Eftirlaun til aldraðra
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að flytja hér langa ræðu en ég vildi óska eftir því að hér yrði viðstaddur hv. 4. þm. Reykn. Ég ætla að leiðrétta, virðulegi forseti, ummæli sem hann viðhafði hér rétt áðan. Þar sem hér er allt skráð er rétt að það komi fram. Ég geri varla ráð fyrir því að hann muni mótmæla því sem ég mun segja hér núna en vegna þeirra orðaskipta sem fóru hér fram á milli hv. þm. og mín rétt áðan vil ég endurtaka það sem kom fram í ræðu minni hér við 1. umr. að vegna þessa máls talaði forseti ASÍ, Ásmundur Stefánsson, við mig. Það var ekkert trúnaðarmál með þeim hætti að það mætti ekki skýra frá því sem fór fram á milli okkar.
    Hann skýrði mér sérstaklega frá því, einmitt vegna þessa máls, að í samningum sl. vor hefði verið gert ráð fyrir því, eins og orðalag bréfs hæstv. forsrh. til Alþýðusambandsins ber með sér, að þær greiðslur sem hér um ræðir,
þ.e. viðbótargreiðslur til þeirra sem taka eftirlaun hjá þeim lífeyrissjóðum sem eru á samningssviði ASÍ og VSÍ, verði verðbættar áfram. Og hefði verið gert ráð fyrir því að þær greiðslur kæmu úr almannatryggingakerfinu. Það sagði hann að hefði verið skilningur þeirra sem stóðu að þessum samningum, enda orðalag bréfs hæstv. forsrh. um þetta atriði með þeim hætti.
    Ég vek einnig athygli á því að í grg. með þessu frv. þar sem umsjónarnefnd eftirlauna lætur í ljósi álit sitt um það hvernig þetta eigi að vera, en umsjónarnefndin hefur annast þessar millifærslur, kemur fram að umsjónarnefnd mælir í umsögn sinni með því að greiðslurnar verði ekki látnar koma lengur frá lífeyrissjóðunum.
    Þetta vildi ég aðeins, virðulegi forseti, láta koma hér fram þannig að það væri staðfest og skráð sem ég hef hér sagt um efni þessa máls. Það er satt og rétt eins og ég hef skýrt frá.