Fréttaviðtal við forseta sameinaðs þings
Þriðjudaginn 19. desember 1989


     Ólafur G. Einarsson:
    Hæstv. forseti. Nú í kvöldfréttatíma Ríkisútvarpsins var viðtal við hæstv. forseta Sþ. sem gefur mér tilefni til þess að segja hér örfá orð. Hæstv. forseti sagði eitthvað á þessa leið: ,,Ef menn vilja rjúfa það samkomulag sem gert hefur verið, þá getum við haldið hér áfram að tala`` o.s.frv.
    Nú kann að hafa verið einhver meiningarmunur milli manna um það og er kannski enn hvort eitthvert samkomulag hafi verið gert um framhald þingstarfa, um þinghlé nú fyrir jólin, hvenær það skyldi verða og hvenær þing skyldi koma saman að nýju eftir jólaleyfi. Vegna þessa hlýt ég að rekja í örfáum orðum hvað mönnum hefur farið á milli á fundum forseta og þingflokksformanna nú undanfarna daga. Ég skal segja það strax að enginn bindandi samningur var kominn á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, en ég þykist hins vegar geta fullyrt að menn voru komnir þar mjög nálægt samkomulagi, ef ég má orða það svo, og það þegar á föstudaginn var. Þá höfðu menn rætt það hvaða málum skyldi frestað eða hvaða mál biðu afgreiðslu eftir jólaleyfið. Og ef ég aðeins hleyp á því voru það frumvörp um Stjórnarráð Íslands og yfirstjórn umhverfismála. Það var frv. um bifreiðagjald, frv. um tekjuskatt á orkufyrirtæki, frv. um heilbrigðisþjónustu og frv. um veiðieftirlitsgjald. Ég tek fram að menn höfðu ekki talað út um frv. um veiðieftirlitsgjald og það átti eftir að hnýta lausa enda í sambandi við frv. um heilbrigðisþjónustu. Var talið að það þyrfti að
koma þá með frv. til framlengingar á ákvæðum um heilsugæsluna í Reykjavík. En sem sagt, á þessum fundum ríkti góður vilji milli stjórnar og stjórnarandstöðu til þess að ná saman með þessum hætti og að önnur mál hlytu afgreiðslu fyrir jól, þar á meðal höfuðfrumvörp ríkisstjórnarinnar um tekju- og eignarskatt og virðisaukaskatt og náttúrlega fjárlög og lánsfjárlög og fleira og fleira sem ég hirði ekki um að telja.
    En í gær kom alveg ný staða upp í þessum viðræðum okkar. Það var þegar það upplýstist að fyrir fund fjvn. hefðu verið lagðar tillögur varðandi Borgarspítalann í Reykjavík þar sem lagt var til að Reykjavíkurborg skyldi greiða 245 millj. kr. á næsta ári í rekstrarkostnað Borgarspítalans --- ég get farið miklu nánar út í það mál ef menn vilja en ég ætla að sleppa því í bili a.m.k. --- og í öðru lagi að sveitarfélögin skyldu taka þátt í tannlæknakostnaði upp á 346 millj. kr. á næsta ári. Þarna var komin upp alveg ný staða í þessum samningaumleitunum stjórnar og stjórnarandstöðu um sæmileg lok á þingstörfum hér fyrir jólin og stjórnarandstaðan tilkynnti á fundi í gærkvöldi að hún gæti ekki á þetta fallist, hún gæti ekki staðið að því að afgreiða hér önnur mál, sem áður hafði verið talað um að afgreiða, ef þetta ætti að ná fram. Þetta gerðum við mönnum alveg ljóst.
    Ég ætla ekkert að fara að greina hér frá yfirlýsingum einstakra þingmanna, stjórnarliða, á þessum fundum, en ég tel að við í stjórnarandstöðunni

höfum haft fulla ástæðu til að ætla að það gæti gengið saman með okkur jafnvel þrátt fyrir þessa nýju stöðu sem þarna var komin upp. En nú hefur það komið í ljós að svo var ekki.
    Ég lýsi vonbrigðum mínum yfir því að svona skuli vera komið. Satt að segja man ég ekki eftir því að jafngott samkomulag hafi ríkt milli stjórnar og stjórnarandstöðu um afgreiðslu mála í langan tíma og núna þessa síðustu daga. En þá þarf endilega að sprengja það allt í loft upp með tillögum fjmrh. í þessa veru, tillögum sem ganga þvert á nýsamþykkt lög um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og eru hreint brot á þeim lögum. En nóg um þetta. Ég hlaut að verða að skýra frá þessu.
    Síðan hlýt ég að finna að því að hæstv. forseti sameinaðs Alþingis segir í þessu viðtali við Ríkisútvarpið að baráttan hér á þingi sé ekki háð við stjórnarandstöðuna. Hún sé háð við borgarstjórann í Reykjavík. Hún sé háð við borgarstjórann í Reykjavík en ekki stjórnarandstöðuna hér á þingi. Þessi ummæli hæstv. forseta gefa út af fyrir sig tilefni til verulegrar umræðu hér í þinginu um það hvernig hæstv. forseti kemur fram í fjölmiðlum. Það er algert nýnæmi hér á Alþingi, segi ég, að hæstv. forseti sameinaðs Alþingis taki þannig afgerandi afstöðu með öðrum aðilanum af tveimur sem hér eru að skiptast á skoðunum um þingstörfin. Það er algert nýnæmi og ég hlýt að segja að ámælisvert sé af hæstv. forseta að koma þannig fram. Hæstv. forseti ætti fremur að líta á það sem höfuðhlutverk sitt að leiða menn hér til sátta um þingstörfin og aldrei ríður meira á en einmitt síðustu daga fyrir þinghlé að hæstv. forseti geri svo. Það hefur forseti nú ekki gert og það getur ekki verið líklegt til þess að greiða fyrir framgangi mála hér á hv. Alþingi.
    Ég skal ekki hafa þessi orð mín fleiri. En tilefni þess að ég hlaut að skýra frá því hvað okkur hafði farið á milli á þessum fundum undanfarna daga var þetta viðtal við hæstv. forseta sameinaðs Alþingis. Ég hlýt svo að segja í lokin að okkur í stjórnarandstöðunni er ekkert að vanbúnaði að halda hér áfram svo lengi sem þarf og við getum endurskoðað það sem ég tel að hafi orðið þegar að samkomulagi, að við lykjum hér þingstörfum n.k. föstudag og við hæfum störf að nýju mánudaginn 22. janúar. Við getum að sjálfsögðu endurskoðað það ef menn
vilja.