Kjarasamningar opinberra starfsmanna
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Þetta frv. sem hér er lagt fram er miklu stærra mál en í fljótu bragði virðist vera. Það er því ekki gott þegar svona frv. er lagt fram svo seint, í hájólaönnum og á að ræða það með þeim hætti sem hér hefur farið fram.
    Hér er verið að breyta lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna í þá veru að þeir starfsmenn sem áður hafa verið í starfsmannafélögum bæjarfélaga geta nú verið þar áfram að undangenginni tilkynningarskyldu, þó með þeim hætti að bæjarstarfsmannafélögin hafi samningsumboð fyrir þá þó aðeins að þeir tilkynni það í tíma.
    Hér er verið að breyta grundvallargerð um starfsmenn ríkisins. Hér er verið að mismuna starfsmönnum ríkisins allverulega. Ef þetta frv. verður samþykkt þá má gera ráð fyrir því að menn vinni hlið við hlið sömu störf á mismunandi launum. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef munu margir af þeim starfsmönnum sem eru að fara frá bæjarfélögum yfir til ríkisins vera á um 20% hærri launum en ríkisstarfsmenn í sams konar störfum. Ég tel að það sé ekki rétt að fara svona að.
    Það kemur í ljós við þessi lög eins og nokkur önnur lög að með breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga á Alþingi, sem hér var lamin í gegn með miklum látum og mátti ekki breyta einu eða neinu, þá hefði þetta verið eitt af þeim málum sem hefði þurft að taka hér til rækilegrar skoðunar áður en þau lög voru samþykkt. Þessi lög þýða það jafnframt að það verður enn þá erfiðara fyrir ríkið að semja við sína starfsmenn. Ég þykist einnig sjá það að þegar hæstv. fjmrh. gengur til næstu samninga þá verði hann að semja fyrst við fjölmörg félög bæjarstarfsmanna, síðan við ASÍ, svo við BSRB og í þriðja lagi við BHM. Þetta er náttúrlega alveg ótækt fyrirkomulag miðað við það fyrirkomulag sem við höfum búið við og vekur þá spurningu hvort starfsmenn
ríkisins eigi bara ekki rétt á því að stofna sín eigin félög utan BSRB, þó aðrir starfsemnn í sömu grein séu aðilar að BSRB.
    Ég held að þessi lög segi það í rauninni að ef einhver hópur innan einhverrar ákveðinnar stofnunar telur hag sínum betur borgið með því að stofna nýtt félag þá eigi hann rétt á því. Ég vil ekki láta þessi lög fara hér fram hjá okkur án þess að koma þessu að.
    Ég get tekið undir það sem hv. 18. þm. Reykv. segir í nál., að það sé ámælisvert að efni frv. skuli ekki hafa verið rækilega kynnt fyrir samtökum launafólks. Ég held að þessi mál séu miklu stærri og flóknari en menn vilja vera láta og hefði talið að þau hefðu þurft miklu rækilegri umfjöllun hér og betri en þetta frv. hefur fengið því það hefur farið í gegnum nefndir á ótrúlega skömmum tíma. Ég undrast það einnig að forustumenn verkalýðshreyfingarinnar hér á þingi, sem eru allnokkrir bæði í efri deild og neðri, hafa nánast ekkert fjallað um þetta.