Fréttaviðtal við forseta sameinaðs þings
Þriðjudaginn 19. desember 1989


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið hjá þingmönnum hér í þessari þingskapaumræðu var mjög gott samkomulag hér á Alþingi í gær. Í þeirri deild sem ég sit, þ.e. Nd., gengu mál fram mjög vel og ég vil reyndar segja með óeðlilegum hraða. Það var gert í góðu samkomulagi við hæstv. forseta Nd. sem sá reyndar sérstaka ástæðu til þess að þakka mönnum hér í nótt fyrir gott samstarf. Og það var gert í góðu samkomulagi stjórnar og stjórnarandstöðu.
    Auðvitað hefði verið ástæða til að ræða mikilvæg mál eins og frv. um tekjuskatt og eignarskatt við 3. umr. hér í gærkvöldi. En það fór hér í gegn nánast umræðulaust. Auðvitað hefði verið ástæða til þess að ræða nánar virðisaukaskatt sem hér var til 1. umr. í gærkvöldi. Engu að síður stilltu menn máli sínu í hóf. Stjórnarandstaðan vildi gera sitt til þess að mál mættu ná hér fram að ganga í friði og samkomulagi, þ.e. að því er málsmeðferð snertir þó að efniságreiningur væri um málið. Ástæðan fyrir því að við í Sjálfstfl. gengum fram með þessum hætti í gær var auðvitað sú að við töldum að það lægi samkomulag í loftinu um meðferðina. Inni í því samkomulagi var að okkar mati uppfyllt það skilyrði okkar að fallið yrði frá þeirri dæmalausu aðgerð að brjóta upp lögin um verkefni ríkis og sveitarfélaga, bæði að því er snertir sjúkrastofnanir og þá einkum Borgarspítalann í Reykjavík og að því er snertir tannlæknaþjónustu.
    Það var þó athyglisvert, og ég vil vekja sérstaka athygli á því hér, að um það var rætt, þó við teldum að komið væri það nærri samkomulagi að við vildum sýna okkar til þess að efna það með því að hleypa máli hér í gegn með svo skjótum hætti, var þó athyglisvert að talað var um að gera um þetta skriflegt samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu.
    Ég hef setið á Alþingi í 10 ár og auðvitað lendum við í deilum eins og
þessum þegar líður að jólaleyfi og þegar líður að þinglokum. Stjórn og stjórnarandstaða þurfa að ná samkomulagi um meðferð mála til þess að þinglok geti orðið með skaplegum hætti. Ég minnist þess hins vegar aldrei að talið hafi verið nauðsynlegt að gera skriflegt samkomulag. Hvers vegna var talið nauðsynlegt að gera skriflegt samkomulag a.m.k. af okkar hálfu í gær? Var það vegna þess að við treystum ekki þingflokksformanni Framsfl., hv. þm. Páli Péturssyni? Því fer fjarri. Hann er reyndar fylginn sér í meira lagi. En orð hans standa og ég hef aldrei reynt hann að öðru. Var það vegna þess að við treystum ekki formanni Alþfl., hv. þm. Eiði Guðnasyni? Alls ekki. Ég hef aldrei orðið vitni að því að það sem hann segir standi ekki né orðið vitni að því að hann fari með ósatt mál.
    Ástæðan er auðvitað sú að menn treystu ekki hæstv. fjmrh. Ástæðan er sú að hæstv. fjmrh. er orðinn þekktur og kunnur ósannindamaður hér á Alþingi. Orðum hans er ekki hægt að treysta í einu eða neinu. Það var þess vegna sem af okkar hálfu var gerð sú krafa að skriflegt samkomulag yrði gert um

lok mála hér á þinginu fyrir þetta jólafrí. Þetta er auðvitað nauðsynlegt að komi fram. Við eigum eftir að rekja í ræðum okkar hér í þeim málum sem eftir eru til umræðu hér í kvöld, nótt, morgun og fram að jólum og guð veit hvort það verður á milli jóla og nýárs eða strax eftir nýár, mörg atriði sem hæstv. fjmrh. hefur farið ósatt með hér í ræðum og það síðast núna í dag. En að slík aðstaða sé komin upp hér á hv. Alþingi að einn hæstv. ráðherra sé orðinn svo þekktur ósannindamaður hér á þingi að á orðum hans sé ekki takandi mark nema þau séu skriflega sett niður, það er algert einsdæmi á þingi frá því að ég tók hér sæti.
    Ég vil áður en ég lýk máli mínu, virðulegi forseti, taka undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram á hæstv. forseta Sþ. Hæstv. forseti er forseti þingsins alls. Hann getur ekki leyft sér í fjölmiðlum að taka afstöðu eins og forseti gerði hér í útvarpi í kvöld. Þetta rýrir að sjálfsögðu mjög traust okkar þingmanna stjórnarandstöðunnar á hæstv. forseta og er síst til þess að greiða fyrir því að mál geti náð hér fram með skaplegum hætti.