Heilbrigðisþjónusta
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Frsm. heilbr.- og trn. (Stefán Guðmundsson):
    Herra forseti. Ég tala hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 104/1988, um breytingu á lögum nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu. Þetta er flutt af heilbr.- og trn. þessarar hæstv. deildar.
    Þar segir svo:
    ,,1. gr. laga nr. 104/1988 orðist svo:
    Í Reykjavíkurlæknishéraði skal frestur þessi standa til loka júnímánaðar 1990.
    2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Í athugasemdum við lagafrv. þetta segir:
    ,,Allt frá gildistöku fyrstu laga um heilbrigðisþjónustu, sbr. lög nr. 56/1973 sem tóku gildi 1. jan. 1974, hefur verið slegið á frest að taka upp kerfi heilsugæslu í Reykjavík. Síðast var þessi frestur ákveðinn í lögum nr. 104/1988 og stendur hann út yfirstandandi ár.
    Í tengslum við verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sem öðlast gildi um næstu áramót, hefur verið lagt fram frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu, þar sem lagt er til að öll heilbrigðisþjónusta sem rekin hefur verið á vegum sveitarfélaga færist yfir til ríkisins, sem ber frá og með 1. jan. nk. að standa undir öllum kostnaði við slíkan rekstur. Þegar hefur verið tekin ákvörðun um þessa yfirfærslu þegar í hlut eiga svokallaðar sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðvar í samræmi við lög nr. 87/1989, um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Eftir stendur að
færa heilsugæsluna í Reykjavík og heilsugæslu sem rekin er í tengslum við sjúkrahús yfir, auk starfsemi þeirra sjúkrahúsa sem rekin eru nú á vegum sveitarfélaganna.
    Ákveðið hefur verið að fresta afgreiðslu málsins fram yfir áramót. Því er nauðsynlegt að framlengja enn um sinn frest til að koma upp kerfi heilsugæslu í Reykjavíkurlæknishéraði fram á mitt ár, en það er eina læknishéraðið sem ekki hefur enn tekið upp kerfi heilsugæslu í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu.``