Lánsfjárlög 1990
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1990 á þskj. 401 frá 2. minni hl. fjh.- og viðskn. og einnig fyrir brtt. við lánsfjárlög á þskj. 402 frá Guðrúnu Agnarsdóttur og Danfríði Skarphéðinsdóttur.
    Það er óvanalega mikil óvissa sem ríkir nú um þessar mundir um stöðu ríkisfjármála á síðustu dögum þingsins fyrir jólahlé. Mikill niðurskurður er fyrirhugaður hjá fjvn. fyrir lokaafgreiðslu fjárlagafrv. vegna halla á fjárlögum og frv. til lánsfjárlaga tekur því stórum breytingum rétt áður en því er ætlað að koma til 2. umr. í fyrri deild, tveimur dögum fyrir áætlað þinghlé.
    Sem dæmi má nefna að heildarupphæð umbeðinnar lántökuheimildar hefur skyndilega hækkað um 1 milljarð en innlendrar lántökuheimildar um 300 millj. í ofanálag. Þetta er sem sé heildarhækkun upp á 1,3 milljarða.
    Erfitt er því að meta forsendur frv. og ýmsir liðir þess í raun mjög óvissir. Erfitt er einnig að sjá hvernig síðari deild á að geta kynnt sér og fjallað um jafnviðamikið mál á einum til tveimur dögum.
    Slík vinnubrögð eru auðvitað algerlega óviðunandi.
    Til samanburðar má taka að lánsfjárlög fyrir árið 1989 voru ekki afgreidd fyrr en í mars 1989. Rammi þeirra reyndist þó ekki raunhæfari heldur en svo að opinberir sjóðir fengu t.d. um 7 milljarða kr. á árinu en áttu ekki að fá nema 4,9. Breytingar á þeim lögum hafa einmitt nýlega verið gerðar í samræmi við aukna lánsfjárþörf. Svo stutt stóðu þær áætlanir.
    Upphafleg ætlun ríkisstjórnarinnar í þessu frv. var að halda erlendum lántökum mjög í hófi en sækja þeim mun meira lánsfé á innlendan lánsfjármarkað.
    Þessi áform hafa nú breyst þannig að leita skal aukinna erlendra lána sem nemur 1 milljarði. Hafa ber einnig í huga að aukin ásókn ríkisstjórnar í innlent lánsfé getur leitt til hækkunar vaxta en raunvextir eru nú taldir vera
um 7--8%. Háir vextir hafa verið þungur baggi bæði á húsnæðiskaupendum og eins á fyrirtækjum hérlendis. Það ber einnig að hafa í huga að húsbréfakerfið mun auka þörf fyrir lánsfé og talið er að fjárbinding fyrirtækja og iðnaðar vegna innflutnings í kjölfar þess að virðisaukaskattur er tekinn upp nú um áramótin, ef af verður, muni leiða til 4--5 milljarða kr. lánsfjárþarfar strax á fyrri hluta næsta árs.
    Eins og kom fram í máli hv. frsm. 1. minni hl. er hér ótvírætt um samdráttarfrv. að ræða og það kom fram einmitt, eins og hann sagði, í ummælum forsvarsmanna fjárfestingarlánasjóða að lántökur hefðu mjög dregist saman þannig að flestir sjóðirnir önnuðu þeirri þörf eða eftirspurn sem var eftir lánum. Við höfum ýmsar aðrar tölur um spá á næsta ári og nú í morgun barst okkur glóðvolg og glæný frétt frá Þjóðhagsstofnun sem varla hefur gefist tími til að líta í vegna annríkis, um spá fyrir næsta ár og þá kannski einkum fyrri hluta næsta árs. Og þar eru líka

samdráttareinkenni. Ég vil þá víkja að nokkrum efnisatriðum frv. þó að ég taki ekki nema nokkur til umræðu hér.
    Það er þá fyrst að í frv. eru nýjar lántökuaðferðir, þ.e. það nýmæli að gert er ráð fyrir hámarkslánum til Iðnþróunar- og Iðnlánasjóðs og skulu lántökur vegna fyrirtækja rúmast innan þeirra lántökuheimilda. Enn fremur er þessum og öðrum tilgreindum lántökuaðilum gert skylt að kynna áform sín og leita fyrir fram samþykkis Seðlabanka Íslands í umboði fjmrn. á kjörum og skilmálum erlendra lána.
    Þetta er gert til að reyna að samræma lánskjör stofnana með ríkisábyrgðir og ríkissjóðs sjálfs á alþjóðlegum lánamörkuðum og koma í veg fyrir uppspennta vexti og það að ríkissjóður njóti verri lánskjara en ella. Fram kom í viðræðum nefndarinnar við forstöðumenn ýmissa sjóða og stofnana að þeir hafi sneitt fram hjá Framkvæmdasjóði á undanförnum árum við öflun erlendra lána vegna þess að þeim þótti lántaka þar óhagkvæm. Sú skoðun kom fram að nauðsynlegt væri að fleiri en Seðlabankinn tækju erlend lán, ekki síst vegna þess að þekking á erlendum viðskiptum þyrfti að vera fyrir hendi á fleiri stöðum en í Seðlabankanum.
    Hins vegar kom það einnig fram að flestir ef ekki allir fyrrgreindir viðmælendur nefndarinnar sögðust hafa haft samráð við Seðlabankann og mátu það mjög mikils en voru andvígir þeirri hugmynd að leita þyrfti samþykkis Seðlabankans áður en hafist væri handa í sambandi við lánsframkvæmdir eða lántökur.
    Annar minni hl. telur að draga þurfi sem mest úr erlendum lántökum en eðlilegt sé að leita samræmingar um slíkar lántökur og hagnýta þá reynslu og þekkingu sem til er í landinu á því sviði og miðla henni. Annar minni hl. telur jafnframt að nægilegt sé að leita samráðs Seðlabankans en telur ekki að samþykki hans þurfi til, enda var reyndin sú að flestir höfðu í raun leitað samráðs við bankann.
    Þá vík ég aðeins að II. kafla frv. því að ég tel ekki ástæðu til að minnast frekar á efnisþætti í I. kafla þó að það væri vissulega ástæða til að minnast á ýmsa þá sjóði sem þar eru nefndir. Nefna má Bjargráðasjóð sem mun leggjast
af eftir 1--2 ár ef ekkert verður að gert til þess að auka fjármögnun hans, en þessi sjóður hefur það hlutverk að létta undir með þeim sem bíða tjón á eignum sínum í óveðrum og er vissulega oft um að ræða talsvert mikil tjón af flóðum og ýmsum öðrum tegundum óveðra. Það er því mál að huga að því hverja framtíð menn ætla þessum sjóði.
    Það kom einnig fram að mikil skerðing hefur orðið á fjármögnun eða fé til Hafnabótasjóðs og þörfin mun meiri heldur en sinnt er. Þó hefur nokkur hækkun verið lögð til í brtt. meiri hlutans til þess að mæta þörfum þessa sjóðs.
    Þá vík ég næst að því að ræða skerðingarákvæðin almennt en í þessu frv. er afturgenginn sá ósiður fyrri ára þegar löggjafinn notar lagasetningu eins og leikfang og ómerkir fyrri gerðir sínar. Þannig er lagt til að fella niður lögbundin framlög til einstakra

málaflokka en í sumum tilvikum hefur jafnvel aldrei verið staðið við þau. Og nú stendur einmitt til í þessu frv. að taka upp þennan sið um nokkrar stofnanir eða sjóði eins og t.d. Þjóðarbókhlöðuna sem minnst var á hér áðan. Þetta háttalag --- og ég bið hv. þm. að leggja við eyrun --- veikir þá virðingu sem löggjafinn sjálfur ber fyrir þeim lögum sem hann setur og grefur jafnframt undan trausti almennings til Alþingis. Réttara væri og nær að endurskoða þau lög sem Alþingi treystir sér ekki til að standa við í stað þess að stunda vinnubrögð af þessu tagi árum saman.
    Ég vík þá næst að 19. gr. frv. sem varðar Ferðamálaráð og Ferðamálasjóð. Hér er einmitt um að ræða gróft dæmi þess hvernig framkvæmdarvaldið gengur yfir vilja Alþingis en aldrei hefur verið staðið við lögboðið framlag til ferðamála. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 8. gr. og 26. gr. laga nr. 79 frá 1985, um skipulag ferðamála, gildir eftirfarandi um framlög ríkissjóðs:
    Fríhöfnin í Keflavík skal greiða til Ferðamálaráðs 10% af árlegri vörusölu, en kostnaður af starfsemi Ferðamálaráðs skal að öðru leyti greiddur úr ríkissjóði.
    Árlegt framlag til Ferðamálasjóðs skal vera eigi lægri fjárhæð en 12 millj. kr.
    Áætluð velta flughafnarinnar á næsta ári mun vera um 1,4 milljarðar. Tekjur Ferðamálaráðs ættu því að vera um 145 millj. kr. Hins vegar eru fjárframlög til þess samkvæmt þessu frv. ætluð, eftir hækkunartillögu, þ.e. brtt. frá meiri hl., 38 millj. 600 þús. kr. eða 26,5% af fjárþörfinni eða áætluðum tekjustofni og nægir sú fjárhæð engan veginn fyrir fjárhagsskuldbindingum ráðsins eins og sjá má af meðfylgjandi gögnum í nál., sem ég mun ekki lesa upp, en sú tala er 51 millj. 600 þús. kr., þ.e. nauðsynlegar fjárskuldbindingar Ferðamálaráðs.
    Það er einna tilfinnanlegast að Ferðamálaráð skuli ekki geta brugðist við auknum ferðamannastraumi til landsins með því að huga að brýnni umhverfisvernd. Því flytur 2. minni hl. brtt. á sérstöku þskj. um aukið fé til umhverfisverndar á vegum Ferðamálaráðs. Öðrum minni hl. þykir það undarleg forgangsröðun fjármálastjórnar að skammta svo naumt til þeirrar vaxandi og vænlegu atvinnugreinar sem ferðamál eru og ég vil vitna, með leyfi hæstv. forseta, til ályktunar sem var samþykkt á fundi Ferðamálaráðs og send þingmönnum og öllum fjölmiðlum. Þar segir:
    ,,Fjársvelti hefur gert Ferðamálaráði gjörsamlega ókleift að gegna hlutverki sínu og sinna þeim verkefnum sem kveðið er á um í lögum en samkvæmt þeim skal Ferðamálaráð verja ráðstöfunarfé sínu á eftirfarandi hátt:
    a. Til að veita einkaaðilum og opinberum aðilum styrki til að koma upp eða endurbæta aðstöðu fyrir ferðamenn.
    b. Til landkynningarverkefna á vegum Ferðamálaráðs.
    c. Til Ferðamálasjóðs til styrkveitinga.``
    Verkefni Ferðamálaráðs eru enn frekar sundurliðuð og talin upp í 13 atriðum þar sem ráðinu er m.a. ætlað að hafa frumkvæði að fegrun umhverfis og

góðri umgengni á viðkomu- og dvalarstöðum ferðafólks, skipuleggja nám og þjálfun fyrir leiðsögumenn og aðra aðila í ferðaþjónustu, taka þátt í fjölþjóðlegu samstarfi um ferðamál, veita ráðgjöf, aðstoð og upplýsingar o.s.frv. o.s.frv.
    ,,Það er alkunna að fjöldi erlendra ferðamanna hefur farið sífellt vaxandi á síðustu árum. Þannig hefur aukningin numið um 60% á síðustu fimm árum og gæti áframhaldandi aukning orðið um 7% á hverju ári ef rétt er á málunum haldið. Jafnframt ferðast Íslendingar í síauknum mæli um eigið land. Engin skipuleg uppbygging hefur átt sér stað til þess að mæta þessari gífurlegu aukningu og er nú svo komið að margir fjölsóttir ferðamannastaðir eru í hættu auk þess sem aðstaða til móttöku ferðamanna er víða til lítils sóma. Vægi ferðaþjónustu er sívaxandi í atvinnulífi landsmanna. Gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum nema um 9% af allri útfluttri vöru og þjónustu Íslendinga og gætu beinar tekjur af ferðamönnum orðið um eða yfir 10 milljarðar á þessu ári. Fjöldi ársverka hefur aukist stöðugt undanfarin ár og mun nú vera rúmlega fimm þúsund. Fjárfesting á bak við hvert starf í ferðaþjónustu er lítil í samanburði við flestar aðrar atvinnugreinar`` --- og mætti ég nú vísa hæstv. ráðherrum á muninn á kostnaði við hvert starf í ferðaþjónustu og við hvert starf í stóriðju. Þar er gríðarlegur munur á.
    ,,Í ferðaþjónustu eru margir kostir ónýttir og ekki vafamál að margfalda má gjaldeyristekjur af greininni ef rétt er á málum haldið. Mikilvægt er að vinna markvisst að nýtingu þessara kosta og gæta þess jafnframt að vernda þá auðlind sem greinin byggir fyrst og fremst á, þ.e. landið sjálft og dýrmæta náttúru þess.`` --- Og ég lýk þessari tilvitnun í bréf sem þingmönnum barst.
    Það ber líka að nefna að á undanförnum árum hefur Náttúruverndarráði og Ferðamálaráði borist fjöldi úttekta og ábendinga um brýn verkefni til að bæta móttöku ferðamanna á vinsælum áningarstöðum og reyna að stöðva gróðurspjöll og landskemmdir sem þegar eru orðin mjög mikil. Hins vegar hafa öll þessi gögn verið að rykfalla síðustu 3--4 árin vegna þess að fjárveitingar til þessa málaflokks hafa engar verið en áætlanir Ferðamálaráðs og brýn verkefni varða einkum og sér í lagi að huga að stöðum, bæði á láglendi og hálendi, sem hafa látið mjög á sjá af völdum umferðar ferðamanna. Sammerkt er með þeim öllum að þar vantar sorpílát og sorphirðu, snyrtingar, göngustíga til að stöðva oft á tíðum miklar gróðurskemmdir og afmörkun ökuleiða og bílastæða, einmitt til þess að vernda náttúruna líka.
    Kvennalistinn hefur á undanförnum árum flutt hér á þingi allmörg mál sem varða ferðaþjónustu og einnig mál er snerta verndun landsins og umhverfis til þess að geta tekið á móti ferðamönnum hér á landi án þess að skaði hljótist af.
    Ferðamálasjóðs, sem reyndar er getið í greininni líka, er í raun ekki getið í frv. utan nafnsins en hans er þó getið í grg. fjárlagafrv. Sjóðurinn hefur ekki getað veitt styrki vegna skorts á fjárveitingum. Vanskil

hans eru nú um 100 millj. kr. en eigið fé 127 millj. kr.
    Þá vík ég næst að Menningarsjóði sem fjallað er um í 21. gr. skerðingarákvæðanna. Fjárframlög til þessa sjóðs --- og nú bið ég hv. 4. þm. Vesturl. að leggja við eyrun, ég ætla að tala um Menningarsjóð. --- Fjárframlög til þessa sjóðs fara lækkandi ár frá ári, en þau renna að mestu leyti til launa starfsmanna en Menningarsjóður hefur með höndum bókaútgáfu og styrkveitingar til listamanna. Á árinu 1987 fékk sjóðurinn 9 millj. kr. Árið 1989 fékk hann 11 millj. kr. og í þessu frv. eru honum ætlaðar 8,5 millj. kr.
    Samkvæmt ákvæðum 3. gr. laga nr. 50/1957, um Menningarsjóð, skal ríkissjóður greiða sjóðnum það gjald sem fæst af skemmtanaskatti af aðgöngumiðum að kvikmyndasýningum og dansleikjum í samræmi við ákvæði laga um skemmtanaskatt. Þess ber að geta að minnkandi aðsókn hefur verið að kvikmyndahúsum og tekjustofninn fer því þverrandi.
    Að mati forsvarsmanns sjóðsins hefur Fjárlaga- og hagsýslustofnun ofáætlað verulega tekjur af sölu bóka á vegum sjóðsins og einnig kom fram í viðræðum við nefndina að mikið upplag óseldra bóka um þjóðhátíðina 1974 lægi hjá sjóðnum. Það væri auðvitað heillaráð, hæstv. menntmrh., að gefa eintök af þessari bók í skóla landsins og bókasöfn nemendum og lesendum til fróðleiks um þennan merka atburð. Forsvarsmaður sjóðsins taldi það rothögg fyrir sjóðinn ef framlag ríkisins yrði ekki hærra. Annar minni hl. flytur brtt. um að fella þetta skerðingarákvæði niður.
    Þá vík ég næst að Ríkisútvarpinu og nú vil ég gjarnan að hæstv. menntmrh. hlusti á mál mitt og þá þætti mér einnig vænt um ef hægt væri að ná í hæstv. fjmrh. því ég þarf að spyrja hann --- og geri ég hlé á máli mínu þar til hann gengur í salinn. --- Ekki vill nú þingkonan tefja störf þingsins, hæstv. forseti, er mikið á móti skapi að tefja störf þingsins. Ég vona að hæstv. fjmrh. geri það ekki heldur. ( Forseti: Ég vona það líka að hann birtist.) Ég vil tilkynna hæstv. forseta að ég á nú ekki mjög mikið eftir af máli mínu. --- Ég fagna því að hæstv. fjmrh. er genginn í fundasal efri deildar.
    Ég vil víkja nokkrum orðum að Ríkisútvarpinu í umræðu minni um frv. til lánsfjárlaga og þar vildi ég leggja spurningu fyrir hæstv. fjmrh. og fyrir hæstv. menntmrh.
    Samkvæmt ákvæðum 22. og 23. gr. laga nr. 68/1985, útvarpslaga, skulu tekjur af aðflutningsgjöldum af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum og hlutum í þau renna óskiptar til Framkvæmdasjóðs Ríkisútvarpsins. Jafnframt skulu 10% af brúttótekjum Ríkisútvarpsins af auglýsingum og afnotagjöldum renna til Framkvæmdasjóðs Ríkisútvarpsins.
    Forsvarsmenn RÚV lýstu yfir mikilli óánægju á fundi fjh.- og viðskn. með þá skerðingu sem frv. gerir ráð fyrir og stofnunin hefur þurft að sæta undanfarin ár. Um 63 millj. kr. þyrfti til að ljúka framkvæmdum við Útvarpshúsið í Efstaleiti en þær hafa staðið í stað síðan 1987 og er það mjög bagalegt fyrir stofnunina. Sjónvarpið hefði átt að vera flutt fyrir löngu undir

sama þak og útvarpið og er full eining meðal starfsmanna stofnunarinnar um að svo verði sem fyrst.
    RÚV verður 60 ára á næsta ári og er það kjörið tilefni til að fullgera húsakost þessarar merku stofnunar. Ríkisstjórnin hefur samið við RÚV um greiðslu á launaskuldum að upphæð 318 millj. kr. og á sú greiðsla að fara fram í gegnum Tryggingastofnun að ég hygg. En skerðing fjárframlaga til stofnunarinnar á árinu 1987 nam 250 millj. kr. Annar minni hl., sú sem hér stendur, telur að ríkisstjórnin geti ekki vikið sér undan því að efna loforð
sín við RÚV og á því hangir mikilvægi þessarar skerðingarákvæðisgreinar frv. Það er umhugsunarefni að standi ríkisstjórnin ekki við gefin loforð, þá blasir það beint við RÚV að hækka afnotagjöldin til að reyna að bjarga við fjárhag stofnunarinnar. Á hinn bóginn hefur ríkisstjórnin gefið aðilum vinnumarkaðarins mjög nýlega loforð um að halda niðri hækkunum á opinberum gjöldum á næsta ári til að greiða fyrir kjarasamningum og er erfitt að sjá hvernig það dæmi gengur upp.
    Nú vil ég spyrja þá hæstv. tvo ráðherra sem hér sitja: Ætlar ríkisstjórnin að efna þetta loforð við Ríkisútvarpið, þannig að hún komi til móts við fjárþörf Ríkisútvarpsins þó að þetta skerðingarákvæði verði samþykkt?
    Ég vík næst að Framkvæmdasjóði aldraðra. Samkvæmt ákvæði 1. tölul. 10. gr. laga nr. 82/1989, um málefni aldraðra, skulu renna til Framkvæmdasjóðs aldraðra tekjur af sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á þá sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skal gjaldið nema 2.500 kr. á hvern gjaldanda. Fjárhæð gjaldsins skal breytast árlega í samræmi við breytingar er kunna að verða á byggingarvísitölu, í fyrsta skipti við álagningu á árinu 1990 miðað við breytingu á byggingarvísitölu frá 1. des. 1989.
    Hér reynir í fyrsta sinn á framkvæmd endurskoðaðra laga sem Alþingi samþykkti á sl. vori. Ef ég man rétt þá var gefið hér loforð í þessari deild um að það yrði örugglega staðið við að þessi nefskattur rynni þangað sem honum var ætlað að fara og er hér til vitnis hv. 6. þm. Reykn. í þeim efnum.
    Forsvarsmaður Framkvæmdasjóðsins lýsti yfir mikilli óánægju á fundi nefndarinnar með þá skerðingu sem nú fer fram þriðja árið í röð.
    Óskert hefði framlagið átt að vera 230 millj. kr. en í frv. er gert ráð fyrir 160 millj. kr. Ef sjóðurinn hefði fengið að starfa með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir í fimm ár má reikna með að honum hefði að mestu tekist að byggja upp aðstöðu fyrir aldraða um allt land. Nú stefnir hins vegar í vandræði og ekki verður unnt að sinna sem skyldi þörfum aldraðra en vandi þeirra fer vaxandi.
    Því leggur 2. minni hl. til að þetta skerðingarákvæði verði fellt niður og gerir brtt. um það.
    Ég vík þá að skerðingu á framlagi til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Fyrirhuguð er í brtt. við frv. skerðing á framlagi ríkisins til Lífeyrissjóðs

starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs hjúkrunarkvenna. Fjárlaga- og hagsýslustjóri, sem kom á fund nefndarinnar, taldi rétt sjóðfélaga ótvírætt tryggðan samkvæmt beinum lagaákvæðum án tillits til stöðu sjóðsins. Fulltrúar samtaka launafólks sem komu á fund nefndarinnar og höfðu einnig sent alþingismönnum bréf áður um sama efni lýstu sig andvíga þessari skerðingu og töldu að 500 millj. kr. skerðing á framlagi ríkisins til lífeyrissjóðsins væri annað tveggja frestun á lögbundnu framlagi ríkisins eða fyrsta skref í átt að því að ríkið hlaupist undan skyldum sínum gagnvart sjóðfélögum. Annar minni hl. telur þessa aðgerð mjög varhugaverða og birtir til áréttingar bréf samtaka launafólks en samtök hjúkrunarfræðinga og hjúkrunarfólks sem mætti á fund nefndarinnar lýstu stuðningi við efni þess. Ég mun ekki vitna til þessa plaggs en vísa mönnum á það í þingskjalinu, en vil að lokum lesa niðurlagsorð bréfsins, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Öll samtök opinberra starfsmanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna og Kennarasamband Íslands, skora á alþingismenn að fallast ekki á lækkun á lögbundnum greiðslum til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Það grefur undan möguleikum sjóðsins til að standa við skuldbindingar sínar.``
    Undir þetta rita fulltrúar BHMR, BSRB og KÍ.
    Og ég vildi koma því áleiðis til hæstv. ráðherra að það vakti athygli mína á þessum morgunfundi þar sem litla fundarherbergið í Þórshamri var fullt af fulltrúum launþegasamtakanna, þessara sem mættu á fundinn, að tortryggni þeirra gagnvart ríkisvaldinu var slík að fyrstu viðbrögðin voru í raun varnarviðbrögð gegn ásælni ríkisvaldsins og gegn því að ríkisvaldið væri að svíkja eina ferðina enn. Það var svo auðvelt að finna fyrir þessari tortryggni gagnvart ríkisvaldinu og mér fannst það mjög slæmt. Það verð ég að segja. Mér fannst það mjög slæmt að finna hversu djúpstæð þessi tortryggni var í raun og veru. Ég held að það sé umhugsunarvert fyrir ríkisstjórnina og hæstv. ráðherra hvers vegna það sé.
    Það væri ástæða til að ræða ýmsa aðra þætti í þessu frv. Ég ætla í lokin aðeins að víkja að Listskreytingasjóði ríkisins. Forstöðumaður eða fulltrúi hans kom á fund nefndarinnar og talaði um þá reglubundnu skerðingu sem hefði verið á framlagi til þessa sjóðs en hann gegnir í raun mjög mikilvægu hlutverki. Hann gegnir því hlutverki að koma list í opinberar byggingar víða um landið sem er auðvitað menntandi og gleðjandi fyrir þá sem njóta þeirra bygginga og sækja þær, en þessi sjóður hefur einnig annað hlutverk. Hann hefur það hlutverk að efla atvinnumarkað myndlistarmanna. Stöðugar og reglubundnar skerðingar til þessa sjóðs eru auðvitað ákveðin lítilsvirðing við listamenn og
mikið sárindaefni þeirra hvernig farið hefur verið með sjóðinn því að aldrei hefur verið staðið við framlög í hann.
    Ég mun nú ljúka máli mínu, hæstv. forseti, og ég mun láta eiga sig frekari vangaveltur um efnahagslega

stöðu annaðhvort ríkissjóðs eða þjóðarbúsins, ekki síst vegna þess hversu óáreiðanlegar margar þessar tölur eru og, eins og ég hef áður lýst hér í umræðunni, hvernig allar stærðir breytast frá degi til dags svo milljörðum skiptir. Það er afar erfitt að vera með marktækar vangaveltur í slíku andrúmslofti. T.d. nú, stundu áður en þetta frv. kemur til 2. umr. --- og þetta skrifaði ég þegar ég gekk frá þessu nál. --- þá liggur ekki ljóst fyrir hver raunverulegur halli fjárlaga er. Það er því jafnóljóst og áður hverjar endanlegar forsendur þessa frv. verða.
    Sá óstöðugleiki sem stjórnvöld bjóða stofnunum, fyrirtækjum og heimilum landsins upp á með síðbúnum ákvörðunum í tímaþröng um jafnviðamikil mál og sameiginlegan búreikning ríkisins er með öllu óverjandi.
    Af ofangreindum ástæðum getur 2. minni hl. ekki stutt þetta frv. en mun leggja fram brtt. við það á sérstöku þskj. 402 sem ég hef þegar minnst á. Þar er lögð til 30 millj. kr. hækkun til Ferðamálaráðs vegna umhverfisverndar til að mæta þeim gróðurspjöllum og þeirri áníðslu á landið sem þegar er orðin af ásókn ferðamanna á fjölfarna staði.
    Við 21. gr., eins og ég kynnti áðan, leggjum við til að skerðingarákvæði á Menningarsjóð falli brott og við 27. gr. sem varðar Framkvæmdasjóð aldraðra leggjum við einnig til að það skerðingarákvæði falli brott. Og við munum ekki styðja brtt. um skerðingu á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.
    Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu og ég vænti þess að ráðherrar muni svara spurningu minni.