Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Ingi Björn Albertsson (frh.) :
    Hæstv. forseti. Þegar ég gerði hlé á ræðu minni var ég að gera grein fyrir þeim brtt. sem Frjálslyndi hægriflokkurinn stendur að við virðisaukaskattsfrv. og birtast á þskj. 385. Ég mun þá halda áfram því verki og gera grein fyrir fimmtu brtt. sem við leggjum til að verði gerð á frv. Sú brtt. orðast svo:
    ,,Við 9. gr. bætist: Orðin ,,fyrir fram`` í 3. málsl. 1. mgr. 20. gr. laganna falli brott.``
    Hér er um að ræða þá kvöð að hafa reikninga í fyrir fram tölusettri röð og koma þar með í veg fyrir að hægt sé að nýta sér tæknina í dag sem tölvubúnaðir bjóða upp á. Ég vil rifja það upp sem ég sagði um þennan þátt í umræðunni hér fyrir nokkru en þá sagði ég að það væri næsta hlálegt að á tímum tölvutækni sé aðilum meinað að notfæra sér þá möguleika sem sú tækni býður upp á.
    Ef ég hef skilið rök fjmrn. rétt, að þetta sé nauðsynlegt vegna þess að hægt sé að svindla í tölvusettri númeraröð og þeir sjái svindlara í hverju horni,
þá bendi ég hæstv. fjmrh. á það --- hann er ekki í þingsalnum, jú, hann er kominn í betra sæti --- að það er örugglega enginn vandi að finna prentsmiðjur sem mundu prenta út eitt og eitt aukanúmer inn í hina svokölluðu samfelldu töluröð ef menn kjósa á annað borð að svindla. Ég nefndi dæmi þessu til staðfestingar sem var á þá leið að við gætum hugsað okkur stærra fyrirtæki sem hefur e.t.v. 20 prentara til að skrifa reikninga og fyrirtækinu ber skylda til að geyma eitt eintak af hverjum reikningi ef skattayfirvöldum dytti nú í hug að koma í heimsókn og skoða bókhaldið. Ef um tölvusetta númeraröð væri að ræða lægju allar upplýsingar fyrir í réttri og samfelldri númeraröð. En þar sem þetta sama fyrirtæki þarf, ef frv. verður óbreytt, nú að vera með fyrir fram tölusetta reikninga og þeir eru dreifðir í ýmsum númerum, í ýmsum númeraflokkum, á hina ýmsu prentara í hinum ýmsu deildum, þá verður að byrja á því að sannreyna fyrst hvaða númer eru óprentuð til að finna út hvort eitthvert númer vantar inn í númeraröðina. Ef einhver númer vantar þarf að fara í allar deildir, jafnvel á milli húsa og bæjarhverfa til að sannreyna að þessi númer liggi nú einhvers staðar óprentuð í einhverri deild. Þetta kallaði ég þá að væri eins og að lemja hausnum við stein og streitast á móti tækninni. Því er þessi brtt. borin upp að fyrirtækjum sé gert það kleift að nýta sér tæknina sem býðst í dag, tölvutæknina, og það geta fyrirtækin með því að fella þessi tvö orð út.
    Sjötta brtt. er við 11. gr. og er svohljóðandi: ,,Við 11. gr. Greinin orðist svo:
    Á eftir 7. mgr. 27. gr. laganna komi ný mgr. er orðist svo:
    Heimilt er hverjum skattskyldum aðila að greiða fyrir fram áætlaðan virðisaukaskatt einu sinni á ári. Fullnaðaruppgjör þess tímabils skal gert upp með uppgjöri næsta tímabils. Sé fyrirframgreiðsla vanáætluð umfram 5% er heimilt að leggja á álag skv. 2. mgr.

27. gr. af vangreiddum skatti.``
    Hér er verið að hugsa um þann fjölda einyrkja sem nú falla undir þetta kerfi. Það verða nú 25 þúsund aðilar sem verða skattskyldir í kerfinu og fjöldinn allur af þeim eru einyrkjar. Viðurkennt orlof í dag eru 5--6 vikur og er því einfalt að stilla dæminu þannig upp að viðkomandi aðili vildi leyfa sér þann munað að fara í frí og það stæði þannig á að hann færi viku fyrir gjalddaga skattsins og kæmi ekki heim fyrr en fimm vikum seinna. Þá á hann þess ekki kost samkvæmt frv. í dag að fá að fyrirframgreiða skattinn. Þar sem aðeins vika lifir eftir af gjaldatímabilinu á að vera nokkuð einfalt að áætla upphæð skattsins og þess vegna er sett þak á þetta --- já, við skulum kalla það þak --- um 5%. Menn ættu að geta komist það nærri því og þetta kemur þá í veg fyrir menn misnoti slíkt ákvæði. Fari menn hins vegar umfram þessi 5% þá er gert ráð fyrir að það megi leggja álag á þá samkvæmt 27. gr. sem er í lögunum í dag, 1% á dag upp í hámark 10%, en samkvæmt þeim hugmyndum að breytingum á lögunum sem nú standa til, þá fer það upp í 2% og hámark 20%, sem er í sjálfu sér hrein svívirða. En þetta er fyrst og fremst ástæðan fyrir þessari brtt. Einnig er gert ráð fyrir því að aðili geti aðeins nýtt sér þessa heimild einu sinni á ári og er það einnig varnagli við því að hún sé misnotuð.
    Sjöunda brtt. sem við leggjum til orðast svo: ,,Við 13. gr., a-lið (ný 42. gr.).
    a. 3. málsl. 2. mgr. orðist svo: Jafnframt skal endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis virðisaukaskatt sem þeir hafa greitt af vinnu manna við viðhald og/eða endurbætur þess, enda sé heildarkostnaður a.m.k. 3% af fasteignamati húseignarinnar í ársbyrjun.``
    Ástæðan fyrir þessari brtt. er augljós, hygg ég. Eins og gert er ráð fyrir núna í hugmyndum ríkisstjórnarinnar þá er þarna um 7% af fasteignamati húseignar að ræða sem er allt of hátt hlutfall og gerir mönnum nánast ókleift að nýta sér þessa heimild eins og reyndar hefur verið bent á af fjölmörgum aðilum í byggingariðnaði og reyndar víðar. Á það hefur verið bent, og undir það tek ég, að þetta mun leiða af sér mikla aukningu í hinni svokölluðu svörtu vinnu.
    Þá er líka ljóður á frv. hvað þetta snertir að þetta er bundið við almanaksár sem þýðir það að aðilar sem þurfa að leggja í mikið viðhald geta strangt tekið ekki farið út í það seinni hluta árs því þeir ná ekki að uppfylla ákvæðin um endurgreiðsluskilyrðin.
    Ég vildi spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann hafi gert á því könnun hversu margir gætu í raun nýtt sér þessa heimild, standi hún óbreytt þessi 7% heimild sem hér er um að ræða. Við höfum grun um að það verði ansi fáir sem ráði við það, sérstaklega með tilliti til þess að þetta skuli vera innan almanaksárs. Því leggjum við til að þetta verði nú sett niður á mannlegra plan og fært niður í 3% af fasteignamati húseignar.
    Við þessa grein höfum við líka b-lið, svohljóðandi:
,,b. Við bætist ný málsgrein svohljóðandi:
    Fjmrh. getur ákveðið með reglugerð að fella niður virðisaukaskatt af tækjum og búnaði til íþróttafélaga, hjálpar- og björgunarsveita.``

    Ég tel að það þurfi tæplega að rökstyðja þessa brtt. mikið. Ég tel sjálfsagt að íþróttafélög fái þessa undanþágu eins og fjölmargir aðrir, að ég minnist nú ekki á allar menningarundanþágurnar. Það má nefna íþróttafélag eins og Íþróttafélag fatlaðra og eins er með hjálpar- og björgunarsveitir. Mér þykir reyndar fáránlegt ef ég þarf að rökstyðja þá brtt. Ég held að allir þingmenn hljóti að gera sér grein fyrir ástæðu þess að hún er sett fram.
    Úr því að ég sé, hæstv. forseti, að hæstv. landbrh. er í salnum, þá var ég nú aðeins að hnýta í hann hér í fyrri umræðunni og kannski ég noti tækifærið og geri það aftur, þar sem hæstv. landbrh. var fjarstaddur þá umræðu og gat ekki svarað fyrir sig. Þar var ég að rifja upp nokkur af þeim ummælum sem hæstv. samg.- og landbrh. viðhafði í umræðunni í fyrra en þá var hæstv. ráðherra óbreyttur þingmaður eins og sá sem hér stendur og hafði mjög sterkar meiningar um virðisaukaskattsfrv. Samkvæmt þeim orðum sem þá féllu virðast þær meiningar nú vera foknar út í veður og vind og þetta frv. og þetta skattkerfi orðið hið besta, sennilega í manna minnum.
    En hann sagði m.a., með leyfi forseta: ,,Það er enginn vafi á því að upptaka söluskatts á matvæli og í framhaldinu upptaka virðisaukaskatts er mesta áfall sem íslenskur landbúnaður hefur fengið á sig um áratuga skeið og eru þá vondar ríkisstjórnir og harðindi og kalár ekki undanskilin.`` Þetta sagði hæstv. núv. landbrh. og bar þá hag landbúnaðarins mjög fyrir brjósti.
    Seinna í sömu umræðu talaði hann um að matarskattur á Íslandi væri mun verri ráðstöfun en hann er víðast hvar annars staðar og sagði þá að af þeirri ástæðu einni og þó ekkert annað hefði komið til greina hefði það aldrei komið til greina af hálfu Alþb. að standa að slíkri skattheimtu og sagði að þetta væru mikil mistök og í raun og veru forkastanleg vinnubrögð. Lagði hann þá fram brtt. þess eðlis að sala á matvöru yrði undanþegin virðisaukaskatti. Nú hlýt ég að spyrja: Hvað skyldi nú hafa breytt skoðun hæstv. landbrh. frá því fyrir aðeins einu ári síðan þegar hann sá fjandann í hverju horni í virðisaukaskattskerfinu? Ég vitnaði reyndar í ýmislegt annað sem hæstv. landbrh. sagði þá en hirði ekki að endurtaka það hér en teldi alveg nauðsynlegt að fá að heyra hvað hefur breyst svona mikið í þjóðfélaginu að hann getur nú allt í einu staðið að slíkri skattlagningu sem var algjörlega óhugsandi fyrir Alþb. fyrir ári síðan.
    Ég óskaði eftir skýringu á því sem kemur fram í nál. meiri hl. í Ed. og vænti þess að hæstv. fjmrh. geti útskýrt það en þar kemur fram að boðað sé hert verðlagseftirlit. Það sem ég vildi vita var það hvort hér væri verið að stíga skref til að koma í veg fyrir hina frjálsu verðmyndun, hvort hér væri verið að boða í nánustu framtíð verðlagshöft að nýju eins og voru hér fyrir ekki allmörgum árum síðan.
    Ég innti hæstv. ráðherra einnig eftir því hverju það næmi í krónum og aurum að færa undanþágu á bækur til áramóta þannig að sú undanþága tæki gildi á sama

tíma og undanþága fyrir blöð og tímarit í staðinn fyrir 16. nóv. eins og gert er ráð fyrir. Ég innti líka eftir því hver væri í raun ástæðan, ef hún er önnur en tekjur fyrir ríkissjóð, fyrir því að hann leggur slíkan skatt á og þá bara tímabundið.
    Í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. Nd. er fjallað um hina svokölluðu tollkrít. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Nefndarmenn fjölluðu ítarlega um gjaldfrest í tolli og er meiri hl. nefndarinnar ljóst mikilvægi þess að sporna við hækkun verðlags og vaxta. ... Meiri hl. telur mikilvægt að fjmrn. kanni kosti þess að veita víðtækari gjaldfrest af innflutningi í því skyni að koma í veg fyrir verðlagshækkanir.``
    Í framhaldi af þessu veit ég að það er mikill áhugi innan stjórnarliðsins að taka á þessum þætti og veita gjaldfrest við innflutning á vörum. Hins vegar hefur nefndin ekki haft kjark í sér til að leggja fram þá breytingu við frv. Það hefur hins vegar 1. minni hl. fjh.- og viðskn. gert, þeir hv. þm. Friðrik Sophusson og Matthías Bjarnason, og ég lýsi að sjálfsögðu stuðningi við þá tillögu þó að ég sé ekki fyllilega sáttur við hana eins og hún kemur fyrir þar sem sagt er að innheimta skv. 1. mgr. skuli framkvæmd með þeim hætti að
innflytjandi eigi kost á greiðslufresti til loka næsta mánaðar eftir innflutningsmánuð. Þetta tel ég of skammt. Ég tel að innflytjandi eigi að hafa tvo mánuði alveg eins og greiðslutímabil annarra er þó að það geti náttúrlega ekki fallið á sömu daga og hinir föstu gjalddagar virðisaukaskattsins eru.
    Ég sýndi hins vegar fram á það í ræðu minni hér um daginn hvað það skiptir miklu máli fyrir innflutningsverslunina að fá þennan greiðslufrest. Ég sýndi einnig fram á það að þetta mundi valda verulegri hækkun á verðlagi og innti hæstv. ráðherra eftir því, og ég inni hann eftir því nú, eftir að hafa skoðað nál. meiri hl., hvort það sé raunverulegur vilji af hans hálfu að fara að vilja nefndarinnar og veita þennan gjaldfrest í ríkara mæli en gert er ráð fyrir. Og að sjálfsögðu fer ég fram á það að öll innflutningsverslun fái að sitja við sama borð og tollkrít verði ríkjandi. Það er einfalt að benda á það að verðlag hækkar til að mynda vegna þess að innflutningsverslunin hlýtur að verða að velta þessum kostnaði áfram út í verðlagið. Svo þröngt er nú að henni sniðið í dag að hún getur ekki borið þetta sjálf. En það þýðir einnig að pantanir verða smærri, þær verða óhagstæðari og þetta þýðir líka það að erfiðara verður að gera hagkvæma samninga við erlenda seljendur. Allt þetta mun verða til þess að verðlag hækkar í landinu og það hækkar meira en t.d. Verslunarráð gefur út, um 1--2% að þeirra mati.
    Það er reyndar fullyrt af hálfu að ég hygg Kaupmannasamtakanna og kom fram í viðtali við framkvæmdastjóra samtakanna, Magnús Finnsson, í Dagblaðinu laugardaginn 16. des., eins og segir í fyrirsögn, með leyfi forseta: ,,Þetta eru hrein og klár svik ráðherra.`` Í viðtalinu segir framkvæmdastjórinn Magnús Finnsson að versluninni hafi verið lofað að tollkrít yrði tekin upp með upptöku virðisaukaskatts.

Hins vegar stefnir allt í það nú að það loforð verði svikið og ætti svo sem ekki að koma neinum neitt sérstaklega á óvart. Ég hvet ráðherra hins vegar til að endurskoða hug sinn hvað þetta varðar og fara að vilja, eftir því sem mér sýnist, mikils meiri hluta alþingismanna.
    Ég sagði það á sínum tíma að ég gæti stutt þetta frv. með einu skilyrði eins og það var þá lagt fram. Það skilyrði var að það yrðu tvö þrep í virðisaukaskattskerfinu, annað lægra fyrir matvæli og hitt hærra fyrir það sem þá stæði út af borðinu. Við þetta skilyrði stend ég fyllilega og hef reyndar gert grein fyrir brtt. þess eðlis þar sem gert er ráð fyrir að lægra skattþrepið verði ekki hærra en 6%, en hærra skattþrepið 24,5%. Enda eru því miður meginkostir þessa frv. eins og það lítur út í dag, eða eins og það leit út, núna fyrir bí. Það er búið að skemma þetta frv. Það er farið að mismuna atvinnugreinum illilega eins og ég hef einnig sýnt fram á fyrr í ræðu minni og var það þó einn af meginkostum þessa kerfis að þær sætu við sama borð.
    Þegar kerfið var kynnt var talað um einfalt kerfi, réttlátt kerfi, skilvirkt kerfi og undanþágulaust kerfi. Allt þetta fernt er farið. Kerfið er ekki einfalt lengur. Það er orðið flókið og nánast ekki nokkur maður skilur það og það á eftir að valda hér miklum usla og miklum erfiðleikum í atvinnulífinu. Skilvirkt verður það ekki því að það er ljóst að það er hvetjandi til undanskots. Réttlátt þurfum við ekki að eyða mörgum orðum á og undanþágulaust þaðan af síður. Undanþágulausa kerfið er morandi í undanþágum. Það er því alveg ljóst að kerfið er ónýtt. Það er búið að skemma það. Enda segir í meirihlutaáliti fjh.- og viðskn. Ed., með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt þeim gögnum, sem lágu fyrir við samþykkt laganna, átti virðisaukaskattur að leiða til einföldunar í skattlagningu, réttlátari skattheimtu og skilvirkari innheimtu. Átti skatturinn ekki að mismuna atvinnugreinum þar sem virðisaukaskattur er hreinn neysluskattur sem leggst með sama hætti á alla kaupendur vöru og þjónustu --- ríki, sveitarfélög og almenning. Þá var gert ráð fyrir að allt skatteftirlit yrði auðveldara ...``
    Í mínum huga viðurkennir meiri hl. í fjh.- og viðskn. Ed. það að allir meginkostir þessa skattkerfis séu fyrir bí. Það átti að leiða til einföldunar en gerir það væntanlega ekki. Það átti ekki að mismuna atvinnugreinum en gerir það væntanlega og það var gert ráð fyrir að skatteftirlit yrði auðveldara en það verður það ekki. Þannig staðfestir meiri hl. fjh.- og viðskn. Ed. að kerfið sem slíkt er hrunið.
    Hæstv. forseti. Ég hef lítillega skoðað brtt. Sjálfstfl. og Kvennalista og get lýst því yfir hér að við munum greiða þeim velflestum atkvæði okkar. Ég ætla ekki að fara neitt nánar út í það að öðru leyti en því að lýsa fullum stuðningi við til að mynda 17. brtt. frá 1. minni hl. um breytingu við 17. gr. þar sem fyrir 16. nóv. komi 1. sept. Er þá eins og allir vita átt við bækurnar og verið að reyna að bjarga námsmönnum undan klóm ríkisvaldsins.

    Ég vil í lokin, hæstv. forseti, rifja upp þá kynnisauglýsingu sem fjmrn. sendi frá sér með fyrirsögninni ,,Hvað, hvernig`` um virðisaukaskatt, en þar kemur hugur ráðuneytisins og væntanlega hæstv. fjmrh. til innflutningsverslunarinnar og heildsala mjög skýrt í ljós. Það er nefnilega alveg óþekkt eftir því sem ég best veit að heildsalar hafi 100% hærri álagningu heldur en smásalar. Það hefur alla tíð verið á hinn veginn. Heildsali hefur haft lága álagningu en matvöruverslun eða smásalan töluvert
mikið hærri, ég ætla ekki að nefna hvað mikið hærri en töluvert mikið hærri, enda var það staðfest þegar verðlagshöft voru hér og Verðlagsstofnun gaf út ákveðnar álagningarprósentur að þá var heildsalan alltaf í öllum tilfellum allverulega lægri en smásalan. En hæstv. fjmrh. leyfir sér að auglýsa hér hvernig skuli standa að virðisaukaskatti, hvernig virðisaukaskattur er innheimtur og tekur þar dæmi um innflutt heimilistæki og stillir því þá þannig upp að heildsalinn er með 70% álagningu á meðan smásöluverslunin er með 35% álagningu. Þetta kalla ég hreinan atvinnuróg. Þetta er hrein rangfærsla og ég bað ráðherra við 1. umr. hér um daginn að gefa mér hreint og skýrt dæmi um hvar slíkt fer fram. Ég þekki ekki svona og ef ráðherra getur ekki rökstutt slík dæmi eins og send eru út frá hans ráðuneyti, þá krefst ég þess einfaldlega að hæstv. ráðherra biðji þessa stétt manna afsökunar, en það virðist nú vera orðið títt hér um þá alþýðubandalagsmenn að það þarf að vera að biðja þá að biðja hina og þessa afsökunar á hinum og þessum gjörðum sínum, nánast daglega, eins og þingmenn muna væntanlega síðan í gærkvöldi. En ég tel að þessi atvinnugrein manna eigi afsökun inni hjá hæstv. fjmrh. fyrir það sem ég vil kalla atvinnuróg því hér er því stillt upp að heildsalar séu hinir verstu okrarar í dæmi sem slíku.
    Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég hef hins vegar lagt nokkrar spurningar fyrir hæstv. fjmrh. Ég óska þess að hann reyni eftir bestu getu að svara þeim. Fari svo að hann gleymi einhverjum af þeim, þá er ég alveg reiðubúinn að endurtaka þær við 3. umr.