Lánsfjárlög 1990
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Það er öldungis rétt hjá hæstv. menntmrh. að það hallaði undan fæti í fjármálum Ríkisútvarpsins á árinu 1988. Á öðrum stað í ræðu sinni rakti hann ástæður fyrir því sem eru þær að það var mikil tregða á árinu 1988 að leyfa Ríkisútvarpinu að hækka afnotagjald í samræmi við þær forsendur sem tilgreindar voru í fjárlögum fyrir árið 1988. Ríkisútvarpið var með öðrum orðum ein af þeim stofnunum sem varð að gjalda fyrir þá sviksemi sem upp kom í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar og þau óheilindi sem sjálfstæðismenn áttu að mæta í þeirri ríkisstjórn sem m.a. lýsti sér í því að það varð að samkomulagi milli Alþfl. og Framsfl. ekki einungis að standa á móti sjálfsögðum hækkunum afnotagjalds á meðan ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sat við völd heldur fylgdu þeir því eftir í hinni nýju ríkisstjórn með því að standa á móti hækkunum á afnotagjaldi það sem eftir lifði ársins 1988, ef ég man rétt. Nú hef ég að vísu ekki flett þessu upp en ég held að ég fari rétt með þetta. Það er því ósköp eðlilegt ef ríkisstjórn tekur ákvörðun um það að stofnanir ríkisins megi ekki hækka útselda vinnu, þjónustu eða vörur í samræmi við forsendur fjárlaga þá hlýtur það að sjálfsögðu að bitna á ríkissjóði. Það er ákvörðun ríkisstjórnarinnar um það. Þess vegna er skuldahalinn sem Ríkisútvarpið dró á eftir sér eftir árið 1988 að verulegum hluta vegna neikvæðrar afstöðu fyrst og fremst Alþfl. og Alþb. til Ríkisútvarpsins á þessum tíma. (Gripið fram í.) Eftir að Alþb. kom í ríkisstjórn, já. Síðustu mánuði ársins, ef ég man rétt, voru afnotagjöld Ríkisútvarpsins ekki hækkuð, eftir að Alþb. kom í ríkisstjórn.
    Ég vil í öðru lagi aðeins minna á það að auðvitað var það álitamál hvort ekki væri ofrausn að byggja Útvarpshúsið eins og það var byggt. Það breytir því ekki að þar er nú mikið ónotað húsnæði sem hægt væri að nýta fyrir sjónvarpið ef fjármunir fengjust til þess og fyrir skrifstofuhúsnæði. Og það
er upplýst af forsvarsmönnum Ríkisútvarpsins að það mundi hafa margvíslegt hagræði í för með sér ef stofnunin yrði undir einu þaki, mundi lækka rekstrargjöldin og þannig til lengri tíma litið verða til sparnaðar og hagræðingar í opinberum rekstri.
    Afstaða þessarar hæstv. ríkisstjórnar til Ríkisútvarpsins minnir á litla brú sem byggð var og reist í sumar yfir Hörgá í Hörgárdal. Eftir að búið var að steypa upp brúna komu boð frá hæstv. fjmrh. um það að hæstv. samgrh. ætti að skera niður um 3 millj. vegaframkvæmdir fyrir norðan. Samgrh. fann ekki neitt tiltækt nema veginn að brúnni beggja vegna þannig að þessum litlu vegaframkvæmdum var frestað í nokkra mánuði til óhagræðis fyrir þá sem um brúna þurftu að fara en síðan var auðvitað vegurinn lagður þannig að sparnaður var enginn. Þvert á móti hafði þetta útgjöld í för með sér. Þetta var sýndarmennska sem ekki átti við nein rök að styðjast.
    Á næsta ári verður Ríkisútvarpið 60 ára. Það hefði auðvitað verið sómi að því að hæstv. ríkisstjórn hefði

í fjárlögum og lánsfjárlögum gert ráð fyrir því að Ríkisútvarpið fengi stærri hlut, en ég hygg að það komi á móti að hæstv. menntmrh. hugsi sér að heiðra Ríkisútvarpið á afmælisdaginn, annaðhvort með því að veita Ríkisútvarpinu aukafjárveitingu til þess að ráðast í einhverjar af þessum framkvæmdum eða þá með því að kynna ný útvarpslög sem, eins og hann segir, eigi í framtíðinni einhvern tíma síðar að treysta rekstrargrundvöll Ríkisútvarpsins. En þá er hætt við að fyrir þeim lögum fari eins og kirkjugarðslögunum sem við hæstv. forseti samþykktum um árið og lögunum um auknar tekjur sóknanna, hætt við að þegar á næsta hausti muni ríkisstjórnin, ef hún illu heilli nær að sitja út kjörtímabilið, skjóta því inn í lánsfjárlög að þrátt fyrir nýsamþykkt útvarpslög muni útvarpið ekki njóta laganna sem það fékk afhent á afmælisdaginn. En ég vona sem sagt að hæstv. menntmrh. muni ranka við sér þegar afmælisdagurinn rennur upp og rétta útvarpsstjóra tékkinn til þess að bæta fyrir afglöpin sem hann er að fremja með afgreiðslu þessa máls nú.