Fréttaviðtal við forseta sameinaðs þings
Þriðjudaginn 19. desember 1989


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegur forseti. Ég skal vera stuttorður en ég stend upp til þess að leiðrétta misskilning sem kom fram hjá hv. 1. þm. Suðurl. í sjónvarpinu í kvöld. Hv. 1. þm. Suðurl. fullyrti að ég hefði gengið frá samkomulagi um þingstörfin sem fjmrh. hefði síðan hafnað og réði því augljóslega hvernig þingstörf yrðu hér. Þetta er á misskilningi byggt og vil ég rekja hvernig afskipti mín af þessu samkomulagi hafa verið.
    Sl. föstudag mætti ég á fundi með forsetum og formönnum þingflokka. Á þeim fundi bauð ég til samkomulags að fjögur mál biðu afgreiðslu þar til í janúar, fjögur mál af forgangslista ríkisstjórnarinnar. Þessi mál eru: Tvö mál um umhverfismál, þ.e. Stjórnarráð Íslands og yfirstjórn umhverfismála, frv. um skattlagningu á orkufyrirtæki og frv. um bifreiðaskatt. Og ég lít svo á að þar hafi satt að segja verið allvel boðið. Ég lagði jafnframt áherslu á að menn sameinuðust um að afgreiða þessi frv., eins og ég orðaði það, um mánaðamótin janúar/febrúar. Um þetta hafa menn síðan að sjálfsögðu fjallað og það er rétt að við álitum að þarna væri kominn grundvöllur fyrir samkomulagi. Hins vegar upplýsti formaður þingflokks Sjálfstfl. á fundi sem var haldinn í gær að svo gæti ekki orðið vegna deilu sem væri orðin í fjvn. um framkvæmd á svokölluðu verkaskiptingarmáli. Þarf ég út af fyrir sig ekki að rekja það hér, en þar var fyrst og fremst um tvo þætti að ræða, í fyrsta lagi Borgarspítalann og í öðru lagi tannlækningar.
    Það er mikill misskilningur að ég hafi samþykkt að þessi mál bæði yrðu afgreidd á þann veg sem hv. sjálfstæðismenn leggja áherslu á, eða með öðrum orðum að ríkissjóður tæki á sig kostnaðinn af þessum málum báðum. Ég nefndi hins vegar að vitanlega væri um tvo kosti að ræða í málefni Borgarspítalans. Í fyrsta lagi að samþykkt yrði frv. heilbrrh. um yfirstjórn spítalans og þar með tæki ríkissjóður allan kostnað af rekstri spítalans eða með öðrum orðum að það
yrði eins og annars staðar á landinu. Hins vegar að málefni Borgarspítalans yrði frestað, stjórnin yrði óbreytt og Reykjavíkurborg greiddi þá hluta af kostnaðinum. En tannlækningarnar féllst ég aldrei á, enda verð ég að segja það að ég hef aldrei kynnst því í samningum um þingstörf að samið sé um einstaka efnisþætti fjárlaga. Ég held að það hljóti að vera nánast einsdæmi. Hins vegar leit ég svo á að um þetta mætti þó ræða því að það eru frv. fyrir þinginu sem fjalla líka um þessi mál, en ég held að þarna sé gengið afar langt.
    Ég ætla ekki að fara að rekja hér þróun verkaskiptamálsins. Mér sýnist þó að þar hafi orðið miklu meiri kostnaður ríkisvaldsins en gert var ráð fyrir og veit ég ekki betur en það sé óumdeilt. Við yfirtöku ríkissjóðs á heilbrigðismálum í Reykjavík er um a.m.k. 160 millj. kr. meiri kostnað að ræða en metið var. Af einhverjum ástæðum er tannlækninga ekki getið í því uppgjöri á kostnaði sem gert var sl. vetur og vekur það vissulega undrun. Því er full

ástæða til þess að ríkisvaldið vilji skoða þau mál aftur. Þetta hefur verið nefnt við sveitarfélögin allt frá því í september en því miður ekki náðst neitt samkomulag.
    Það var grundvallaratriði þegar tekjuskiptingin var hafin að þarna yrði skipt svona nokkurn veginn á jöfnu milli ríkis og sveitarfélaga. Það var líka grundvallaratriði að greiðslu kostnaðar fylgdu sterk ítök í stjórn viðkomandi stofnunar. Ég vek athygli á því að í því frv. um heilbrigðismál sem liggur fyrir er gert ráð fyrir að borgin tilnefni áfram þrjá menn af fimm í stjórn, starfsmenn einn en heilbrrh. skipi aðeins einn sem verður að vísu formaður en meiri hlutinn er samt tilnefndur af Reykjavíkurborg. Það er því mikill misskilningur að eftir að þetta kemur fram hafi verið nokkurt samkomulag. Við ákváðum hins vegar að leita leiða, m.a. hvort þetta með Borgarspítalann gæti á einhvern máta gengið upp. Þetta var síðan rætt í ríkisstjórninni í morgun og ríkisstjórnin staðfesti í raun það sem ég hafði sagt á þessum fundi í gær að um tvo kosti væri að ræða. Þeim hef ég lýst báðum og skal ekki endurtaka það. Ég ritaði borgarstjóra síðan bréf sem mér hlýtur að vera frjálst að gera og gerði honum grein fyrir þessari niðurstöðu ríkisstjórnarinnar, þessum tveimur kostum. Í þessu bréfi er engin hótun, alls ekki, heldur er þetta viðleitni til að samkomulag geti orðið um Borgarspítalann. Og ég hef rætt við borgarstjórann í síma í dag og við ætlum að hittast í fyrramálið og ræða það mál. Ég tek ekki í mál að fara að lesa slík bréf hér upp. Við munum ræða málið og ég ætla að vita hvort unnt er að ná samkomulagi við Reykjavíkurborg um þetta mál. ( Gripið fram í: Hvers vegna má ekki lesa bréfið?) Ég skrifaði þetta bréf borgarstjóra og ég er frjáls að gera það. Það er engin hótun í því. Ég hef rakið efni bréfsins og ég vil ræða það við borgarstjóra áður en bréfið sem slíkt er gert hér að umræðuefni.