Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Það veltur á miklu hvernig tekst til með framkvæmd laganna um virðisaukaskatt þegar hann kemur til framkvæmda á áramótum. Ég fullyrði að hér er um veigamikla skattkerfisbreytingu að ræða sem er vafalaust mjög skynsamleg og því veltur á miklu að þannig sé búið um framkvæmdina að hún eyði þeim ágreiningi og þeirri vantrú sem sumir hafa á þessari skattkerfisbreytingu. Það er fyrir öllu að hún takist og að þjóðin skilji að hér hafi verið mjög vel vandað til þessarar kerfisbreytingar.
    Ég harma hins vegar hversu þetta mál er seint á ferðinni sem gerir það að verkum að enn þá eru fjölmörg nauðsynleg atriði í raun og veru óafgreidd og liggja ekki ljós fyrir í sambandi við framkvæmd þessara laga þegar þau taka gildi. Ég harma það jafnframt sem kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. að þetta og hitt sé enn til athugunar. Það hefði verið nauðsyn á því og er að einmitt slíkar athuganir væru um garð gengnar og ákvarðanir um á hvern hátt ætti að framkvæma lögin lægju fyrir.
    Ég get ómögulega skilið að smásöluverslun, eins og úti á landi, standi eitthvað betur að vígi eftir að lög um virðisaukaskatt taka gildi. Smásöluverslun úti á landi er núna hörmulega á vegi stödd og ég minni einu sinni enn á að í málefnasamningi ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar frá því í september 1988 er sagt að stórátak eigi að gera til þess að rétta hag strjálbýlisverslunarinnar. Ég hef ekki séð nokkuð í þá átt að rétta hag strjálbýlisverslunar. Ef hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjmrh. telur að það sé að rétta hag hennar að leggja að nýju skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, þá fer hann alveg villur vegar.
    Nefndin sem viðskrh. skipaði og hefur lokið sínum störfum og sent frá sér tillögur sínar bendir þar á veigamikil atriði en ekkert kemur fram í þeim
efnum hvað ríkisstjórnin ætlar að gera. Það er ekki nóg að hafa áhugann í orði ef hann er ekki á borði.
    Ég er þeirrar skoðunar að greiðslufrestur eigi að vera í tolli á öllum innflutningi eins og til var ætlast og ákveðið var í upphafi en ekki mismuna hinum ýmsu greinum viðskipta- og atvinnulífs með þeim hætti sem nú er ætlað þó að talað sé núna nokkuð frjálslega í þeim efnum.
    Hæstv. fjmrh. talaði um þetta og hitt ef innflutningsverslunin gæfi greiðslufrest í allt að 45 daga o.s.frv., þá væri þetta svona og svona. Sjálfur rekur hann eina stærstu verslun landsins, bæði innflutningsverslun og smásölu. Ég hef aldrei heyrt nokkurn mann ætlast til þess að fá greiðslufrest af þeim vörum sem hæstv. fjmrh. er að selja. Ekki eru kortaviðskiptin þar þó þau séu í öðrum búðum og ekki er opið á laugardögum þar eins og í flestum búðum, ekki einu sinni 23. desember. Það eru margar auglýsingar á ferðinni um að það sé lokað hjá Ólafi Ragnari Grímssyni allan daginn þann 23. ( Gripið fram í: Er engin þjónusta?) Þetta er ekki nokkur þjónusta, það er til skammar. Bragð er að þá barnið finnur. Hæstv. landbrh. finnur þetta.

    Við verðum líka að hugsa um það að eftir því sem við íþyngjum versluninni meira erum við að færa verslunina meira úr landinu. Ef við erum að íþyngja íslenskum verslunarfyrirtækjum fer fólkið að kaupa meira í Glasgow og þeim borgum sem fólk hefur keypt mest í og mest frá á undanförnum árum. En þá er ríkið að tapa tekjum og ríkið þarf líka að hugsa um það. Það er ekki alltaf nóg að þrengja að atvinnurekstrinum ef það kostar líka að þrengja hag sjálfs ríkisins.
    Samtök fiskvinnslustöðva hafa áhyggjur vegna breytinga sem upptaka virðisaukaskatts hefur í för með sér. Um næstu áramót þarf að gera ráð fyrir endurgreiðslu uppsafnaðs söluskatts af birgðum sem verða til staðar hjá öllum fiskvinnslufyrirtækjum um næstu áramót. Útflytjendur létu nýlega kanna hvað birgðir mundu verða miklar um næstu áramót. Samkvæmt upplýsingum þessara samtaka er talið að birgðir muni nema 5,5--6 milljörðum kr. miðað við það endurgreiðsluhlutfall sem hefur gilt frá sl. nóvember. Þá telja þeir að líklegt sé að um 100 millj. kr. þurfi til að endurgreiða fiskvinnslufyrirtækjum söluskatt sem þau hafa greitt af aðföngum vegna framleiðslu þeirra birgða sem verða í landinu á næstu áramótum.
    Í frv. til fjárlaga eins og það var afgreitt hér við 2. umr. á hv. Alþingi er ekki fjárveiting til að mæta þessum óhjákvæmilegu útgjöldum. Og í frv. til fjáraukalaga sem hér var til umræðu í gær var gert ráð fyrir að mæta útgjöldum vegna uppsafnaðs söluskatts á útflutningi til loka þessa árs. En til þess þarf fjárveitingin að ganga óskipt til fiskvinnslunnar einnar.
    Mikill útflutningur sjávarafurða í ár ásamt minnkun birgða hafa kallað á hærri endurgreiðslur vegna uppsafnaðs söluskatts við kaup á aðföngum til fiskvinnslunnar og því er nauðsynlegt að fjárveiting verði á fjárlögum fyrir næsta ár til að mæta þeirri uppsöfnun söluskatts sem fiskvinnslufyrirtækin hafa lagt út í í núverandi söluskattskerfi.
    Ég tek heils hugar undir þessar athugasemdir og ábendingar og beiðni samtaka fiskvinnslunnar í landinu og vænti þess að hæstv. fjmrh. sjái að ekki er hægt
að ganga fram hjá jafnsjálfsagðri beiðni sem er byggð á sanngirni og því að atvinnuvegunum sé sýnt fyllsta réttlæti.
    Ég gat þess í upphafi máls míns að ég teldi að hér væri um merka og mikilvæga kerfisbreytingu að ræða í skattamálum sem væri nauðsynlegt að framfylgja með þeim hætti að hún mæti ekki andstöðu meðal þjóðarinnar heldur finni þjóðin fljótlega að hér sé á ferðinni góð og skynsamleg kerfisbreyting.
    Það hefur mikið verið talað um að sundrung og óeining sé hér á Alþingi og víst fer ekki á milli mála að svo hefur verið þó upp úr hafi soðið í gærkvöldi. Þá verður mönnum gjarnan á að kenna einhverjum um því alltaf þarf að hengja einhvern fyrir sakirnar. Þá hefur það verið sagt að stjórnarandstaða, þó einkum Sjálfstfl., hafi staðið í vegi fyrir því að greiða fyrir

málum. Ég vil út af þessu og fleiru benda á að yfirleitt tíðkast ekki að nefndir taki til að vinna að frv. sem liggja fyrir Alþingi fyrr en þeim er formlega vísað til nefndarinnar. Undantekning frá þessu hefur verið fjárlagafrv. hverju sinni og hefur verið gert svo lengi sem elstu menn muna. En í þessu tilfelli fannst okkur sjálfstæðismönnum nauðsynlegt að hefja vinnu við virðisaukaskattsfrv. áður en því væri formlega vísað til nefndarinnar. Við ákváðum að bjóða fram samvinnu og samstarf um það um leið og við sáum brtt. bæði meiri hl. og minni hl. fjh.- og viðskn. Ed. Þessi vinnuaðferð var viðhöfð og gengið rösklega að verki og rætt við nokkra tugi manna á tiltölulega skömmum tíma sl. mánudag. Seinni part þessa sama dags fór fram 1. umr. í þessari hv. þingdeild. Þá var búið að ræða við allan þennan fjölda af mönnum og það er eftirtektarvert í stórmáli, og það mjög flóknu máli sem þessu, að nál. meiri hl. nefndarinnar er dagsett daginn eftir að málinu er vísað til nefndarinnar. Og ég spyr: Þekkja hv. þingdeildarmenn mörg dæmi þess að stjórnarandstaða hafi á þennan hátt greitt jafn vel fyrir máli sem stjórnarandstaðan gerði í þessu máli?
    Það má gjarnan halda þessu á lofti en ekki alltaf því sem miður fer og allt að því koma því inn hjá fjölmiðlum og öðrum að í þessari stofnun, sem á að vera virðulegasta stofnun þjóðarinnar, sé alltaf eldur og ekkert annað en eldur. Hér hefur verið reynt að vinna á málefnalegan og drengilegan hátt en til þess að svo megi verða verða allir aðilar að sýna í verki að þeir vilji vinna á þennan sama hátt, að vera drengilegir í samstarfi.