Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Ég hef fyrirspurn fram að bera í sambandi við þetta mál til hæstv. viðskrh. ( Forseti: Hæstv. viðskrh. er erlendis.) En fjmrh.? ( Forseti: Það mun verða leitað að honum.)
    Herra forseti. Sú fyrirspurn sem ég vil beina til hæstv. fjmrh. er vegna þess að við erum hér að fjalla um skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og einnig liggur fyrir deildinni frv. um launaskatt. Það frv. felur í sér þyngingu á verslunina. Á hinn bóginn hefur það komið fram með óformlegum hætti í fjh.- og viðskn. að það mál sé ekki endanlega afgreitt hvort veittur verði greiðslufrestur við innflutning, við tollafgreiðslu á aðstöðugjaldi nú í janúarmánuði um leið og virðisaukaskattur tekur gildi. Mér fyndist viðeigandi vegna þess hversu stjórnarandstaðan hefur verið lipur við stjórnarmeirihlutann við afgreiðslu mála hér í Ed. og vegna þess að ekki hefur staðið á stjórnarandstöðunni, hvorki í nefndum né við umræður hér í deildinni, og mér er ekki kunnugt um annað en við höfum fyllilega staðið við hvert það samkomulag sem við höfum gert og raunar reynt að greiða fyrir nefndarstörfum í fjh.- og viðskn. og vegna þess að ég veit að hæstv. fjmrh. hlýtur að vera stjórnarandstöðunni mjög þakklátur fyrir hversu liprir við höfum verið í nefndarstörfum --- það er t.d. ekki að frumkvæði Sjálfstfl. sem sú ákvörðun var tekin í morgun að afgreiða ekki frv. til tekjuskattslaga úr nefnd heldur er það að frumkvæði meiri hlutans sem óskað var eftir fyllri upplýsingum um sérstaka þætti þess frv. og þess vegna hefur nefndin ekki lokið störfum --- og einmitt vegna þess hversu liprir við höfum verið við stjórnarmeirihlutann óska ég eftir því að hæstv. fjmrh. svari því í fullri vinsemd hvort hann hafi það enn þá til athugunar að veita versluninni greiðslufrest á virðisaukaskatti við tollafgreiðslu til þess að koma í veg fyrir þau hækkunartilefni sem ella yrðu í almennu verðlagi hér á landi.