Fréttaviðtal við forseta sameinaðs þings
Þriðjudaginn 19. desember 1989


     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Vissulega er rétt að á fundum formanna þingflokka og forseta í gær lágu fyrir hugmyndir sem býsna gott samkomulag þar um. Þó voru þar ekki allir lausir endar fullhnýttir. Það vissum við öll sem tókum þátt í þessum fundum. Hins vegar var samkomulag um langflest atriði en eitt atriði eða tvö stóðu þó enn út af og um þau var ekki samkomulag. Ég get ekki á það fallist að eitthvert nýtt atriði hafi komið upp í gær. Þau atriði sem hv. 2. þm. Reykn. Ólafur G. Einarsson gerði hér að umtalsefni voru ekki ný. Um þau var vitað og um þau var mjög rækilega rætt, t.d. í sjónvarpsþætti í fyrrakvöld þar sem ræddust við hæstv. fjmrh. og borgarstjórinn í Reykjavík. Þar átti mönnum því ekkert að koma á óvart.
    En í fréttum sjónvarps, og raunar útvarps að ég hygg líka í kvöld, kom mér sannarlega á óvart að heyra formann Sjálfstfl., sem ekki sat þessa fundi, segja þjóðinni frá því að forsrh. Íslands hefði gert samkomulag á þessum fundum sem fjmrh. hefði neitað að standa við. Þetta er ekki satt. Þetta er ósatt og ég hef enga ástæðu til að ætla að formaður Sjálfstfl. hafi fengið rangar upplýsingar um það sem gerðist á þessum fundum. Ég er sannfærður um að formaður þingflokks Sjálfstfl. hefur sagt honum satt, rétt og ítarlega frá því sem gerðist þar. En það sem formaður Sjálfstfl. sagði við þjóðina í fréttum sjónvarps í kvöld, að forsrh. hefði gert samkomulag sem hæstv. fjmrh. hefði neitað að standa við, er hreinlega ekki satt vegna þess að fullkomið samkomulag lá ekki fyrir. Það vita allir þeir sem sátu þessa fundi og ég tel alveg nauðsynlegt að þetta komi skýrt fram vegna þess að menn eiga að fylgja þeirri reglu að hafa það sem sannara reynist. Það á að gilda líka hér um þá sem á hinu háa Alþingi sitja og kannski ekki síst.