Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Þórður Skúlason:
    Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í nál. meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar var fjöldi fólks og sérfræðinga kallaður til viðtals við nefndina sem fjallaði um það mál sem hér er til umræðu, virðisaukaskattinn, og það er athyglisvert að enginn viðmælenda lagðist gegn skattkerfisbreytingunni þó að ýmsir hafi hins vegar gert athugasemdir og lýst áhyggjum vegna framkvæmdarinnar og ýmissa atriða er hana varða.
    Í aðalatriðum er þetta mál gott og það leiðir til úrbóta frá því kerfi sem við búum við í dag að því er söluskattinn varðar. Ávinningurinn er stærstur fyrir atvinnureksturinn og mestur fyrir framleiðslugreinarnar þar sem uppsöfnunaráhrif af söluskattinum hafa vegið þyngst. Eftir upptöku skattsins er enginn vafi á að framleiðslugreinarnar standa betur að vígi, sérstaklega þó útflutningsgreinarnar.
    Þótt endurgreiðslukerfi vegna uppsafnaðs söluskatts hafi verið við lýði hefur það verið stirt og óskilvirkt og fjármunir til endurgreiðslna hafa á vissum tímum verið takmarkaðir. Virðisaukaskatturinn leysir það kerfi af hólmi og leiðir til jákvæðra og hagstæðra áhrifa í útflutnings- og samkeppnisgreinum, á því er enginn vafi. Hér er því ekki eingöngu um kerfisbreytingu að ræða og málið er ekki lagt fram eingöngu til þess að skipta um kerfi, heldur er það auðvitað lagt fram í því skyni að ná fram jákvæðum áhrifum og þá sérstaklega hvað þessi atriði varðar, útflutningsgreinarnar og samkeppnisgreinarnar.
    Í nefndinni er uppi ágreiningur um áhrif þess ákvæðis virðisaukaskattsins er lýtur að greiðslu hans við tollútskrift. Þetta atriði hefur verið ítarlega rætt í nefndinni. Meiri hl. nefndarinnar, og þeim er hér stendur, er fyllilega ljós nauðsyn þess að spornað sé við verðhækkunum og hækkun vaxta við upptöku virðisaukaskattsins. Gjaldfrestur á skatti af aðföngum til iðnaðarframleiðslu er af hinu góða, en það er full ástæða til að hvetja fjmrn. og fjmrh. til að
kanna kosti þess að veita frekari gjaldfrest í tolli til að sporna við verðhækkunum. Einnig er ástæða til að vara við því að skattkerfisbreytingin verði notuð sem skálkaskjól til verðhækkana og í því sambandi verður að gera sérstakar ráðstafanir til að herða og efla verðlagseftirlit. Það er óhæft að verslunin, og þá sérstaklega heildverslunin, sem mjög hefur gagnrýnt álagningu skattsins í tolli, noti kerfisbreytinguna til að hrifsa til sín stærri hlut og kenna síðan skattkerfisbreytingunni um. Vandlega þarf að gæta að því að nýjar verðhækkanir dembist ekki yfir á grundvelli þess og á grundvelli þess verði skattkerfið gert óvinsælt og tortryggilegt. Þessi skattkerfisbreyting ætti raunverulega frekar að geta leitt til lækkaðs vöruverðs en til þess að það mundi hækka.
    Margir þeir er til nefndarinnar komu lýstu áhyggjum vegna ónógs undirbúnings málsins og að í ýmsum atriðum væri framkvæmdin óglögg. Og víst má taka undir þetta atriði, að flestu leyti, að æskilegra hefði verið að undirbúningurinn hefði verið

markvissari og fyrr á ferðinni. Ég held hins vegar að það sé algjörlega óraunhæft að fresta málinu og engin raunveruleg ástæða til þess.
    Í frv. felast verulegar breytingar á þeim lögum sem samþykkt voru á árinu 1988. Efnismesta breytingin og jafnframt sú ánægjulegasta felst í XIII. kaflanum um endurgreiðslu virðisaukaskattsins af dilkakjöti, mjólk, fiski og grænmeti. Að teknu tilliti til endurgreiðslu virðisaukaskattsins af þessum mikilvægu neysluvörum lækkar ígildi skattsins á þeim úr 24,5% í 14%. Endurgreiðsla skattsins er áfangi að því marki að lækka matarskattinn illræmda sem lögleiddur var af ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar.
    Ég legg áherslu á að hér er einungis um áfanga að ræða í því máli og áfram verður að vinna að því að koma á tveimur þrepum í virðisaukaskattinum og fella fleiri algengustu matvörur heimilanna inn í lægra þrepið. Það er skynsamlegt markmið sem verður að vinna að til að ná fram lækkun á verði matvæla í landinu. Verð á brýnustu matvælum hér á landi er allt of hátt, bæði miðað við kaupgetu almennings og verð í nálægum löndum. Stjórnvöld verða að leita leiða til lækkunar matarverðs. Í frv. er markaður fyrsti áfangi þeirrar leiðar með umræddri endurgreiðslu.
    Hvað skatthlutfallið varðar er það vitaskuld mjög hátt miðað við það sem gerist í nálægum löndum og auðvelt að gagnrýna það út frá því sjónarmiði. Ábyrgir stjórnmálamenn verða þó að líta á það atriði málsins í samhengi við aðra tekjuöflun ríkissjóðs og stöðu hans um þessar mundir. Það er óábyrg afstaða að gagnrýna skatthlutfallið án þess að gera ákveðnar tillögur um að aðrar tekjur verði hækkaðar á móti og krefjast þess jafnframt, eins og í sumum tilfellum virðist vera gert, að ríkissjóður leggi út aukin framlög til hinna ýmsu málaflokka á sama tíma.
    Varðandi aðrar breytingar sem frv. felur í sér frá gildandi lögum má benda á verulegar undanþágur. Ber þar helst að nefna ýmsa lista-, mennta- og menningarstarfsemi sem nú hefur verið ákveðið að undanþiggja virðisaukaskattinum.
    Þá vil ég víkja nokkrum orðum að sveitarfélögunum sérstaklega og upptöku virðisaukaskattsins hvað þau varðar. Ég gat þess að ég hefði ritað undir þetta nál. með fyrirvara og sá fyrirvari lýtur fyrst og fremst að þessu atriði frv., þ.e. álagningu virðisaukaskatts á starfsemi sveitarfélaga. Í gildandi lögum um virðisaukaskatt frá árinu 1988, sem sett voru í stjórnartíð Þorsteins Pálssonar, er gert ráð fyrir að sveitarfélögin greiði virðisaukaskatt af allri starfsemi sinni. Þar er ekki að finna nein undanþáguákvæði eða endurgreiðsluákvæði að því er sveitarfélögin varðar. Á grundvelli laganna hefur þegar verið gefin út reglugerð um greiðslu virðisaukaskatts af skattskyldri starfsemi sveitarfélaga og hún er þar talin upp í allmörgum liðum. Þar er lagt til grundvallar að starfsemi sveitarfélaganna sé skattskyld sé hún rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki eða þegar viðkomandi vara eða þjónusta er almennt í boði hjá atvinnufyrirtækjum. Auðvitað er það misjafnt hvernig þessu er háttað í sveitarfélögum landsins og

það er ekki algengt að sveitarfélög á landsbyggðinni stundi samkeppni í sambandi við atvinnurekstur, og jafnvel kannski ekki framkvæmdir heldur, við atvinnufyrirtæki sem til eru á stöðunum.
    Það er hins vegar nýtt í frv. sem kemur fram í síðustu mgr. 42. gr. að fjmrh. geti ákveðið í reglugerð að endurgreiða sveitarfélögum virðisaukaskatt sem þau hafa greitt vegna kaupa á skattskyldri vöru eða þjónustu frá atvinnufyrirtækjum. Þetta er mikilvæg breyting og gagnleg fyrir sveitarfélögin. Það hefur verið upplýst af ríkisskattstjóra í viðtölum við fjh.- og viðskn. þessarar deildar, og það er mjög mikilvægt að það komi fram hér, að verði undanþágur veittar frá skattgreiðslunni vegna einstakra rekstrar- eða framkvæmdaþátta á grundvelli þessarar greinar þurfi sveitarfélög ekki að reikna eða greiða virðisaukaskatt af eigin starfsemi er lýtur að hinu sama. Það er mjög mikilvægt að þessi túlkun liggi skýrt og afdráttarlaust fyrir.
    Fjmrh. hefur ritað bréf til sveitarfélaga þar sem hann greinir frá því að hann hyggist nota þessa heimild í frv., ef samþykkt verður, til að undanþiggja nokkra verkþætti sveitarfélaganna frá greiðslu á virðisaukaskattinum. Þar er að nefna sorphreinsun, ræstingu og aðkeypta sérfræðiþjónustu. Miðað við skilgreiningu ríkisskattstjóra á ákvæði þeirrar greinar sem ég vitnaði til hér áðan þurfa sveitarfélög ekki að reikna eða greiða skatt af þessari starfsemi þó að þau hafi hana á hendi sjálf. Hins vegar er á það að líta í sambandi við þetta endurgreiðsluákvæði að sveitarfélögin hafa ekki af því góða reynslu. Þetta hefur verið í gildi t.d. í sambandi við snjómokstur, að því er söluskattinn varðar. Þar hafa verið ákvæði um það að sveitarfélögin ættu að fá þann söluskatt sem fellur til vegna vélavinnu við snjómokstur endurgreiddan en þeir fjármunir hafa verið það naumt skammtaðir að undanförnu að endurgreiðslan hefur ekki numið nema um 30% af þeim hluta sem sveitarfélögin hefðu átt að fá endurgreiddan.
    Af því að ég ræði hér um snjómoksturinn er kannski ástæða til að vara við því að þessi skattur, þegar hann verður lagður á, verði gerður að landsbyggðarskatti, en á því væri vissulega nokkur hætta, t.d. hvað þetta atriði varðar vegna þess að það er misjafnt í þessu landi með hvaða hætti úrkoman fellur. Og ég vil greina hérna frá því að á fyrstu fimm mánuðum þessa árs hefur t.d. Siglufjarðarbær eytt í snjómokstur liðlega 8 millj. kr. Ef hefði átt að greiða virðisaukaskatt af þessari upphæð hefði sú upphæð ein, vegna snjómokstursins á Siglufirði, numið 1,6 millj. kr.
    Í samanburði milli sveitarfélaga, hvort sem um er að ræða samanburð á tekjum eða útgjöldum, er þetta gjarnan yfirfært á íbúa, kostnað á íbúa, og ef t.d. snjómokstur hér í Reykjavík væri sama hlutfall og á Siglufirði, miðað við íbúa, hefði kostnaður við snjómokstur hér á þessu sama tímabili numið tæplega 400 millj. kr. og virðisaukaskatturinn sem hefði þurft að greiða af þessum kostnaði við snjómoksturinn hefði verið tæpar 80 millj. kr. Ef það væri í raun þannig,

sem ég vil nú reyndar ekki trúa, að ríkissjóður ætli að innheimta virðisaukaskatt t.d. af snjómokstri, þá er auðvitað mjög bagalegt fyrir ríkissjóð að úrkoma hér í þessum landshluta skuli ekki falla sem snjór heldur einungis sem rigningarvatn.
    Sveitarfélög hafa reynt að áætla þann kostnaðarauka sem þau yrðu fyrir við upptöku virðisaukaskatts og það kemur í ljós í því reikningsdæmi að hér er um að ræða um 800--900 millj. kr. Í þeirri tölu er ekki gert ráð fyrir þeirri undanþágu sem fjmrh. hefur nú boðað í umræddu bréfi til sveitarfélaganna þess efnis að það þurfi ekki að greiða virðisaukaskatt af sorphreinsun, ræstingu eða sérfræðiþjónustu. Það er heldur ekki gert ráð fyrir því í þessum tölum að hitunarkostnaður vegna húsnæðis sveitarfélaga beri virðisaukaskatt, þannig að strax við þá breytingu sem boðuð er að þessu leyti og við meðferð þessa máls hér í þinginu, þar sem hætt er við að leggja virðisaukaskatt á hitunarkostnað og við þá ákvörðun sem fjmrh. hefur tekið, að undanþiggja sorphreinsun, ræstingu og sérfræðiþjónustu, þá lækkar þessi upphæð nokkuð.
    Hins vegar er það alveg ljóst að ef virðisaukaskatturinn leggst á með þeim
hætti sem hér er gert ráð fyrir, þá hefur hann veruleg áhrif á rekstur og framkvæmdir sveitarfélaganna og ef hann verður tekinn upp með þessum hætti er hætt við að verulegur hluti þess fjárhagslega ábata sem sveitarfélögin njóta af verkaskiptingunni gengi til baka.
    Það er auðvitað mjög óeðlilegt ef ríkissjóður fer nú að skattleggja framkvæmdir sveitarfélaga sem sveitarfélögin taka til sín við verkaskiptinguna, eins og byggingar á skólum og dagvistarheimilum. Það er mjög óeðlilegt að á sama tíma og þessi verkefni eru að færast alfarið til sveitarfélaganna verði þau gerð að sérstökum skattstofni fyrir ríkið.
    Í þessu sambandi er rétt að nefna það að í athugun er hjá sérstakri nefnd á vegum félmrn. fjárhagsstaða sveitarfélaganna og það er alveg ljóst að hún er mjög bágborin um þessar mundir þó með misjöfnum hætti sé. Ég tel að það séu engin efni til þess að leggja nú nýjar álögur á sveitarfélögin með þeim hætti sem vissulega væri hægt að gera með þessu frv. eins og það liggur hér fyrir. Hins vegar er ástæða til þess að fagna þeirri yfirlýsingu sem fjmrh. hefur gefið í umræðum um þetta mál og prentuð er í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. þessarar deildar, en þar segir m.a. að það sé ekki ætlun ríkisstjórnarinnar að hafa framkvæmdir sveitarfélaga að sérstakri tekjulind. Það er ástæða til að fagna þessu og ítreka að það verði ekki gert.
    Ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara, fyrst og fremst vegna þess að mér fannst ekki koma nægilega skýrt fram í lagatextanum að sveitarfélögin ættu ekki að þurfa að bera jafnmikinn kostnað af virðisaukaskattinum eins og málum virðist vera háttað og ætlaði svona að sjá til hvort ekki fengist einhver lagfæring á því á milli umræðna um málið. Hins vegar hefur komið fram ný yfirlýsing í málinu þess

efnis að fjmrh. ætli að beita sér fyrir því að skipuð verði nefnd með fulltrúum fjmrn. væntanlega, jafnvel félmrn., og Sambands ísl. sveitarfélaga til þess að fylgjast með framkvæmd álagningar virðisaukaskatts á sveitarfélögin. Og út af fyrir sig tel ég miðað við málsástæður að það sé ásættanleg leið að svo verði gert. Ég lít raunar þannig á að þessi nefnd þurfi að skoða þetta mál mjög gaumgæfilega og m.a. að athuga hvernig skattlagningu virðisaukaskatts á sveitarfélög er háttað í nágrannalöndum, t.d. í Danmörku þar sem sveitarfélögin virðast vera algjörlega undanþegin greiðslu á virðisaukaskatti að því er varðar lögbundin verkefni. Ég tel að þessi nefnd hljóti að skoða það mál mjög gaumgæfilega.
    Með sérstakri vísun til þess að það á að koma þessari nefnd á og þeirra yfirlýsinga sem fjmrh. hefur gefið hér í þessu máli tel ég það vera nokkuð ásættanlegt fyrir sveitarfélögin og að starf nefndarinnar muni leiða til þess að þau verði í reynd undanþegin virðisaukaskatti, þá mundi ég treysta mér til þess að mæla með því að þetta frv. yrði samþykkt hér í þinginu.