Fréttaviðtal við forseta sameinaðs þings
Þriðjudaginn 19. desember 1989


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Vegna orða hv. 1. þm. Reykn. vil ég segja þetta: Forseti Sþ. er ekki forseti Sþ. á ábyrgð Sjálfstfl. Hann hefur aldrei greitt forsetanum atkvæði til þess embættis. ( MÁM: Eru ekki leynilegar kosningar í þinginu?) Forseti hefur hins vegar ævinlega litið svo á að hann væri forseti alls þingsins og er það. Forseti Sþ. hefur ekki gert neitt sem hann þarf að minnkast sín fyrir. Hann hefur heldur ekki sagt ósatt um neitt. Forseti telur sér skylt þegar hann er spurður hvort þinghaldið sé í uppnámi að mótmæla því. Einn alvarlegan misskilning hv. 1. þm. Reykn. vil ég leiðrétta. Þegar ég sagði í umræddu viðtali í kvöld ,,Við munum halda ótrauð áfram,,, þá var ég að tala um okkur hæstv. forseta Ed., hæstv. forseta Nd. og sjálfa mig. Við höfum nú um langt skeið haldið daglega fundi með þingflokksformönnum og vissum ekki annað í gærkvöldi en nokkurt samkomulag væri um framhald þinghaldsins. Mér var síðan tilkynnt í dag að ekkert mundi verða af því samkomulagi. Allt mundi verða gert til að tefja þinghald. Vegna ummæla minna um áhrif borgarstjórans í Reykjavík er sú staðhæfing ekki komin frá mér, heldur hv. 2. þm. Reykn. sem lýsti því yfir á þingflokksformannafundi í dag að hann mundi fara út á skrifstofu borgarstjóra og ráðgast um hvert svar hann mundi veita hæstv. forsrh. Ég bið þá hv. þingflokksformenn sem sátu þennan fund að staðfesta þessi orð mín.