Tekjustofnar sveitarfélaga
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Frsm. félmn. (Jóhann Einvarðsson):
    Hæstv. forseti. Eins og hv. deildarmönnum er kunnugt hefur Nd. gengið frá frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, frv. sem er til meðferðar núna í hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar, og að athuguðu máli var talið rétt að gera nokkrar breytingar í samræmi við það á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Til samræmis við tekjuskattslögin eru því núna á milli 2. og 3. umr. fluttar þrjár brtt. við það frv. frá félmn. og eru þær á þskj. 384.
    Fyrsta breytingin er til samræmingar við fyrirhugaða breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Í henni felst breyting varðandi útsvarsálagningu barna sem misst hafa annað eða bæði foreldri. Lagt er til að heimilt verði eftir umsókn að skattleggja slíkar tekjur hjá börnunum sjálfum í stað þess fyrirkomulags sem nú er, að skattleggja þær með tekjum þess aðila sem nýtur barnabóta vegna barnsins. Ég hygg að hér sé um mikið sanngirnismál að ræða enda eru allir félagsmálanefndarmenn sammála um að leggja þessa breytingu til í samræmingarskyni.
    Önnur brtt. er sú að í stað orðanna ,,Við gildistöku laga þessara`` komi: Þegar lög þessi koma til framkvæmda, og er það til skýringa og til að taka af allan vafa varðandi gildistöku laganna.
    Í þriðju brtt. er lagt er til að nýtt bráðabirgðaákvæði komi inn til að tryggja að ákvæðin í 3. gr. varðandi útsvarsálagningu barna gildi við útsvarsálagninguna strax á árinu 1990 vegna tekna þeirra á árinu 1989.
    Ég vil að lokum taka það fram að við samningu þessara brtt. var haft samráð við lögfræðing hjá ríkisskattstjóra, Steinþór Haraldsson, og Húnboga Þorsteinsson, skrifstofustjóra í félmrn.