Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. þm. Halldór Blöndal sagði hér að þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa sýnt mikinn skilning í fjárhags- og viðskiptanefndum á nauðsyn þess að afgreiða þau frumvörp sem hér eru til meðferðar fljótt og vel úr nefndum. Svar mitt við spurningu hans er einfalt og skýrt. Svarið er já. Ég hef það enn til athugunar að veita greiðslufrest í tolli við innflutning. Það hefur þegar verið ákveðið að veita hann varðandi hráefni til iðnaðar og það fer enn fram í fjmrn. í samræmi við það sem lýst var yfir hér fyrr í þessari hv. deild áframhaldandi athugun á því með hvaða hætti megi veita greiðslufrest í tolli við innflutning án þess að raska greiðslustöðu ríkissjóðs á næsta ári.
    Það hafa komið fram síðustu daga ýmsar hugmyndir um það með hvaða hætti þetta muni gerast. Þær eru til skoðunar. Það er ljóst að þörfin á því að veita þennan greiðslufrest er brýnust á fyrstu mánuðum ársins. Eftir það fara áhrif virðisaukaskattsins að virka fyrirtækjunum í hag til þess að styrkja fjárhagsstöðu þeirra þannig að þörfin fyrir greiðslufrestinn minnkar hlutfallslega eftir því sem líður á tímann.
    Ég tel að ég geti ekki á þessu stigi greint nánar frá þeim hugmyndum, en ég hef átt fundi í gær um þetta mál, í morgun og í dag, og þessi mál eru sem sagt enn í skoðun og væntanlega verður hægt að lýsa einhverjum niðurstöðum í þeirri athugun áður en þingi lýkur, en ég treysti mér ekki á þessu stigi til þess að fullyrða það. En svarið við spurningunni er já. Það er enn þá unnið að þeirri athugun.