Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Mér þykir full ástæða til að ítreka hér og fara aðeins yfir brtt. okkar Inga Björns Albertssonar, hv. 5. þm. Vesturl., vegna þess að þær miða annars vegar að því að samræma þær undanþágur sem þegar hafa verið gerðar og hins vegar að því að vera hreint og beint réttlætismál. Eins og fram hefur komið er í raun búið að eyðileggja þetta kerfi nú þegar. Í staðinn fyrir að hafa tvö prósentustig, eins og við höfum lagt til og hafa engar undanþágur, lágt prósentustig fyrir þær greinar sem við teljum að þurfi að búa við það og síðan hærra stig fyrir aðrar vörur, þá er búið að eyðileggja þetta frv. með þessum hætti.
    Ég minni hér á fyrsta liðinn, þ.e. ,,Rekstur skóla- og menntastofnana, þar með talin starfsemi sérskóla og námskeiðahald, svo og ökukennslu.`` Við teljum að slíkt eigi að vera án virðisaukaskatts vegna þess að þegar hafa verið gerðar undanþágur á ýmsum öðrum greinum þannig að við teljum að það eigi að vera samræmi í þessu.
    Í öðru lagi viljum við bæta inn við 6. gr. ,,svo og íslenskar hljómplötur, snældur og geisladiskar`` og teljum að það sé ekkert minni menning heldur en bókmenntir vegna þess að plötur, snældur og geisladiskar eru orðinn stór þáttur í menningu þjóðarinnar og reyndar allra þjóða þannig að við teljum að það væri aðeins samræming á því.
    Í þriðja lagi teljum við að skattskyld velta á hverju uppgjörstímabili eigi að teljast aðeins heildarskattverð allra greiddra vara sem afhentar hafa verið, svo og heildarskattverð allrar skattskyldrar vinnu og þjónustu sem greidd hefur verið á tímabilinu. Við teljum ekki rétt að það sé verið að láta menn greiða virðisaukaskatt af reikningum sem ekki eru greiddir og kannski aldrei verða greiddir.
    Í fjórða lagi höfum við lagt til að virðisaukaskatturinn verði með tveimur skattþrepum, annað þeirra væri 6% í hæsta lagi á matvæli og hitt verði 24,5% í
hæsta lagi fyrir aðrar vörur. Við viljum benda á þetta og leggjum þá til það sem við höfum haldið hér allan tímann fram í okkar málflutningi síðan við komum á Alþingi að við ættum að reyna að stuðla að lágu matvælaverði og með þessum hætti er það hægt.
    Í fimmta lagi vil ég ítreka hér það sem við leggjum til við 9. gr.. þ.e. að stór hluti fyrirtækja í dag vinnur þannig að reikningar eru keyrðir út í tölvukerfum og það er ekki hægt að númera þá reikninga fyrir fram. Það er stórkostlegur kostnaður og oft vanvit að gera það. Þetta er bara samræming í takt við nútímann. Það er engin meiri trygging fyrir því að númeruðum reikningum, sem eru prentaðir áður, sé ekki hægt að skjóta undan frekar en þessu kerfi og þar sem ég þekki til er þetta mun öruggara ef eitthvað er heldur en prentaðir númeraðir reikningar.
    Í sjötta lagi leggjum við til að atvinnurekendum verði gert kleift að eiga sitt sumarfrí eða vetrarfrí og geti farið einu sinni á ári, ef þannig stendur á, eða í

öðrum erindagerðum án þess að vera búnir að gera endanlega upp virðisaukaskattinn. Jafnframt er með þessari grein tryggt að ríkið fær sitt því að menn verða að greiða virðisaukann fyrir fram með vanáætlun upp á 5%. Það þýðir það að atvinnurekendur og þeir sem greiða virðisaukaskatt, sérstaklega einyrkjar, hafa möguleika á að taka sitt eigið sumarfrí án þess að lenda í sektum fyrir að vera ekki búnir að gera upp virðisaukaskattinn fullnægjandi. Ég held að við verðum að vekja sérstaka athygli á þessu ef það á að vera svo að atvinnurekendur og sérstaklega þá einyrkjar í atvinnurekstri sem eru virðisaukaskattsskyldir eiga að vera einir stétta á Íslandi sem ekki hafa möguleika á að taka sumarfrí eða sitt frí þegar þeim hentar með sinni fjölskyldu. Ég tel að menn verði aðeins að hugsa um þetta ef allar aðrar stéttir eiga að geta farið í sumarfrí nánast þegar það hentar þeim en ekki atvinnurekendur. Þetta er réttlætismál, þetta er hinn mannlegi þáttur og ég mundi óska eftir því að hv. fjh.- og viðskn. tæki þetta upp á milli umræðna og hæstv. fjmrh. ætti að hafa dug í sér til þess að koma þessu inn í lögin.
    Þá er það í sjöunda lagi að endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis virðisaukaskatt sem þeir hafa greitt af vinnu manna við viðhald og endurbætur þess, enda sé heildarkostnaður a.m.k. 3% af fasteignamati húseignar í ársbyrjun. Ég held að þetta sé stórt réttlætismál þegar við lítum til þess að breytingar og viðhald á húsnæði fer vaxandi. Það er dýrt og kostar mikið og oft og tíðum ekki minna en að byggja nýtt húsnæði. Það hlýtur að eiga við eldra íbúðarhúsnæði sem þegar er búið að greiða 3% eignarskatt af og ættu eigendur þess a.m.k. að hafa möguleika á því að fá virðisaukaskatt af endurnýjun þessa húsnæðis frádreginn enda fær fjmrh. væntanlega meiri peninga í kassann fyrir vikið.
    Við höfum bætt við nýrri mgr. í sömu grein og þetta er í, að fjmrh. geti ákveðið með reglugerð að fella niður virðisaukaskatt af tækjum og búnaði til íþróttafélaga, hjálpar- og björgunarsveita. Í gegnum fjölda ára hefur söluskattur verið felldur niður af til að mynda skíðalyftum, snjótroðurum,
snjóbílum til björgunarsveita og ýmiss konar búnaði af þessu tagi. Það má segja að þessi tæki hefðu aldrei komið inn í landið og orðið þjóðinni til gagns, ánægjuauka og oft til hjálpar ef þessi möguleiki hefði ekki verið fyrir hendi. Ég vil sérstaklega benda á það núna þegar áramót fara í hönd að hjálpar- og björgunarsveitir reyna að afla fjár til síns mikla starfs með ýmsum hætti, m.a. jólakortasölu og flugeldasölu. Endar ná oft ekki saman hjá þessum félögum öðruvísi en með hjálp frá því opinbera. Og má segja að þetta sé sú hjálp sem hafi reynst æðivel. Í raun er ekki tekið fé frá neinum. Ég tek sem dæmi að minnsta gerð af snjóbíl kostar nú sennilega í kringum 6 millj. kr. Ríkið mundi í þessu tilfelli sennilega taka í kringum 1,5 millj. kr. til sín. Þetta er náttúrlega alger fásinna. Og sama er með skíðalyftur og troðara fyrir skíðin sem félög hafa keypt fyrir sjálfsaflafé og reynt og koma upp. Íþróttasjóður ríkisins á að borga 40%

á móti félögunum en rauntölur hafa orðið þær að ríkissjóður hefur, eftir því sem við höfum reiknað, greitt til skíðamannvirkja og skíðamanna svona í kringum 5--7% að meðaltali í stað 40% vegna þess að greiðslur hafa komið bæði seint og illa og étist upp í verðbólgunni því þetta er óverðtryggt.
    Þá vil ég minna á ýmiss konar framkvæmdir hjá félögum svo sem íþróttavallagerð og byggingu íþróttahúsa. Ef þessi félög nytu þess að vera undir 12. gr. væri allt í lagi, þau væru án þess að hafa innskatt og án þess að hafa útskatt. En nú eru þau sett undir 2. gr. þannig að það er aðeins útskattur sem þau losna við. Mörg þessara félaga hafa engar tekjur sem útskattur leggst á. Oft og tíðum eru engar tekjur af t.d. íþróttavöllum. Oft eru engar tekjur af ýmiss konar mannvirkjum og nýtist þá ekki niðurfelling á útskatti þessum félögum. Og ég minni á hina miklu uppbyggingu á golfvöllum um allt land sem er til mikillar ánægju fyrir fjölda manna og kvenna.
    Ég ætla ekki að öðru leyti að hafa frekari orð um þetta. Ég vona að hæstv. fjmrh. geti hér á eftir tekið undir eitthvað af þessum brtt. því ég tel þær allar til bóta miðað við það sem búið er að ákveða og muni lýsa yfir að hann styðji þær allar.