Framhald á EFTA-EB-umræðum
Þriðjudaginn 19. desember 1989


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Fyrr í dag bar ég fram þá ósk að umræðan um Evrópubandalagið héldi áfram á þessum degi. Ég minnti á hversu slæmt útlit það er fyrir Ísland og utanrrh. Íslands að hafa þurft að taka þátt í sameiginlegum fundi Evrópubandalagsins og EFTA í dag án þess að formaður EFTA-ráðsins hefði lokið umræðum í sínu eigin þjóðþingi áður en sá fundur færi fram og áréttaði í þeim tilgangi að rétta nokkuð hlut hæstv. utanrrh. í þessu efni að æskilegt væri að umræðunni lyki þó á þeim degi sem þessi sameiginlegi ráðherrafundur fór fram. Forseti lýsti því yfir af sinni alkunnu lipurð að það mál yrði tekið til sérstakrar umræðu og athugunar á fundi þingflokksformanna og nú vil ég enn inna eftir því hvort niðurstaða hafi fengist í þeim umræðum gagnvart þessari ósk af minni hálfu.