Fjáraukalög 1989
Þriðjudaginn 19. desember 1989


     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú talað lengi og nokkuð strítt. Hann sagði að sá grunnur sem hefði verið lagður í fjmrn. fyrir þessu frv. sem hér er um að ræða hefði verið staðfestur af fjvn. Rétt er að í meginatriðum hefur það verið gert en fyrst og fremst vegna þess að annars var ekki kostur, greiðslur og skuldbindingar höfðu farið fram eins og hv. formaður fjvn. tók fram í sínu máli.
    Þegar frv. til fjáraukalaga var lagt fram í sl. nóvember höfðu menn að vonum ýmislegt við það að athuga og niðurstöður þess sönnuðu svo ekki varð um villst að áætlanagerð fyrir fjárlög ársins hafði ekki staðist. Auðvitað er öllum ljóst að ekki er framkvæmanlegt að gera fjárhagsáætlun sem stenst svo að ekki skeiki um krónu. Það sem ég gagnrýndi einkum við fjárlagagerð þess árs sem nú er að líða voru vísvitandi vanáætlanir sem sjá mátti fyrir að ekki yrði undan vikist að kæmu til greiðslu þótt síðar yrði. Réttmæti þessarar gagnrýni viðurkenndi hv. formaður fjvn. í ræðu sinni þann 9. nóv. sl. en lét þess jafnframt getið að menn hefðu ár eftir ár verið með vísvitandi rangar áætlanir við fjárlagagerð og þá skákað í skjóli þess að þingmenn hafi engan áhuga á niðurstöðum, aðeins á áætlunum. Því hafi menn talið í lagi að áætlanir væru ekki nákvæmar því enginn þingmaður nenni að gera veður út af niðurstöðunni þegar hún kemur seint og síðar meir. Þessu má öllu finna stað eins og hefur verið á undanförnum árum þegar lögð hafa verið og samþykkt margra ára gömul fjáraukalög eins og kom fram í umræðunni áðan.
    Ég lýsti því við 1. umr. að ég teldi til mikilla bóta að frv. til fjáraukalaga væri lagt fram á því ári sem þau tækju til, meðan mönnum væru enn í fersku minni afleiðingar þeirra ákvarðana og ráðstafana sem þar er að finna. Þá geta menn skoðað fjárlagafrv. næsta árs með tilliti til þeirra lagfæringa
sem fjáraukalagafrv. sýnir að reynst hafa nauðsynlegar við fjárlög þessa árs. Þá er líka öllum augljóst hverju hlutverki fjáraukalög geta gegnt, þ.e. að grunnur fjárlaga næsta árs verði tryggari. Ég verð að lýsa efasemdum um að því markmiði hafi verið náð að þessu sinni. En fjáraukalög á því ári sem þau taka til kynnu að verða til þess að veita ráðherrum nokkurt aðhald um eyðslu séu þau lögð fram í tæka tíð.
    Það liggur hér fyrir svart á hvítu að tímamótafjárlögin sem afgreidd voru í byrjun ársins voru óraunhæf. Frv. sýnir að álögur á almenning hafa hækkað, skattar sem hlutfall af landsframleiðslu eru hærri nú en nokkru sinni fyrr og verðbólga hefur aukist meira en ætlað var. Lánsfjárþörf er rúmir 6 milljarðar. Stjórn ríkisfjármálanna er farin úr böndunum og gagnrýni minni hl. fjvn. á fjárlög ársins var fyllilega réttmæt. Sú er niðurstaðan.
    Ég ætla ekki að fjölyrða hér um einstaka þætti frv., þeir skýra sig að mestu sjálfir eftir að þskj. var komið í skiljanlegt form og eftir ágæta ræðu hv. formanns fjvn. Það eru aðeins tvö atriði sem ég vildi ræða hér þó að af nógu sé að taka. Þessi atriði vil ég taka til

umfjöllunar, ekki af því að þær fjárhæðir sem þar er um að ræða skipti ríkissjóð í raun nokkru máli. Í allri þeirri súpu eru þær lítilvægar. Á hinn bóginn skipta þær verulegu máli fyrir þá sem ætlað var að njóta þeirra. Þá er fyrst til að taka að framlag til Kvennaathvarfs sem var 2 millj. var lækkað um 1 millj. Eru nú gæslumenn ríkissjóðs farnir að tína smælkið, ekki verður annað sagt.
    Í Kvennaathvarfinu vinna konur meira og minna í sjálfboðavinnu að ráðgjöf, fyrirbyggjandi aðgerðum og aðhlynningu við konur og börn sem orðið hafa fórnarlömb ofbeldis af ýmsum toga, ekki síst kynferðislegs ofbeldis. Þörfin fyrir athvarf og störf af þessu tagi er mikil og sívaxandi. Því fæ ég ekki séð rök fyrir því að skerða þessa upphæð sem litlu máli skiptir fyrir ríkissjóð. Þegar fregnir fóru að berast í fjölmiðlum fyrri hluta þessa vetrar um hve ofbeldi væri vaxandi á götum úti og jafnvel um hábjartan dag, sem vitaskuld getur bitnað á körlum jafnt sem konum, þá stóð ekki á aðgerðum. Löggæsla var hert, þá þurfti ekki að spara. Skjólstæðingar Kvennaathvarfsins eru konur og börn sem verða fyrir ofbeldi fyrst og fremst í heimahúsum og þar nær löggæsla ekki til, þar ríkir friðhelgi fjölskyldunnar. Þetta fólk flýr á náðir Kvennaathvarfsins, það á ekki í önnur hús að venda. Ekki þýðir að hringja til lögreglu. Og skilningur fjárveitingavaldsins nær ekki svo langt að veita þeim stuðning sem horfa á líf sitt meira og minna í rústum vegna ofbeldis af hálfu karlþjóðarinnar.
    Í öðru lagi vil ég nefna að framlag til UNIFEM, 620 þús. kr., var numið brott með því fororði að við niðurskurð væri fólk ekki dregið í dilka eftir kynjum. Þessi ráðstöfun og þessi orð lýsa satt að segja beinni fáfræði um hvers vegna framlag til þróunarhjálpar er veitt á þennan hátt. Þeir sem stýra aðstoð við svokallaðar ,,vanþróaðar þjóðir`` hafa í seinni tíð tekið upp þá stefnu að beina fjárframlögum í þróunaraðstoð í auknum mæli til kvennasamtaka af þeirri ástæðu að með því móti gagnast framlögin betur. Konur í þróunarlöndum hafa frá ómunatíð borið ábyrgð á þeim ráðstöfunum sem varða velfarnað fjölskyldunnar allrar og sú verkaskipting er skýrt afmörkuð. Þeir
sem starfa að þróunarhjálp meta það svo að fjárframlög séu betur komin í höndum kvenna, þá sé tryggt að þau fari til þeirra mála sem ætlað er og nýtingin verði betri því konur hafi betri skilning á því hvað öllu samfélaginu sé til hagsbóta. Þessi skoðun hefur verið staðfest á alþjóðavettvangi.
    Niðurskurðurinn á þessari litlu fjárhæð er táknrænn. Hann lýsir ákveðnu viðhorfi, viðhorfi sem er ekkert annað en lítilsvirðing á konum og því sem konur starfa að, hvar sem er í samfélagi okkar og jafnvel með öðrum þjóðum. Þetta viðhorf er mönnum svo inngróið að þeir vita ekki einu sinni af því sjálfir. Það birtist ósjálfrátt í margvíslegum myndum og um það mætti nefna ótal dæmi.
    UNIFEM mun hafa frétt af þessu fyrirhugaða framlagi og sennilega er það af þeim sökum sem nú er fram komin tillaga í meiri hl. fjvn. um að

UNIFEM fái eina milljón á fjárlögum næsta árs, svona til að komast hjá því að Ísland verði sér til skammar á alþjóðavettvangi enn frekar en orðið er í sambandi við þróunarhjálp.
    Ég get ekki annað en lýst furðu og hneykslun á öllum þessum vinnubrögðum þó ég fagni því auðvitað að menn hafi séð að sér í sambandi við UNIFEM en áreiðanlega var það ekki virðing fyrir störfum kvenna sem réði þessum sinnaskiptum.
    Ég ætla ekki að lengja mál mitt, hæstv. forseti, en að lokum vil ég segja þetta: Allar spár stjórnarandstöðunnar varðandi fjárlög um þetta leyti í fyrra hafa ræst þó ekki væri hlustað á þær þá. Því er okkur ekki fært að standa að afgreiðslu þessa frv. í heild þó við getum mælt með sumum af þeim brtt. sem þar koma fram og sem við höfum unnið að. En ábyrgðin er ríkisstjórnarinnar allrar og þeirra sem hana styðja.