarstefnu, þá leyfi ég mér að vara mjög við þeim stórveldisdraumum sem mér finnst vaka í þeirri hugmyndafræði sem liggur til grundvallar Evrópubandalaginu. Og ég bið menn einnig að vera vakandi fyrir þeirri forgangsröðun og því verðmætamati sem þar ríkir. Frelsi Austur-Evrópubúa eða Vestur-Evrópubúa liggur ekki í því að geta flutt franskt kex frá Suður-Frakklandi til Norður-Jótlands annars vegar og svo danskt kex sömu leið til baka. Frelsi okkar þegar til framtíðar er litið er miklu fremur fólgið í bættri umgengni við umhverfi okkar og auðlindir, hófsamari neyslu og síðast en ekki síst jafnari skiptingu lífsgæða milli manna og þjóða. Þá á ég ekki einungis við Evrópuþjóðir innbyrðis heldur einnig þær þjóðir á norðurhveli jarðar sem helst eru aflögufærar gagnvart þjóðum þriðja heimsins. Þetta er samhengi sem við megum ekki gleyma og er óhjákvæmilegt að líta til þegar rædd eru tengsl við þjóðabandalag sem hefur hagsmuni fjármagnsins í fyrirrúmi.
    Við skulum líka vera vakandi fyrir því nú á tímum þíðu og slökunar að nær allar þjóðir Evrópubandalagsins eru jafnframt aðilar að hernaðarbandalagi. Hernaðarbandalagið sem að vísu

stendur á krossgötum og hefur jafnvel verið ýjað að því að kynni að verða náttúruverndarsamtök, og guð gefi því orði sigur eins og gömul kona sagði, þarf að endurskoða stefnu sína og hlutverk í breyttum og síbreytilegum heimi. Þeir sem stofna til voldugra markaða hafa ævinlega haft tilhneigingu til að verja þá fyrir öðrum, jafnvel með vopnum. Ég vil minna menn á þetta, ekki síst sögufróða menn eins og hæstv. utanrrh. sem nú er fjarstaddur og oft hefur haft á orði tilvitnanir úr sögu Evrópu í þessum ræðustól. Það er athyglisvert hve margir Íslendingar og þar á meðal hæstv. utanrrh. tengja lífshætti Íslendinga hér áður fyrr, þá lífshætti sem báru hann hingað eftir götuslóða kynslóðanna inn í þennan sal og okkur öll hin, hvað þeim finnst lífshættir eins og vaðmál og kúskinnsskór lágkúrulegt. Mér finnst það hins vegar vísa til hugrenningatengsla sem segja miklu meira um sjálfsímynd þessara manna og raunverulega þjóðlega minnimáttarkennd. Og ég ber kvíðboga gagnvart því að eiga slíkan sendiboða á erlendri grund sem mér finnst nokkuð fyrirverða sig fyrir að íslensk þjóð skuli hafa þraukað af í þessu harða landi, í vaðmáli og kúskinnsskóm ekki síst.
    Staða okkar í þessu máli er nokkuð þröng og það skiptir okkur miklu að... ( Forseti: Má forseti spyrja hv. þm. hvort hann eigi langt eftir af ræðu sinni. Nú hefjast þingflokksfundir kl. 2 og það er þegar kominn sá tími. Sé eftir meira en 2--3 mínútur af ræðu hv. þm. hlýt ég að biðja hann að fresta henni til framhalds umræðunnar.) Nei, ég er alveg að ljúka ræðu minni, en líklega
verð ég fremur 3 mínútur eða 4 en það verður ekki mikið lengra og ræðukona skal lesa hratt.
    Staða okkar Íslendinga í þessu máli er nokkuð þröng og það varðar okkur miklu að vel sé á hlut okkar haldið. Það er ekki seinna vænna að við gerum okkur öll fullljóst hver sé meginundirstaða lífs okkar í þessu landi og sem betur fer hefur skilningur á því komið fram hjá flestum ef ekki öllum þingmönnum sem hafa talað um þetta mál. Hins vegar er mikilvægt að þeir sem taka þátt i viðræðum erlendis fyrir okkar hönd gleymi því aldrei eitt andartak að fjöregg efnahagslegrar afkomu Íslendinga bæði í nútíð og framtíð er fiskimið okkar, verndun þeirra og hófleg nýting. Og ég lagði við eyrun þegar hæstv. utanrrh., staðgengill hans, talaði hér áðan. Hann talaði um að fylgja eftir, hann talaði um að leggja áherslu á. En það voru engin sterkari orð sem vörðuðu fiskveiðar og meðhöndlun fríverslunar með fisk og það óttast ég mjög.
    Rætt hefur verið um þá hættu sem jaðarsvæðum er búin og það var minnst fyrr í umræðunni á tilvitnun úr Kristnihaldi undir jökli þar sem lýst var umboði sem umboðsmanni biskups hafði verið fengið. En sá höfundur sem það skrifaði skrifaði líka Íslandsklukkuna, ,,Eldur í Kaupinhafn`` og þar lýsti hann því hvernig menn föluðust eftir aðgangi að og yfirráðum yfir íslenskum auðlindum, þeim sem þá þóttu eftirsóknarverðar. Og mig langar að vitna, með leyfi hæstv. forseta, í ,,Eld í Kaupinhafn``. Þar talar

fulltrúi konungs:
    ,,Við hér kærum okkur ekki um að íslenskir dragi meiri fisk en við höfum gagn af. Þegar við getum aftur haft stríð við þá svensku skulu þeir fá meira snæri; og meira að segja aungla.
    Yðar góðvild vill heldur láta kónginn kaupa þessu fólki hallæriskorn en lofa því að draga fiska?
    Það sagði ég aldrei, sagði etasráðið. Mín skoðun er sú að það sem okkur hafi altaf vantað á Íslandi sé vellukkað harðræði til þess að sá óvandaði flökkulýður sem fer um landið hverfi í eitt skipti fyrir öll, og þeir fáu menn sem einhver dugur er í geti ótruflaðir af þjófum og betlurum dregið þann fisk sem compagniet þarfnast þá og þá og brætt það lýsi sem Kaupinhafn verður að fá.
    Má ég skila því til Alþíngis frá yðar góðvild?
    Þér megið rægja okkur hér í kansellíinu við þá íslensku einsog yður lystir, minn herra. Það á einu gilda hvað íslenskir segja eða halda. Einginn veit betur en þér sjálfur minn herra að íslendíngar eru ærulaust fólk. Má bjóða yðar hávelborinheitum sultutau?
    Ég þakka yðar góðvild, sagði Arnas Arnæus. En hafi mitt fólk tapað sinni æru, hvað dugir mér þá sultutau?``
    Við skulum vona að þeim utanrrh. sem nú er fulltrúi okkar í viðræðum um málefni Íslendinga og Evrópubandalagsins verði hvorki boðið sultutau né heldur verði hann ginnkeyptur fyrir öðrum gylliboðum. Og ég vil víkja að því að í yfirlýsingu eða ályktun þingflokks Alþb. frá 29. nóv. 1989 gengur hreinlega öll ályktunin út á það að tryggja að hæstv. utanrrh. skili upplýsingum til ríkisstjórnarinnar og til þingsins og til hv. utanrmn. Ég ætla ekki að eyða tíma mínum hér af því að hann er naumur til að lesa upp þessa ályktun. Hún var borin okkur hingað fyrr í þessari umræðu fyrir nokkuð löngu. Ég legg áherslu á að hv. þm. kynni sér ályktunina. Hún boðar ákveðna tortryggni innan ríkisstjórnarflokkana sem er mjög hættuleg, mjög, mjög hættuleg. Og öll ályktunin gengur út á það að hemja hæstv. utanrrh. Þessi tortryggni er hættuleg Íslendingum og ( Forseti: Ég verð að biðja hv. þm. að ljúka máli sínu nú þegar.) já, nú lýk ég máli mínu. Ég tel það öllu máli skipta að hæstv. utanrrh. hafi skýrt og vel skilgreint umboð frá Alþingi, sjálfum sér til stuðnings og Íslendingum til farsældar. Það kemur t.d. ekki til greina að utanrrh. takist á hendur nokkrar skuldbindingar, t.d. um samningaviðræður, án þess að ríkisstjórnin og Alþingi hafi fulla vitneskju um fyrirætlanir hans og vilji Alþingis liggi þar fyrir til stuðnings. Það er nauðsynlegt að um þetta mikilvæga mál náist samstaða hér á Alþingi þannig að lýðræðislega kjörnir fulltrúar á Alþingi verji orku sinni í það að vinna saman að því að gæta að hagsmunum þjóðarinnar en sói henni ekki í innbyrðis togstreitu sín á milli. Þetta er ekki mál sem snertir einungis framkvæmdarvaldið eitt. Það er fyrst og fremst mál Alþingis og þjóðarinnar allrar og þess vegna þarf að ná um það samstöðu. Við skulum ekki heldur gleyma því hverjir það eru sem

eiga eftir að erfa afleiðingar þessara ákvarðana og standa við þær. Það eru börnin okkar.
    Jafnframt því sem ég legg áherslu á að utanrrh. taki þátt í formlegum tvíhliða viðræðum við Efnahagsbandalagið tel ég afar brýnt að stjórnvöld beiti sér að því og hafi frumkvæði að því að efna til víðtækrar umræðu um málefni Evrópubandalagsins og stöðu Íslands meðal þjóðarinnar allrar. Nýleg skoðanakönnun bar vott um ótrúlegan og hættulegan skort á upplýsingum um einmitt þetta málefni og slík vanþekking getur reynst örlagarík.