Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Ingi Björn Albertsson varpaði til mín fimm spurningum sem ég mun leitast við að svara í stuttu máli.
    Í fyrsta lagi var spurt hvort framkvæmd hefði verið athugun á því hve margir kynnu að nýta sér þá heimild sem felst í þessu frv. að endurbætur yfir ákveðnu hámarki, 7%, yrðu gjaldgengar til endurgreiðslu á virðisaukaskatti af vinnu við endurbæturnar. Slík athugun hefur ekki farið fram. Hins vegar er þetta mark valið með hliðsjón af sams konar marki sem verið hefur í öðrum skattalögum og enn fremur með hliðsjón af því lánakerfi til endurbóta á eldra húsnæði sem Húsnæðisstofnun ríkisins hefur veitt um nokkurra ára skeið. Mikill fjöldi fólks hefur hagnýtt sér þær lánveitingar og ég er sannfærður um að mjög margir munu nýta sér þennan rétt. Staðreyndin er sú að húsakostur landsmanna er mjög tekinn að eldast af eðlilegum ástæðum. Við höfum á undanförnum áratugum verið að byggja upp húsakost Íslendinga og margir leggja þess vegna ríka áherslu á að halda hýbýlum sínum við og gera það með reglubundnum hætti eða taka þá marga þætti í gegn. Áður fyrr voru menn oft að dunda við lítinn þátt í slíkri endurnýjun en með breyttum lífsháttum, eldra húsakosti, öðruvísi skipulagi á vinnu og tómstundum fjölskyldna, þörfinni á að afla sér sérhæfðs vinnuafls til að framkvæma þessar endurbætur, þá tel ég alveg augljóst að mjög margir muni hagnýta sér þennan möguleika. Hins vegar verður reynslan að skera úr um þetta atriði. Ef það kemur í ljós að þessi mörk eru of há til að allur þorri fólks, sem er sannanlega að ráðast í umtalsverðar endurbætur, nýti sér þennan rétt tel ég alveg sjálfsagt að endurskoða þetta ákvæði. Talan er ekki sett til þess að koma í veg fyrir að menn nýti sér þennan rétt, þvert á móti er hún sett inn til þess að tryggja að hann verði notaður og valin svipuð mörk og reynst hafa vel á öðrum vettvangi þar sem menn hafa orðið að ákveða viðmiðunartölur í sama tilgangi.
    Ég tel hins vegar að það sé sjálfsagt mál að athuga það að loknu fyrsta eða öðru ári virðisaukaskattsins hvernig nýtingin á þessari heimild hefur verið og taka hana síðan til skoðunar í ljósi þess.
    Í öðru lagi var spurt að því hvort stefnt væri að verðlagseftirliti á fyrstu mánuðum virðisaukaskatts sem fæli í sér hindranir á frjálsri verðmyndun. Það er ekki ætlun ríkisstjórnarinnar að setja á verðstöðvun eða með öðrum hætti hindra það sem ræðumaður kallaði frjálsa verðmyndun. Hins vegar er ljóst að fyrir ýmsa kann það að vera einhver freisting að hagnýta sér breytinguna eina til að réttlæta gagnvart viðskiptavinum sínum sem ekki hafa nægilega þekkingu á eðli virðisaukaskatts einhverja verðhækkun þó hún eigi sér á engan hátt stoð í skattkerfisbreytingunni. Þess vegna hefur verið um það rætt að reyna að nýta bæði almennar upplýsingar, kynningarstarfsemi og starfsemi verðlagsskrifstofunnar til að tryggja með mildum en árangursríkum aðferðum

að hvert verðhækkunartilefni þurfi að réttlæta sérstaklega til að tryggilega sé gengið úr skugga um að ekki sé verið að misnota kerfisbreytinguna til að sækja sér tilefni til verðhækkana.
    Þriðja spurningin var hvers vegna ekki væri gerð tillaga um að virðisaukaskattur væri felldur niður af bókum frá næstu áramótum. Skýringin liggur í því að þegar gerð var tillaga um að bækur á íslensku yrðu undanþegnar virðisaukaskatti var ekki talið kleift að raska með þeirri tillögu tekjuforsendum fjárlaga. Þessi breyting hefur á ársgrundvelli í för með sér tekjutap fyrir ríkissjóð um 400--500 millj. kr. Væri breytingin látin taka gildi um næstu áramót mundi ríkissjóður tapa umtalsverðum upphæðum á næsta ári. Auðvitað má alltaf um það deila hvort ríkissjóður eigi að gera það eða ekki, en þegar tillaga var gerð um ýmsar breytingar á gildandi lögum um virðisaukaskatt töldu menn ekki kleift að gera breytingar sem röskuðu tekjuforsendum fjárlagafrv. á næsta ári á umtalsverðan hátt. Þess vegna var ákveðið að bíða með þessa breytingu þar til síðasta tímabil virðisaukaskattsins á næsta ári hæfist, en það kemur ekki til reikningsfærslu fyrr en á fjárlagaári ársins 1991. Þess vegna verður gerð áætlun og ráðstafanir til að mæta þessu tekjutapi í fjárlagafrv. fyrir árið 1991.
    Fjórða spurningin snerti gjaldfrest á virðisaukaskatti í tolli. Rökin fyrir því að veita gjaldfrest á virðisaukaskatti í tolli eru einkum þau að koma í veg fyrir að fjárbinding verslunarfyrirtækja leiði til verðhækkana.
    Ég tel rétt, áður en ég vík að þessu sérstaklega, að vekja athygli á því að með tilkomu virðisaukaskatts verður margvísleg fjárlosun í verslunarstarfsemi. Fjárhagsstaða verslunarinnar styrkist, sérstaklega smásöluverslunarinnar og einkum smásöluverslunarinnar út um land. Skýringin liggur í því, sem oft er ekki nefnt þegar menn ræða gjaldfrestinn, að verslunarfyrirtæki greiða nú söluskatt af margvíslegum aðföngum og þjónustu. Þegar virðisaukaskatturinn tekur gildi fellur þessi söluskattur niður. Hann verður í reynd innskattur sem fyrirtækin fá greiddan eða metinn á móti virðisaukaskatti sem þau greiða. Útreikningar hafa verið lagðir fram, m.a. á fundi sem Félag ísl. stórkaupmanna og Verslunarráðið efndu til fyrir nokkrum vikum síðan, sem sýna að þessi
breyting ein kemur til með að styrkja fjárhagsstöðu smásöluverslunarinnar í landinu allverulega. Rétt er að hafa í huga að þessi breyting gefur versluninni tilefni til verðlækkunar ein út af fyrir sig vegna þess að fjárhagsstaða hennar styrkist. Á móti þessari fjárstyrkingu hafa menn svo teflt fjárbindingunni við það að ekki verði veittur gjaldfrestur í tolli. Sú fjárbinding kemur fyrst og fremst fram í heildversluninni. Þó er rétt að hafa það einnig í huga að heildverslunarfyrirtæki munu ekki þurfa að greiða söluskatt af ýmsu sem þau greiða söluskatt af í dag og fá virðisaukaskatt af þessum sömu þáttum frádreginn sem innskatt. Þannig að á móti kemur einnig nokkur fjárlosun hjá heildversluninni. Engu að

síður verður hún minni og kemur út með öðrum hætti en hjá smásöluversluninni.
    Matið sem framkvæmt hefur verið þegar þessum tveimur þáttum hefur verið stillt saman, sem verður auðvitað að gera til þess að fá mynd af áhrifunum á verðlagið, það er ekki nóg að skoða heildverslunina eina út af fyrir sig, það verður að skoða smásöluverslunina líka til þess að geta fengið heildarmynd af áhrifunum á verðlagninguna til neytandans, sú rannsókn sem framkvæmd hefur verið á þessu atriði sýnir að áhrifin eru tengd því hve langan gjaldfrest heildverslunin veitir smásölufyrirtækjunum. Ef gjaldfresturinn sem heildverslunin veitir smásöluversluninni er innan við 45 dagar verða engin neikvæð áhrif sem leitt gætu til verðhækkunartilefnis hjá versluninni, hvorki heildversluninni né smásölunni, hvað snertir endanlegt verð til neytandans. Það er þá aðeins þegar gjaldfresturinn er kominn yfir 45 daga frá heildversluninni til smásöluverslunarinnar að neikvæðu áhrifin fara að koma fram. Samanlögð munu þau skv. þessu mati þó ekki nema meira en 0,5% til rúmlega 1%.
    Þess vegna er ekki hægt að slá því föstu að það að veita ekki gjaldfrest í tolli muni í sjálfu sér leiða til verðhækkana. Menn verða að hafa heildarmynd af því sem gerist við upptöku virðisaukaskattsins og meta einnig inn í dæmið þá breytingu sem felst í því að söluskattur sem verslunarfyrirtæki greiða í dag kemur til frádráttar í formi virðisaukaskatts sem birtist sem innskattur. Einnig er rétt að hafa í huga þann tíma sem heildverslunin veitir smásöluversluninni í viðskiptum þeirra innbyrðis. Þess vegna liggur það ekki fyrir með jafnskýrum hætti og stundum kemur fram í málflutningi einstakra þingmanna og hagsmunaaðila að alveg augljóst sé að það að veita ekki gjaldfrest í tolli muni leiða til verðhækkana til neytenda.
    Hitt er svo kannski aðalatriðið að það kann að vera að ef gjaldfrestur verður ekki veittur í tolli muni verslunarfyrirtæki nýta sér þá staðreynd til þess að sækja sér verðhækkunartilefni umfram það sem ella væri ástæða til eða búa sér til verðhækkunartilefni þegar þau eru ekki fyrir hendi vegna skattsins sjálfs. Af þessum ástæðum hef ég þegar ákveðið að nýta þá heimild sem er í lögunum til að veita gjaldfrest af hráefnum til iðnaðar og af olíu. Það er alveg ljóst að sú ákvörðun kemur til með að styrkja samkeppnisstöðu íslensks iðnaðar og auka möguleika íslenskra iðnfyrirtækja til þess að vaxa á næstu árum.
    Ég hef hins vegar, eins og ég lýsti yfir í efri deild í dag, haldið áfram athugun á því máli hvort eigi að veita víðtækari gjaldfrest skv. þessari heimild hvað snertir innflutning á öðrum vörum. Ég hef átt viðræður við hagsmunaaðila síðustu daga um þetta atriði og í fjmrn. er þessa dagana unnið að því að skoða með hvaða hætti mætti veita gjaldfrest við upptöku virðisaukaskatts af innfluttri vöru til að koma í veg fyrir að við upptöku virðisaukaskattsins sæki menn sér tilefni, raunveruleg eða óraunveruleg, til

verðhækkana vegna þess að gjaldfresturinn hafi ekki verið veittur. Það er hins vegar nauðsynlegt í þessari athugun að huga einnig að greiðslustöðu ríkissjóðs í heild yfir árið og reyna að stilla þannig saman þessi tvö markmið. Annars vegar að koma í veg fyrir verðhækkunartilefni við upptöku virðisaukaskattsins og hins vegar að draga úr neikvæðum áhrifum þegar á heildina er litið á greiðslustöðu ríkissjóðs.
    Ég mun leitast við að tryggja að við upptöku virðisaukaskattsins geti verslunarfyrirtæki ekki sótt verðhækkunartilefni til þessarar skattkerfisbreytingar þegar hún gengur í garð. Ég tel að nú þegar hafi verið gerðar ýmsar ráðstafanir í þeim efnum. Og við erum þessa dagana að skoða með hvaða hætti megi ákveða víðtækari gjaldfrest við upptöku virðisaukaskattsins hvað snertir virðisaukaskatt í tolli svo ljóst verði öllum að þegar virðisaukaskattur gengur í garð hafi ekki orðið um viðbótarfjárbindingu fyrir neinn þátt í versluninni að ræða, hvorki í heildverslun né smásöluverslun.
    Ég get hins vegar ekki á þessu stigi lýst alveg nákvæmlega með hvaða hætti þetta geti orðið. Það er unnið að því máli þessa dagana í fjmrn., bæði af embættismönnum ráðuneytisins og eins í viðræðum við ýmsa hagsmunaaðila. Ég hef trú á því að okkur takist á næstu dögum að ná niðurstöðu sem geti tryggt að víðtækari gjaldfrestur verði veittur en þegar hefur verið ákveðinn. Með þeim hætti verði virðisaukaskatturinn við upphaf þessara skattkerfisbreytinga framkvæmdur á þann veg að ekkert verslunarfyrirtæki geti sótt sér þá röksemd
að í honum felist viðbótarverðbinding vegna þess að innheimtukerfið leggi slíkar byrðar á fyrirtækin.
    Ég vona að þetta varpi nokkru ljósi á þetta mál og lýsi þeim markmiðum sem við erum að vinna að. Þau eru annars vegar að koma í veg fyrir verðhækkunartilefni af völdum þessarar kerfisbreytingar og hins vegar að tryggja að kerfisbreytingin sem slík hafi, þegar á árið í heild er litið, ekki neikvæð áhrif á greiðslustöðu ríkissjóðs.
    Ég vænti þess og tel reyndar af þeim samtölum sem ég hef átt við hagsmunaaðila síðustu sólarhringa að um þetta geti tekist góð samvinna þó að ég treysti mér ekki á þessu stigi til að lýsa endanlegri niðurstöðu í þessu máli.
    Fimmta spurningin snerti ákvæði um stærð bíla sem notaðir eru af fyrirtækjum í rekstri og þau mörk sem eru dregin varðandi einkabíla og fyrirtækjabifreiðar. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að það hefur farið í vöxt á síðari árum að fyrirtæki noti smærri bifreiðar með margvíslegum hætti í þágu atvinnustarfseminnar. Ég tel sjálfsagt að skoða það mál mjög rækilega hvar eigi að draga þessi mörk. Ekki er ætlunin að mismuna fyrirtækjum með þessum hætti. Það verður hins vegar líka að koma í veg fyrir að menn skrái einkabifreiðar sínar á fyrirtækin og reyni þannig að hagnýta sér skattkerfið til þess að fá frádrátt vegna einkanota af bifreiðum. Ég hef þegar rætt við embættismenn skattkerfisins um að skoða rækilega reglurnar um stærð og tegundir bifreiða í

þessum efnum svo tryggt sé að jafnræði ríki milli fyrirtækja í rekstri, hvort heldur reksturinn krefst þess að fyrirtækin noti stærri bifreiðar eða þau geta komist vel af með að nota smærri og hagkvæmari bifreiðar.