Fjáraukalög 1989
Þriðjudaginn 19. desember 1989


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um merkilegt mál. Satt að segja eitt af merkustu málum þingsins. Hér er uppi tilraun af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. fjmrh. til að koma nokkru skipulagi á meðferð aukafjárveitinga, þannig að þingið geti fjallað um þær á sama ári og ákvarðanir eru teknar. Við þessa vinnu er lögð á það mikil áhersla, bæði af hæstv. fjmrh. og formanni fjvn., að reyna að stuðla að sem allra víðtækastri samstöðu í þinginu um hina efnislegu meðferð málsins, burt séð frá afstöðu manna til einstakra þátta. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn gleymi sér ekki í umræðum um þetta mál svo að menn hafi ekki í huga þessa staðreynd vegna þess að það getur ráðið úrslitum um framtíðina hvort sæmilega til tekst um meðferð þessa máls nú. Það getur ráðið úrslitum um framtíðina á þann veg að trúnaður skapist milli framkvæmdarvaldsins annars vegar og þingsins hins vegar um meðferð mála af þessu tagi og ekki aðeins þessa máls heldur einnig annarra mála. Ég held þess vegna að það sé ákaflega mikilvægt sem kom hér fram hjá hæstv. fjmrh., að auðvitað verður að brýna stjórnarandstöðuna á því að hún á mjög ríkar skyldur í máli af þessu tagi, ekki síður en stjórnarmeirihlutinn.
    Það er satt að segja ekki mjög frjótt á þessu stigi málsins að menn komi hér upp með þeim hætti sem hv. 2. þm. Norðurl. v. gerði og kalli heilagur, heilagur, eins og hv. þm. sé að koma inn á Alþingi í dag en hefur þó setið á þingi a.m.k. tvisvar sinnum lengur en sá sem hér stendur. Auðvitað vitum við báðir, ég og hv. 2. þm. Norðurl. v., að í þessum málum hefur víða verið brotalöm um áratuga skeið og um það erum við í raun og veru öll sammála. Ég sé t.d. að hv. 1. þm. Reykn. er ekki sammála mér um þetta. Hann telur að halda eigi áfram því aukafjárveitingakerfi sem Sjálfstfl. viðhafði hér um skeið, hann vill það. Ég hefði haldið að allir þingmenn ættu að geta sameinast um að koma eðlilegri og betri skipan á þessi mál. Og ég er sannfærður um það, hvað
sem hver segir, að vilji er til þess í öllum flokkum og hjá öllum þingmönnum að taka betur á þessum málum en verið hefur. Ég kannast a.m.k. ekki við að menn hafi áhuga á því að fara illa með það vald sem þeim er gefið að því er þessi mál varðar. Þó að við höfum dæmi um mjög gagnrýniverða hluti ætla ég ekki að fara að rifja þá upp hér vegna þess að þeir sem helst ætti kannski að gagnrýna eru fjarri.
    Ég vil, í sambandi við vinnubrögð fjvn. almennt, segja að ég tel að fjvn. Alþingis þurfi ekki einasta að yfirheyra forstöðumenn stofnana og ráðuneyta, ég tel að fjvn. Alþingis eigi að kalla til viðtals þá ráðherra sem bera ábyrgð á málaflokkum þá og þá. Ég tel að fjvn. eigi að fá hjá viðkomandi ráðherrum upplýsingar um hvaða áherslustefnu þeir sjálfir vilja fylgja. Í hvaða röð vilja þeir fara í hlutina. Ég er ekki að segja þetta vegna þess að ég ætlist til þess að fjvn. fallist á það sem frá þessum ráðherrum kemur á hverjum tíma,

en ég er sannfærður um að slík málsmeðferð skýrir málin til lengri tíma og betur heldur en að byggja afstöðu sína einvörðungu á því sem kann að koma frá embættismönnum þá og þá. Allir sem verið hafa ráðherrar einhvern tíma þekkja það að ráðherrann hefur yfirleitt yfirlit yfir flesta meginþætti þeirra pólitísku mála sem ráðuneytið er að fjalla um. Þess vegna er í raun og veru auðveldara fyrir ráðherrann að svara fyrir þá þætti sem fjvn. er kannski fyrst og fremst að fjalla um frekar en að hún sé að fjalla um almenn afgreiðslumál og formlegheit sem í raun og veru snerta ekki hina pólitísku deilu sem er uppi þá og þá í þinginu eða milli þings og þjóðar eða með þjóðinni. Þetta held ég að sé mjög mikilvægt satt að segja að leggja áherslu á.
    Ég held líka að í umræðu af þessu tagi sé óhjákvæmilegt að koma hér að einum þætti sem ég hef á undanförnum árum sannfærst betur og betur um miðað við þau ráðuneyti sem ég hef starfað í. Það er að stofnanir ríkisins og fagráðuneytin séu gerð ábyrg fyrir sínum fjármálum, þannig að t.d. stofnanir eins og þær sem heyra undir mig núna, segjum Sinfóníuhljómsveit Íslands eða Þjóðleikhúsið ( Gripið fram í: Og Lánasjóðurinn.) og Lánasjóðurinn hafi tiltekna fjármuni úr að spila á hverjum tíma. Auðvitað getur verið að ráðherrar taki pólitískar ákvarðanir um aðra hluti sem snerta þessar stofnanir og þá er að horfast í augu við það en ég held að aðalatriðið sé að menn íhugi afar vandlega: Er ekki hægt svo að segja að koma þessum stofnunum, Sinfóníunni, Þjóðleikhúsinu, svo ég nefni dæmi, á það sem ég kalla föst fjárlög? Ég tel reyndar að Lánasjóðurinn sé ekki sambærilegur við þessar tvær stofnanir, hv. þm., ekki alveg. Vegna þess að aðstæður hans eru að ýmsu leyti öðruvísi. Ég held að menn eigi að hugleiða þetta mjög vandlega og velta því fyrir sér hvort t.d. þessar menningarstofnanir verði ekki betur reknar bæði fjárhagslega og listrænt ef þær starfa eftir slíkum ramma. Og ég bið hv. 2. þm. Norðurl. v. og aðra sem hér hlýða á mál mitt að hafa þetta ekki í flimtingum vegna þess að ég er að tala um þetta í fullri alvöru. Ég er að tala um að bæta ábyrgð ráðuneytanna á sínum fjárhag og ábyrgð stofnananna á sínum fjárhag. Það mundi enginn forstöðumaður menningarstofnunar láta það gerast nema einu sinni á sínum vegum að hann yrði að loka sinni stofnun 15. nóv. Hann mundi aldrei láta það henda
sig oftar. En það gæti auðvitað gerst að menn stæðu frammi fyrir einhverju slíku einhvern tímann ef menn ekki yggðu að sér í tíma. Þetta vil ég leggja á áherslu. Ég held með öðrum orðum að það að flytja ábyrgð út til stofnana, út til ráðuneytanna, þýði betri stjórn á málunum heldur en okkur hefur auðnast að ná til þessa.
    Í þessu sambandi vil ég sérstaklega endurtaka að ég held að mjög brýnt sé fyrir fjvn. að fá yfirlit yfir hvert viðkomandi ráðherra er að halda með sínu starfi. Þegar menn eru að fást við að starfa sem ráðherrar eiga þeir að setja hlutina upp í forgangsröð. Það er alveg sama hvort þeir eru í landbrn., félmrn., heilbrrn.

eða menntmrn. Menn eiga að raða hlutunum í forgangsröð. Ég hef hins vegar orðið fyrir því, sem fagráðherra í nokkrum ráðuneytum, að mjög er erfitt að ná því að vinna að framkvæmd faglegrar stefnu og forgangsröð af því að tengslin á milli fjvn. og fjmrn. annars vegar og fagráðuneytisins hins vegar eru af einhverjum ástæðum ekki nægilega góð. Ég þekki þetta t.d. ákaflega vel úr heilbrmrn. þar sem ég vann á fjórða ár. Þar gerði ég tilraun til þess að móta stefnu til 15 ára um uppbyggingu heilbrigðisstofnana, bæði heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa hér á landi. Ég lagði drög að þeirri stefnumótun fyrir þáv. ríkisstjórn og fyrir þáv. stjórnarmeirihluta á þeim tíma og ég fann það strax, og segi það engum til lasts, að menn þoldu þessa stefnumótun í raun og veru mjög illa af því að menn sáu að þeirra pláss, að þeirra byggðarlag, að þeirra áhersla var ekki nákvæmlega þar í röðinni sem menn höfðu viljað. Þetta er auðvitað stóri vandinn, finnst mér, við að stýra fjármálum ríkisins, að menn þola aldrei að bíða. Menn þola aldrei að gera sér grein fyrir því að hlutirnir taka tíma. Þess vegna held ég að ef fagráðuneytin og fjvn., Alþingi og fjmrn. gætu sameinast um faglega stefnu í hverjum málaflokki fyrir sig stæðum við ekki frammi fyrir áýtingi og deilum um minni háttar mál eins og við gerðum oft á undanförnum árum og áratugum.
    Þetta er mér, satt að segja, virðulegi forseti, mikið umhugsunarefni og mikið kappsmál að á þessu verði hægt að taka. Og ég held að sú tilraun sem nú er gerð, að leggja hér fram frv. til fjáraukalaga, leggja hér fram ríkisreikninga nokkuð hratt, sú tilraun sem gerð er af hálfu fjvn. að fara rækilega ofan í saumana á hlutunum, sú tilraun sem gerð er í sumum ráðuneytum að móta stefnu til lengri tíma --- ég held að þetta beri allt að þeim brunni að við getum náð því marki að verða með sæmilega stýringu á þessum málum.
    Í grannlöndum okkar er það þannig að þjóðþingin fjalla um fjárlög og fjárlagaramma, fyrst fyrir ríkið í heild, síðan fyrir hvern þátt fyrir sig. Ég held að það sé til umhugsunar hvort ekki kæmi til greina að menn hefðu sérstakar fjárlagaumræður, segjum t.d. um mennta- og menningarmálaráðuneytið ellegar landbrn., þannig að menn sæju hlutina bæði í hinu stóra samhengi og eins innan viðkomandi ráðuneytis.
    Eitt af því sem mér fannst mjög óþægilegt þegar ég fór með heilbrrn. var það að á heilbrrn. eru gífurlega stórar tölur, upp á milljarða og aftur milljarða og tugmilljarða. Mér finnst stundum að þessar tölur séu ekki gagnsæjar fyrir Alþingi. Mér finnst stundum að menn viti ekki í raun og veru hvað er á bak við þessar tölur, t.d. sjúkratryggingatöluna hjá Tryggingastofnun ríkisins. Ég held að það væri til bóta fyrir fagráðherrann sem fer með heilbrigðismál á hverjum tíma að fá hér umræðu um heilbrigðismál í heild, ekki aðeins faglega umræðu heldur líka fjárhagslega umræðu í leiðinni. Reynsla undanfarinna ára er því miður sú að menn hafa fjárhagslega umræðu fyrir áramót, svo hafa menn fínu frumvörpin og faglegu umræðuna eftir áramót, og yfirleitt rímar

þetta ekki, satt best að segja, virðulegi forseti.
    Ég held að það yrði til bóta ef við næðum stefnulegri umræðu um heilbrigðismál og fjármál heilbrigðisþjónustunnar, um menntamál og fjármálin þar, tækju svo einn dag í hvern þátt fyrir sig. Þær umræður væru mikið gagnlegri fyrir þjóðina, liggur mér við að segja, en margt af því sem hér fer fram í þingsölum. Þetta leyfi ég mér að nefna, virðulegi forseti, inn í þessa umræðu.
    Ég vil svo geta þess að í sambandi við það frv. til fjáraukalaga sem hér liggur fyrir og þær brtt. sem hér liggja fyrir hef ég af minni hálfu tvær athugasemdir. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að aukafjárveiting vegna Þjóðarbókhlöðu verði felld niður. Það gengur ekki af því að búið er að gera bindandi verksamning um það að nota þessa fjármuni. Ég vil einnig nefna að það þarf að taka til sérstakrar athugunar þá fjármuni sem í frv. voru ætlaðir til meðferðarheimilis fyrir unga fíkniefnaneytendur. Þetta meðferðarheimili er ekki farið af stað. Það fer af stað á næsta ári, en þeir fjármunir sem ætlaðir eru í fjáraukalagafrv. eru ætlaðir til undirbúnings, hafa ekki verið greiddir út enn þá. Og hvernig hefur þetta þá verið fjármagnað? Það hefur verið fjármagnað af öðrum rekstrargjöldum Unglingaheimilis ríkisins. Þetta nefni ég hér til skýringar og ég tel að eðlilegt sé og nauðsynlegt að það komi hér fram af minni hálfu. Nú geta menn auðvitað komið upp og sagt að þetta sé nú eins og annað hjá þessari hæstv. ríkisstjórn, að það sé nú þannig að meiri hl. fjvn. sé að leggja þetta til og svo komi nú bara einn ráðherrann og segi þetta. Þá
erum við komin að þessum viðkvæma punkti í lýðræðinu sem menn virðast stundum eiga ákaflega erfitt með að skynja og skilja, sem sé þessum: Ráðherrar í núv. ríkisstjórn eru ekki sem slíkir að gera þær tillögur í einstökum atriðum sem hér eru uppi. Fjvn. hefur auðvitað sjálfstæði til að fjalla um þessa hluti lið fyrir lið og hlýtur að gera það, og henni er skylt að gera það. Ég held að við þurfum að venja okkur á þau vinnubrögð hér á hv. Alþingi að ríkisstjórnin hafi tiltekna stöðu, fjárveitingavaldið tiltekna stöðu en það sé ekki með þeim hætti að menn séu reyrðir saman á höndum og fótum svo að segja fyrir fram um hvert einasta atriði. Ég held að við þurfum með öðrum orðum stundum að breyta Alþingi í eins konar þróunarverkefni í lýðræði þannig að menn venji sig við að hlutirnir geti kannski verið með pínulítið öðrum hætti en þeir kunna að vera fyrirskrifaðir af einhverri forustu þá og þá. Fjáraukalagafrv. er í raun og veru einmitt þessi lýðræðislega áhersla, að gera hlutina fyrir opnum tjöldum. Og það er fróðlegt að einmitt þessi umræða skuli fara fram nú, 1989.
    Það eru 10 ár síðan hér á Alþingi fór fram einmitt mikil umræða um opin vinnubrögð Alþingis og nefnda Alþingis og ríkisstofnana. Sú umræða fór fram undir forustu nokkurra nýrra þingmanna sem þá sátu á Alþingi og ég minnist þess að það voru ýmsir þingmenn sem þá höfðu setið lengi, eins og hv. þm. Pálmi Jónsson, sem töldu að áherslurnar varðandi

opna umræðu og opnar áherslur væru fjarstæða. Mín skoðun er sú að auðvitað eigi fjvn. Alþingis ekki aðeins að fjalla um málin með viðtölum við einstakar stofnanir og forráðamenn þeirra og ráðherra þá og þá. Ég tel einnig að Alþingi eigi að efna til opinna funda með forráðamönnum ríkisstofnana af margvíslegu tagi, opinna funda þar sem almenningur fær að heyra það sem spurt er um, því að hér á ekki að vera neitt að fela. Það á að kalla til opinna funda þingmanna með stofnunum eins og t.d. Landsvirkjun eða Seðlabanka svo að ég nefni dæmi. Og mér finnst það satt að segja umhugsunarvert, virðulegi forseti, að þessi mikla og sterka umræða um opnar áherslur sem fór hér fram 1978 og 1979 skuli núna hafa hljóðnað með þeim hætti sem raun ber vitni um, horfandi þó á þann veruleika að framlagning fjáraukalagafrv. á árinu 1989 og breyttar áherslur í stjórn landsins eru að mörgu leyti árangur af þeirri umræðu sem hófst á árinu 1978 og 1979 og hún þarf að ná enn þá lengra í verki, virðulegi forseti.