Fréttaviðtal við forseta sameinaðs þings
Þriðjudaginn 19. desember 1989


     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Vegna orða hv. 2. þm. Reykn. hér áðan og þeirra orða sem féllu hér af forsetastóli um hvað sagt hefði verið á fundi þingflokksformanna og forseta með tilliti til samtala við borgarstjórann í Reykjavík verð ég að lýsa þeirri skoðun minni að mér þykir miður að þessi orð skuli hafa fallið hér af forsetastóli, og ég lít á það sem hvert annað slys þegar mönnum hitnar hér í hamsi í umræðunum, vegna þess að til að við getum starfað saman hér í þinginu, þá tölum við auðvitað saman hér úr þessum ræðustóli. Við verðum líka að geta talað saman í fullum trúnaði á öðrum stöðum í þessu húsi og þá ekki síst í herbergi þingforseta. Það finnst mér skipta mjög miklu máli og ég held að það sé beinlínis forsenda þess að við getum unnið hér saman og leyst þau deilumál sem upp kunna að koma.
    Það var auðvitað ekkert óeðlilegt við að þingforusta Sjálfstfl. vildi ræða við borgarstjórann í Reykjavík sem er varaformaður Sjálfstfl. Það var ekkert óeðlilegt við það. En mér þykir miður að það skyldi hafa verið gert að umtalsefni með þeim hætti sem varð. Ég endurtek að ég held að þar hafi ekki verið um neinn ásetning að ræða heldur einfaldlega vegna þess að okkur hitnar í hamsi þegar við ræðum mál sem um stendur styrr eins og nú gerist. Þá í hita augnabliksins segjum við öll eitt og annað sem við á eftir sjáum að e.t.v. hefði betur verið ósagt. Ég bið nú menn um að skoða þessi ummæli í því ljósi og treysti því að áfram getum við talað saman í fullum trúnaði til að leysa þau mál sem við erum kosin til þess að leysa.
    Ég ætla bara að lokum að segja við hv. 1. þm. Suðurl., formann Sjálfstfl., hv. þm. Þorstein Pálsson. Hann má lesa hér að lyst úr blöðum en eftir stendur að endanlegt samkomulag var ekki gert þó að þar skorti að vísu lítið á. Og mín skoðun er sú að hann hafi sagt ósatt í sjónvarpinu í kvöld og af því hefur hann hvorki heiður né sóma svo vægt sé til orða tekið.