Fréttaviðtal við forseta sameinaðs þings
Þriðjudaginn 19. desember 1989


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Forseti hefur áður sagt hér í þessari umræðu að fátt hafi verið annað gert síðustu daga en einmitt það að ræða við forustumenn flokka og reyna að leysa mál. Til upplýsinga skal þess getið um þessa þingskapaumræðu sem nú hefur farið fram í einn og hálfan tíma að tveir hv. þm. hótuðu henni hér utan þingsala í dag löngu áður en nokkurt viðtal var við forseta Sþ. í fjölmiðlum ( Gripið fram í: ... Hverjir voru það?) þannig að út af fyrir sig er þessi leikaraskapur hverjum manni ljós. (Gripið fram í.) Orðið verður ekki gefið fyrr en eftir hlé. Hv. 1. þm. Reykn. hefur beðið um orðið um þingsköp, síðan hæstv. forsrh. og að lokum hv. 3. þm. Vesturl. og að þessu loknu verður gefið umrætt hlé. Síðan geta þingskapaumræður haldið áfram. Þetta er ákvörðun forseta. Hv. 1. þm. Reykn. tekur til máls. ( Gripið fram í: ... forsrh.?) Hv. 1. þm. Reykn. er næstur á mælendaskrá. (Gripið fram í.) Forsrh. hefur ekki látið neina ósk í ljós. (Gripið fram í.) Hæstv. forsrh. hefur ekki óskað þess að fara fram fyrir ... ( HBl: ... þingmenn að gera athugasemdir við það sem hann segir?)