Fjáraukalög 1989
Þriðjudaginn 19. desember 1989


     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Sínum augum lítur hver á silfrið, segir máltækið. Ég verð að segja það að málefnalega séð er það jákvætt mál að fjáraukalagafrv. fyrir það ár sem er að líða skuli hafa verið lagt fram, en það sem er kannski aðaldeiluefnið hér er hin pólitíska fjármálastefna að baki þeim fjáraukalögum en ekki hvort þau eru lögð fram eða ekki. Ég hefði gjarnan viljað minna hæstv. fjmrh. á það, ef hann getur slitið fundahöldunum þarna úti í horni, að ég minnti hann fyrst á það fyrir fjórtán mánuðum síðan að það þyrfti að leggja fram fjáraukalög, hér í þessum ræðustól, og það hefur ekkert komið fram í þessari umræðu að hæstv. núv. fjmrh. er algjörlega ,,á fittinu`` fyrir árið 1988. Eftir öll stóru orðin sem hann er búinn að viðhafa um aðra fjármálaráðherra, flokksbræður sína og aðra, er það staðreynd að hann sjálfur er einn af þeim sem hann var að skamma áðan vegna þess að hann, eins og ég segi, fór átta milljarða fram yfir á heftinu frá því í fyrra, fyrir 1988. Og þrátt fyrir það að hann hafi fyrir fjórtán mánuðum verið minntur á að leggja fram fjáraukalagafrv. fyrir 1988 hefur hann ekki komið því í verk enn þá.
    Mér datt í hug áðan þegar ég horfði á hæstv. fjmrh. láta gamminn geysa, yfir flokksbræðrum sínum sem öðrum, að Hallgrímur Pétursson kvað einhvern tímann: ,,Oft má af máli þekkja manninn hver helst hann er``.
    Ég hef þrisvar sinnum hér í þinginu í haust minnt hæstv. fjmrh. á það að hann ætti að gjaldfæra skuld Verðjöfnunarsjóðs, annaðhvort á fjáraukalögum þeim sem hér eru til umræðu eða á fjárlögum ársins 1990. Hann hefur alla tíð hunsað að svara þó að ég hafi þrisvar sinnum spurt hann að því hér úr þessum ræðustól. Vil ég nú minna hæstv. forseta á þetta og spyrja: Er ekki ætlast til þess að ráðherrar svari þegar þeir eru spurðir hér í þinginu eða er það bara allt í lagi að þeir komist upp með að hunsa samþingmenn? Hvað segja þingsköp um það? Er það bara allt í lagi að ráðherrar hunsi það að svara mikilvægum
spurningum og um leið og þeir eru náttúrlega að monta sig af því að leggja fram fjáraukalög og þykjast vera hér einhverjir ægilega fínir ,,prinsippmenn`` að vera þá með allt niðrum sig upp á einn og hálfan milljarð sem standa engar tryggingar á bak við og forsrh. og sjútvrh. eru búnir að lýsa yfir að fiskiðnaðurinn verði ekki látinn endurgreiða? Þá liggur í augum uppi að tveir aðilar geta ekki hafa bókfært sömu eignina, ekki nema það sé einhvers staðar kennt í einhverri stjórnmálafræði sem ég kann ekki. Væntanlega er þá hægt að útskýra það fyrir okkur.
    Ég vil því ítreka þessa fyrirspurn og hef lagt hana fram sem skriflega fsp. hér í þinginu, en væntanlega fæst hún ekki tekin á dagskrá fyrir jól. Þó er aldrei að vita. En fjmrh. getur þá látið svo lítið að svara þessu. Ég ítreka það.
    Það voru undarlegar yfirlýsingar hv. formanns fjvn. í DV í dag. Þar kemur fram að þetta frv. til fjáraukalaga var aðeins lagt fram til 1. des. Hvað ætla

menn svo að gera? Þá er hæstv. fjmrh. líka kominn á fittið á þessu ári, frá 1. des., þannig að hann er ekki bara á fittinu frá því í fyrra, heldur líka núna, fram yfir á heftinu, án leyfis Alþingis sem hann veit að er ekki í samræmi við stjórnarskrána.
    Í fréttinni í DV segir enn fremur að samkvæmt reynslunni megi gera ráð fyrir töluverðum útgjöldum í desembermánuði og er þess skemmst að minnast, er haft eftir formanni fjvn., þegar fjmrh. skrifaði út hundruð milljóna á gamlársdag í fyrra. Það er spurning hvort búast má við sams konar aðgerðum á gamlársdag í ár.
    Það mál sem hér er til umræðu er þýðingarmikið út frá því að atvinnulífið í landinu kemur að mínu áliti ekki til með að komast á réttan kjöl fyrr en farið verður að gera róttækar ráðstafanir í því að Alþingi heimili allar fjárveitingar fyrir fram til fjmrh., hver svo sem hann er. Og ég hef ítrekað sagt það hér í þessum ræðustól að það þurfi að endurskoða samskipti löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og væri nú ekkert óeðlilegt við það þó að löggiltir endurskoðendur kæmu meira nálægt fjárlagagerð en nú er. Það er ekkert óeðlilegt við það. Þetta þarf ekkert að vera pukur einhverra kerfiskarla einhvers staðar úti í horni. Öll þjóðin á að geta fengið að fylgjast með þessu. Það mætti t.d. kaupa meira af þjónustu hjá einkafyrirtækjum við fjárlagagerð ef menn á annað borð ætla sér að ná tökum á ríkisfjármálunum og ef menn á annað borð ætla sér að viðhafa hér þá nákvæmni sem þarf til þess að ná verðbólgunni niður. Það er spurning um það hvort menn ætla sér það. Þetta hlýtur að þola dagsbirtuna allt saman því að ef verður viðhaldið þeirri ónákvæmni sem einkennir allt í dag, sem við erum vitni að hér, þeirri hrikalegu ónákvæmni sem kemur fram í alls konar túlkunum á skattahækkunum, hvort þær þýði einum og hálfum milljarði meira eða minna, og er þá yfirleitt fjmrh. ósammála öllum öðrum. Þetta er unnið í tímahraki og úr því verður hroðvirkni og óvandvirkni, og ég verð að segja það að þrátt fyrir það að þetta sé lagt fram er þetta ekki nægilega gott, en þetta er svona allt í lagi, ágætis skref hjá hæstv. fjmrh.
    Ég held að það sé ekki nein tilviljun að verðbólga hefur geisað hér undanfarna áratugi. Ég held að það sé einmitt eins og ég sagði áðan, að bætt lífskjör landsmanna byggjast á því að meiri vandvirkni og nákvæmni verði viðhöfð við fjárlagagerð. Við getum litið t.d. til landa eins og Japans og Þýskalands í því sambandi. Þar eru lífskjör landsmanna góð. Þar er mikil nákvæmni og þar er fjármagnskostnaður lágur. Venjulega fer nefnilega saman óráðsía í efnahagsstjórn og hár fjármagnskostnaður. Stjórnmálaflokkar geta ekki komið hér síðan og sagt: Hókus, pókus, einhver frjálshyggja sem orsök fyrir háum fjármagnskostnaði. Það er nú ein af þessum rangfærslum sem maður er vitni að. Það er nú ekkert vandamál t.d. að gera tólf mánaða rekstraráætlun fyrir öll ríkisfyrirtæki. Það getur varla verið mikið vandamál.
    Svo er það sem er kannski hinn pólitíski ágreiningur. Það er sú ofsköttun sem hér fer fram,

sem við vorum vitni að hér í fyrrahaust og erum vitni að aftur í haust. Það á að blóðmjólka kúna, ráðast á peningalaus fyrirtæki og heimili og rupla í ríkiskassann, bara með fógetavaldi, siga fógetanum á fyrirtæki, peningalaus, og heimilin, peningalaus.
    Stundum er verið að gagnrýna okkur sjálfstæðismenn fyrir það hvar á að skera niður. Hvar á að skera niður? Það mætti t.d. einkavæða meira og selja ríkisfyrirtæki. Það er ekki niðurskurður. Það er einkavæðing vegna þess að einkaaðilar reka fyrirtæki betur en ríkisfyrirtæki. Þó að kannski séu til undantekningar á því, þá er það hin almenna regla. Svo er ég þeirrar skoðunar að það sé nú betra af tvennu illu að reka ríkissjóð með halla en fyrirtækin því ekki auka þau framleiðsluna í landinu peningalaus, svo að einhverju sé nú svarað, því allar þessar skattahækkanir sem við höfum verið vitni að hér í haust munu bara leiða af sér gjaldþrot og upplausn heimila og fyrirtækja í landinu.
    Það er nú líka allt í lagi að minnt sé á, þó að ekki hafi farið fram umræða um það, að gengisfellingar og gengissig er auðvitað náskylt þeirri fjármálastjórn sem hér hefur verið viðhöfð undanfarin ár, og ég tala nú ekki um í tíð þessarar ríkisstjórnar, því að auðvitað hrundi gengið eftir allar erlendu lántökurnar og seðlaprentunina í fyrrahaust. Það var óhjákvæmilegt.
    En ég verð að segja það að þessi fjáraukalög marka tímamót á vissan hátt og ég tek undir það sem hæstv. menntmrh. sagði áðan: Það eru tvær hliðar á þessu máli, önnur er pólitísk og hin er fagleg. Og það ætti að geta verið samstaða um hina faglegu hlið, en það verður náttúrlega aldrei samstaða um hina pólitísku hlið.
    Ég vil því að lokum ítreka það að þetta er eitt af mikilvægustu atriðum sem ég held að megi koma í lag á næstu árum. Það tekur einhver ár náttúrlega. En ef hæstv. fjmrh. er hér einhvers staðar nálægur ætla ég að minna hann á það af því hann var að tala um það í sinni hógværu ræðu áðan að einhver hefði sagt það hér í fyrra að hallinn á fjárlögum yrði 10--15 milljarðar. Ég skal gangast við því. Ég sagði það, og ég ætla mér að standa við það. Brtt. sem hér liggja fyrir eru halli upp á 8 milljarða. Ég var að tala um það áðan að gjaldfæra ætti Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Það er 1 1 / 2 milljarður og þá erum við komnir í 10 milljarða. Svo er desember eftir eins og haft er eftir hv. formanni fjvn. Erum við þá ekki komnin í 11--12 milljarða? Hver ætli verði niðurstaðan af þessu? Þetta er nú árangurinn af því sem átti að vera 650 millj. kr. rekstrarhagnaður af öllum skattahækkununum í fyrra, stórkostleg nýbreytni, og hefur aldrei sést annað eins í mannkynssögunni. Það sagði hæstv. fjmrh. í fyrra.
    Ég vil að lokum ítreka við hæstv. fjmrh. að ég vil fá svar við því hvers vegna hann hefur ekki gjaldfært skuld Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins við ríkissjóð og hvort hann telji að hægt sé að eignfæra sama hlutinn á tveimur stöðum. Ég óska þess að hann svari þessari spurningu.