Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 393, en það er nál. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. Í þeim minni hl. eru sá sem hér stendur og hv. 1. þm. Vestf. Matthías Bjarnason.
    Að gefnu tilefni um það að við sjálfstæðismenn hefðum ætlað að hindra afgreiðslu þessa máls fyrir jól vil ég taka fram eftirfarandi.
    1. Frv. þetta kom mjög seint fram þar sem hæstv. ríkisstjórn átti í erfiðleikum að ákveða hvaða efnisatriði ættu að koma fram í frv.
    2. Málið var tekið fyrir í hv. fjh.- og viðskn. áður en 1. umr. fór fram. 36 gestir komu þá á fund nefndarinnar auk þeirra sex starfsmanna ríkisins er sátu fundi hennar. Ég held að það sé einsdæmi og jaðri reyndar við að vera óþinglegt að nefnd fari ofan í mál með þessum hætti áður en málið hefur verið sent viðkomandi þingnefnd.
    3. 1. umr. málsins var mjög stutt og talaði aðeins einn þm. frá hverjum stjórnarandstöðuflokki.
    4. Látið var átölulaust að mestu að hæstv. ráðherra var ekki við nema hluta af 1. umr. málsins þar sem hann var á sama tíma að mæla fyrir öðru máli í hv. Ed.
    5. Nefndin lauk störfum innan við sólarhring eftir að málið fór til hennar.
    6. Málinu var lokið í nefndinni áður en allar upplýsingar lágu fyrir um mikilvæg atriði og enn á hæstv. ríkisstjórn eftir að taka ákvarðanir sem snerta veigamikil atriði í frv.
    7. Nefndarfundir voru a.m.k. tvívegis haldnir á meðan fundir stóðu yfir í Sþ.
    Það er því ljóst, virðulegi forseti, að 1. minni hl. hefur ásamt með öðrum nefnarmönnum í hv. fjh.- og viðskn. greitt fyrir því að þetta mál fái óvenjuhraða afgreiðslu í hv. deild til að hægt sé að afgreiða það nú fyrir jól.
    Það frv. sem hér er til umræðu er frv. til breytinga á lögum sem samþykkt voru á sínum tíma um virðisaukaskatt, en upptaka slíks skatts er stór liður í að aðlaga íslenskt skattkerfi að því skattkerfi sem ríkjandi er í okkar helstu nágranna- og viðskiptalöndum, svo sem öllum Vestur-Evrópuríkjum. Verði frv. sem hér er til umræðu að lögum er ljóst að Ísland verður í hópi þeirra þjóða sem hafa hvað hæstan virðisaukaskatt. Aðeins tvær þjóðir hafa hærra skatthlutfall og báðar þjóðirnar eru með virðisaukaskatt í nokkrum þrepum. Það eru annars vegar Svíar og hins vegar Írar. Það er jafnframt ljóst að með því að hækka skatthlutfallið úr 22% í 24,5% er um verulega skattahækkun að ræða og séu tekjur ríkissjóðs bornar saman annars vegar að óbreyttu söluskattskerfi og hins vegar með þeirri breytingu sem hér er lögð til er giskað á að kerfisbreytingin færi ríkissjóði a.m.k. 1 1 / 2 milljarð í auknar tekjur og bætast þær við þann tekjuauka sem fæst vegna breytinga sem nú er áætlað að
verði um áramótin í tekjuskattskerfinu. Þannig geta

þessar tvær breytingar orsakað þriggja milljarða tekjuauka í ríkissjóð, en þess ber að geta að til frádráttar verður að telja að aðrir skattar lækka, t.d. eignarskatturinn, ef áform ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga.
    Það er mikilvægt, virðulegur forseti, að það komi fram hér við 2. umr. að það virðist ekki skipta máli þótt hæstv. ríkisstjórn auki þannig skattheimtuna. Útgjöld ríkissjóðs vaxa jafnharðan og nú er svo komið að ríkisútgjöld, mæld sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, hafa aldrei verið hærri hér á landi, nálgast það að vera 29% sem er Íslandsmet. Það lýsir þessu best að á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir 5 milljarða halla á ríkissjóði og á næsta ári má gera ráð fyrir samsvarandi halla og sumir þeir svartsýnu spá enn þá meiri halla á næsta ári þrátt fyrir aukna skattheimtu hæstv. ríkisstjórnar.
    Í yfirlýsingu sem hæstv. ríkisstjórn gaf við lok kjarasamninga á sl. vori, nánar tiltekið hinn 30. apríl 1989, lofaði ríkisstjórnin með skriflegum hætti og undirrituðum af hæstv. forsrh. að jöfnunargjald yrði fellt niður þegar virðisaukaskattur kæmi til framkvæmda. Nú er ljóst að hæstv. ríkisstjórn ætlar að gera orð hæstv. forsrh. ómerk með því að halda áfram að leggja á jöfnunargjald. Þess skal getið að jöfnunargjaldið var sett á á sínum tíma til þess að hægt væri að endurgreiða fyrirtækjum sem stunda útflutning uppsafnaðan söluskatt. Nú er því hlutverki jöfnunargjaldsins lokið og jöfnunargjaldið þess vegna orðinn hreinn verndartollur.
    Í fjárlagafrv. fyrir árið 1990 er gert ráð fyrir að jöfnunargjaldið skili í ríkissjóð 500 millj. kr. Jöfnunargjaldið hefur verið frá sl. vori 5% og ef það hlutfall er reiknað til heils árs hefði jöfnunargjaldið gefið ríkissjóði 1 milljarð. Það er því ljóst að breytingar hljóta að verða á álagningu jöfnunargjalds. Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir í nefndinni hafa ekki fengist svör við því hvort hæstv. fjmrh. ætlar að hætta við álagningu gjaldsins á miðju ári eða hvort hlutfallið fer stiglækkandi, og er þetta eitt þeirra atriða sem hv. Alþingi hlýtur að ganga eftir svörum við.
    Það var upplýst í hv. nefnd að ætlun hæstv. ríkisstjórnar væri að greiða útflutningsgreinunum 390 millj. kr. upp í uppsafnaðan söluskatt vegna
framleiðslu á árinu 1989. Ekki fengust upplýsingar um það hvort þessi upphæð dygði né heldur hvernig hún skiptist á einstakar útflutningsgreinar. Þó kom fram hjá einum hv. nefndarmanni að líklega þyrfti um 200 millj. kr. eingöngu til fiskeldis. Sjá þá allir að lítið verður til skiptanna fyrir sjávarútveginn að öðru leyti og iðnaðinn, en þess ber að geta að það er lagaskylda að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt í iðnaði.
    Þegar hæstv. utanrrh. var fjmrh. í tíð síðustu ríkisstjórnar var lagafrv. um virðisaukaskatt breytt og tekin inn í 34. gr. frv. heimild til þess að veita greiðslufrest á virðisaukaskatti við innflutning. Það var skilningur allra þeirra sem að því máli stóðu að hæstv. ríkisstjórn mundi beita þessari heimild. Nú hefur hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn, kannski vegna fjarveru hæstv. utanrrh., gert hæstv. utanrrh.

ómerkan sinna orða og svikið þá samninga sem ég tel að gerðir hafi verið á sínum tíma, einkum og sér í lagi annars vegar við iðnaðinn og hins vegar við verslunina. Á móti kemur að hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir að hann ætli að veita sérstakan greiðslufrest á hráefni og rekstrarvörum iðnaðarins og verður sá greiðslufrestur veittur eftir geðþótta fjmrh. Það er nauðsynlegt, virðulegur forseti, að það komi skýrt fram að fulltrúar iðnaðarins sem heimsóttu nefndina voru á þeirri skoðun að nota ætti heimildina í 34. gr. til almenns greiðslufrests. Verði sú niðurstaðan, sem ég vona að verði ekki, að leið hæstv. fjmrh. verði valin þýðir þetta það að áliti allra þeirra sem reiknað hafa út áhrif slíkrar ákvörðunar að almennt verðlag á vörum sem fluttar eru inn mun hækka a.m.k. um 1%, aðrir segja 2% og jafnvel hærri tölur eru nefndar, en varlega áætlað má telja að hækkunin verði a.m.k. 1--2%.
    Það ber einnig að leggja áherslu á það að sú fjárbinding sem verslunin verður fyrir af þessum sökum hlýtur að bitna fyrst og fremst á landsbyggðarversluninni sem nú á undir högg að sækja, enda er veltuhraði landsbyggðarverslunarinnar talsvert minni en hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég deili þess vegna og við í minni hl. áhyggjum okkar með því sem fram kom í nál. meiri hl. nefndarinnar og teljum fyllstu ástæðu til þess að skora á hv. meiri hl. nefndarinnar að beita sér fyrir því á milli 2. og 3. umr. að ná fram skýrari yfirlýsingu hæstv. fjmrh. þess efnis að staðið verði við þann samning sem við teljum að gerður hafi verið á milli atvinnurekenda og hæstv. utanrrh. þegar hann á sínum tíma gegndi störfum fjmrh. Mér er kunnugt um áhuga sumra hv. meirihlutamanna á þessu máli og ég hvet þá til þess að kanna þetta mál ofan í kjölinn.
    Hæstv. ráðherra hefur notað þau rök í þessu máli að í raun skipti þetta verslunina litlu máli því að hún hagnist á upptöku virðisaukaskattsins og þess vegna þurfi ekki greiðslufresturinn til að koma. Þetta er auðvitað út í hött því að ljóst er að verslunin hagnast jafnmikið og ríkissjóður tapar í þeim skilningi að greiðsluflæðið verður hægara til að byrja með og hlýtur það að þýða að minni tekjur koma inn í ríkissjóð fyrstu mánuðina en síðan mun það að sjálfsögðu jafna sig þegar kemur fram á árið 1991.
    Þá vil ég geta þess, virðulegur forseti, að ef frv. breytist ekki og þar með lögin um virðisaukaskatt má gera ráð fyrir að sveitarfélögin þurfi að greiða sem nemur 900 millj. kr. vegna skattkerfisbreytingarinnar. Þessi áætlaða tala er fundin þannig út að reynt er að áætla greiðslur sveitarfélaganna vegna virðisaukaskattsins og síðan er dregin frá sú tala sem sveitarfélögin hefðu hvort sem er orðið að borga í söluskatt. Hér er um verulegar upphæðir að ræða og ég fagna því að hæstv. fjmrh. hefur sýnt skilning á þessu máli og lýst því yfir, eins og kemur fram í nál. meiri hl. og framkallaðist þegar ég spurði hann við 1. umr. málsins, að slíkt sé óverjandi. Hins vegar hefur hæstv. ráðherra ekki fengist til þess að leita lausna á þessu máli með því að flytja brtt. sem nægði fyrir

sveitarfélögin í landinu. Nefndarmenn fengu upplýsingar um það að í Danmörku þar sem virðisaukaskatturinn er undanþágulaus, en Danmörk er eitt fárra landa í Vestur-Evrópu þar sem virðisaukaskatturinn er undanþágulaus, njóti sveitarfélögin fríðinda á þessu sviði og virðisaukaskatturinn sé endurgreiddur með ákveðnu kerfi. Er það í þeim anda sem vitað er að gerist víðast hvar að sveitarfélög sem eru skylduð samkvæmt lögum til þess að halda úti ákveðinni þjónustu og að framkvæma vissa hluti eiga auðvitað ekki að verða tekjulind eða féþúfa ríkissjóðs.
    Ég vil þess vegna nú þegar ljóst er að þetta mál á eftir að fara til 3. umr. og jafnframt til Ed. skora á hv. meiri hl. nefndarinnar að kanna það hvort ekki sé nú þegar hægt að finna lausn á þessu máli sem báðir aðilar geta sætt sig við, en af því er slæm reynsla í öðrum löndum að slíkt sé dregið og vitna ég þá enn til Danmerkur í því sambandi en lögunum þar var breytt árið 1985 til þess að koma í veg fyrir sífellda árekstra á milli annars vegar ríkisvaldsins og hins vegar sveitarfélaganna.
    Það er ljóst, virðulegur forseti, að verði þetta frv. samþykkt með þeim endurgreiðslureglum að greiða eigi til baka á heildsölustigi ákveðnar matvörur muni vissar matvörur hækka meira en sýnist samkvæmt frv. Það er viðurkennt af fjmrn. að um það bil 1000 millj. þurfi að ganga til endurgreiðslna á hluta af
virðisaukaskattinum vegna matvörunnar sem á að njóta þessa afsláttar. Jafnframt er viðurkennt að það vanti 500 millj. kr. á niðurgreiðslufé ríkisins til þess að verðlag á dilkakjöti og mjólkurafurðum breytist ekki umfram annað verðlag í landinu. Öll vitum við að verðlagsforsendur fjárlagafrv. eru reistar á veikum grunni. Gert er ráð fyrir því að nánast engar kauphækkanir eigi sér stað á næsta ári og verðlag breytist þannig að frá meðaltali þessa árs til meðaltals næsta árs verði breytingin 16,5% samkvæmt splunkunýjum tölum frá Þjóðhagsstofnun. Vissulega er hægt að draga í efa þessa spá Þjóðhagsstofnunar. Samkvæmt reynslu hafa spár Þjóðhagsstofnunar ekki reynst sannar í raun, enda eru þær spádómur. Gangi það eftir að spár Þjóðhagsstofnunar verði jafnraunhæfar og á umliðnum árum dregur enn í sundur og þá er hægt að halda því fram að í raun lækki dilkakjötsverð og mjólkurafurðaverð ekki vegna þess að það skortir fé úr ríkissjóði til þess að standa við þær niðurgreiðslur sem hafa verið við lýði á þessu ári. Upphæðin í fjárlögum miðast við það að greiða aðeins út sömu peningaupphæð og þess vegna má segja að áhrif endurgreiðslunnar á hluta virðisaukaskattsins til lækkunar á verði dilkakjöts og mjólkur muni verða hverfandi þegar líða tekur á næsta ár.
    Virðulegi forseti. 1. minni hl. nefndarinnar styður að sjálfsögðu brtt. sem koma frá nefndinni og stendur að þeim brtt. en 1. minni hl. leyfir sér að flytja nokkrar brtt. á þskj. 394 og mun ég nú í örstuttu máli gera grein fyrir þeim helstu.
    1. brtt. er ætlað að koma til móts við sjónarmið

sveitarfélaganna en hún er orðrétt sú hugmynd sem Samband ísl. sveitarfélaga lagði nefndinni til.
    2. brtt. fjallar um það að hafa virðisaukaskattinn í tveimur þrepum eins og Sjálfstfl. hefur lagt til.
    3. brtt. fjallar um það að undanþiggja eldsneyti í innanlandsförum og veiðarfæri og brennsluolíu fyrir fiskiskip. Það fyrrnefnda mun hækka kostnað fyrir flugfélögin á innanlandsmarkaði og þar með fyrir farþega, en síðari liðurinn getur valdið vandræðum fyrir útgerðina.
    Í 4. brtt. leggjum við til að lögfræðiþjónusta verði undanþegin, ekki síst í ljósi þeirra upplýsinga sem komu fram í nefndinni, að virðisaukaskattur á lögfræðiþjónustu lenti eingöngu á þeim sem verst væru settir því að fyrirtæki, stofnanir og félög gætu varpað af sér virðisaukaskattinum vegna þess að hann er nettóskattur.
    Í 5. brtt. er lagt til að byggingarkostnaður gistihúsa verði undanþeginn skattinum, enda er um útflutningsstarfsemi að ræða.
    Í 6. brtt. er fjallað um tveggja þrepa skattinn og enn fremur í þeirri sjöundu, en báðar þessar tillögur eru afleiðing af því að Sjálfstfl. leggur til að virðisaukaskatturinn sé í tveimur þrepum. Sömu sögu er að segja um 8. og 9. tillöguna, en í 10. tillögu gerum við ráð fyrir að aðeins verði heimilt að skuldajafna við útgreiðslu skattsins til þeirra fyrirtækja sem skulda önnur opinber gjöld. Slíkt geti aðeins gerst við reglulegt uppgjör og aðeins þegar viðkomandi fyrirtæki eigi ekki á sama tíma kröfur á ríkissjóð fyrir seldar vörur og þjónustu. Fulltrúar Kvennalistans flytja tillögu sama efnis og munum við styðja hana til vara því að það er einn efnislegur munur á þeim tveim tillögum þar sem við gerum ráð fyrir því að setja inn orðalagið ,,við reglulegt uppgjör``.
    Í 11. brtt. leggjum við til að 11. gr. frv. falli brott en í henni eru tvöfölduð þau viðurlög sem voru og eru í gildandi lögum. Við teljum varasamt, nú þegar kerfisbreytingin á sér stað og mjög margir nýir gjaldendur koma til skjalanna, að auka refsiviðurlögin með þessum hætti og teljum að það þurfi að fara varlega af stað þó að við höfum að sjálfsögðu fullan skilning á því að eftir því verður að ganga að fyrirtækin standi skil á virðisaukaskattinum.
    12. brtt. er fyrst og fremst tillaga sem snýr að ríkisskattstjóra og kærum og enn fremur sú 13. sem gerir ráð fyrir að málsmeðferð geti verið flýtt og mál eigi greiðari aðgang í gegnum kerfið en nú er.
    14. brtt. er ákaflega mikilvæg því að í henni er fjallað um greiðslufrest í tolli og þar herðum við á því heimildarákvæði sem nú er í lögunum.
    15. brtt. fjallar um tveggja þrepa skattinn, í fyrsta lagi. Í öðru lagi gerum við ráð fyrir að hönnunarkostnaður vegna byggingarframkvæmda verði endurgreiðanlegur og í þriðja lagi gerum við ráð fyrir því í brtt. okkar að endurgreiðsla vegna virðisaukaskatts af endurbótum íbúðarhúsnæðis nái enn fremur til meiri háttar viðhalds og að viðmiðunartalan verði 4% af fasteignamati en ekki 7% eins og segir í frumvarpsgreininni.

    Í 16. brtt. leggjum við til að gildistöku virðisaukaskatts verði frestað til 1. júlí 1990 og í 17. brtt. leggjum við til að virðisaukaskattur af bókum samkvæmt skilgreiningu frv. falli niður 1. sept. en ekki 16. nóv. eins og frumvarpsgreinin gerir ráð fyrir. Til vara munum við styðja tillögu Kvennalistans sem leggur til að 16. sept. komi í staðinn fyrir 16. nóv.
    Það væri vissulega ástæða til að fara mörgum fleiri orðum um frv. og þessa kerfisbreytingu og fyrirliggjandi brtt. Ég kemst ekki hjá því, virðulegur forseti, að minna á að á þskj. 385 eru brtt. frá Inga Birni Albertssyni og
Hreggviði Jónssyni, hv. þm. Frjálslynda hægriflokksins. Ýmsar þær brtt. eru með svipuðum hætti og brtt. 1. minni hl. Aðrar eru annars efnis og án þess að lýsa þeim sérstaklega, enda er það annarra að gera það, get ég sagt að a.m.k. frá mínum sjónarhóli er eðlilegt að 1. minni hl. styðji einstakar greinar af þeim sem er að finna á því þingskjali.
    Virðulegur forseti. Ég hef þá lokið að gera grein fyrir nál. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. um frv. til laga um virðisaukaskatt með áorðnum breytingum.