Fréttaviðtal við forseta sameinaðs þings
Þriðjudaginn 19. desember 1989


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Vegna þessara orða vil ég biðja þingheim að rifja upp það sem ég sagði hér fyrr í kvöld. Ég sagði þá orðrétt að ég liti á mig sem forseta alls þingsins, hefði verið það og væri það. Og ég bið hv. þm. að taka þessi orð aftur. ( Gripið fram í: Við hlustum á segulbandið.)
    Nú er það svo að enn eru á mælendaskrá fimm hv. þm. um þingsköp. Nú hefur þessi þingskapaumræða, sem farið hefur út um víðan völl, staðið í um það bil einn og hálfan tíma. Ég vil nú biðja þá fimm þm. sem enn eru á mælendaskrá að stytta mjög mál sitt og halda sig við þingsköp svo að gefa megi hlé til þess að formenn þingflokka megi bera saman bækur sínar.