Fréttaviðtal við forseta sameinaðs þings
Þriðjudaginn 19. desember 1989


     Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegi forseti. Mér brá í brún þegar forseti svaraði þeim athugasemdum sem ég hafði hér uppi áðan og lýsti því yfir að forseti liti svo á að hann væri ekki forseti þingmanna Sjálfstfl., hann væri hins vegar forseti allra þingmanna. Ef þetta er túlkað áfram má líta þannig á að forsetinn meti svo að hann sé ekki forseti þeirra sem kusu hann ekki því það var tekið fram.
    Það vill svo til að ég hef gegnt störfum forseta á þingi, að vísu ekki forseta Sþ. Ég var forseti Nd. sem oft á tíðum er sýnu erfiðara en að gegna störfum forseta Sþ. þar sem um er að ræða umræður um hin heitustu mál. Það hvarflaði aldrei að mér, þó að mér væri ljóst að ég væri kosinn af þeim meiri hl. sem studdi þá ríkisstjórn, annað en ég væri forseti allra þm. í þingdeildinni. Og ég lagði mig fram um það gagnvart stjórnarandstöðunni að hún yrði ekki vör þess í hvaða flokki ég væri þegar ég var að stjórna þingfundum og átti að sjá um gang mála hér í hv. Nd. Ég var á sama tíma formaður í fjh.- og viðskn. Nd. og oft og tíðum framsögumaður fyrir þeim málum sem þá voru á dagskrá. Við mættumst þar í umræðum, ég sem fulltrúi stjórnarsinna og forustumenn stjórnarandstöðunnar en það hafði aldrei áhrif á samstarf okkar, starf mitt sem forseta Nd. og þeirra sem fulltrúa stjórnarandstöðunnar.
    En nú skulum við bregða okkur og virða fyrir okkur kosningu hæstv. forseta þegar sú kosning fór fram. Og þá geta menn leitt líkur að því hverjir kusu forsetann og hverjir ekki. Ef ég má, með leyfi forseta, lesa hér upp úr þingtíðindum frá því miðvikudaginn 11. okt. Þá er forseti Sþ. kosin Guðrún Helgadóttir, 13. þm. Reykv., með 42 atkvæðum. Stefán Valgeirsson, 6. þm. Norðurl. e., hlaut 1 atkvæði. Þarna höfum við 43. Hjörleifur Guttormsson, 2. þm. Austurl., hlaut 1 atkvæði. Þarna höfum við 44. Og svo getum við bara reiknað út frá þingstyrk, nema þá að eins og ég spurði sessunaut minn að hér áðan, hv. þm. Hjörleif Guttormsson, hvort hann hefði fengið atkvæði úr
herbúðum stjórnarandstæðinga eða þeir hefðu kosið hv. þm. Stefán Valgeirsson. ( HG: Það er forsetinn sem kaus mig.) Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafði hér mjög snjalla uppástungu um hver hefði kosið hann. Ég ætla ekki að snúa mér við til að vita hvort forseti nikkar. ( Forseti: Forseti hefur þegar nikkað.)
    Ef við virðum svo fyrir okkur hver var kosinn annar varaforseti, Salome Þorkelsdóttir, 6. þm. Reykv. með 45 atkvæðum, ( SalÞ: Fyrri varaforseti.) fyrri varaforseti, ég biðst afsökunar, og annar varaforseti, Guðni Ágústsson, 5. þm. Suðurl. með 45 atkvæðum. Eru þessir varaforsetar ekki varaforsetar alls þingsins? Varaforsetar hverra eru hæstv. varaforsetar Sþ.?
    Ég verð að segja eins og er að í þessum umræðum sem hér hafa farið fram hefur mér sýnst að forseti Sþ. geri sér ekki grein fyrir hvaða stöðu forseti gegnir og ég er þeirrar skoðunar að það sem sagt hefur verið af hálfu forseta í kvöld eru orð sem á að taka aftur, á að

biðjast velvirðingar á til að þingið haldi reisn sinni og eins og ég sagði, ég er reiðubúinn til að gleyma því sem þá hefur verið sagt.