Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að leyfa mér að taka undir orð hv. 1. þm. Vestf. sem hér talaði áðan og mælti góð orð um það að því er kannski of sjaldan til haga haldið sem unnið er hér með málefnalegum hætti í þinginu og vel er gert. Ég spái því að þau orð sem hann lét hér falla um nefndarstarfið og þá samstöðu sem þar hefur verið um að greiða fyrir þessu máli nái nú litlum eyrum fjölmiðla sem hér eru staddir, a.m.k. borið saman við þá veislu sem þeim hefur verið gjörð hér á þinginu undanfarið.
    Ég vil líka taka undir það með hv. 1. þm. Vestf. að mjög miklu máli skiptir þegar svona viðamikil breyting á okkar skattkerfi er til meðferðar og kemur til framkvæmda að það takist vel. Og mönnum ber, hvaða pólitískar áherslur sem þeir kunna að hafa lagt í tengslum við þá afgreiðslu, að sameinast um að reyna að gera slíkt þegar á annað borð er orðið ákveðið og ljóst að slík kerfisbreyting er að koma til framkvæmda.
    En erindi mitt hingað var að verða við, með mikilli ánægju, óskum um að svara einni eða tveimur spurningum frá hv. 5. þm. Vesturl. sem gerði mér þá ánægju og þann sóma og heiður að rifja upp úr verkum mínum hér fyrr úr þingsögunni nokkur orð og vék að því sem við ræddum hér á löngum fundum fyrir nokkru síðan, u.þ.b. tveimur árum reyndar, þegar skattkerfisbreytingar sem þá voru til meðferðar og síðar þetta mál um virðisaukaskatt komu til meðferðar hér í hv. Alþingi.
    Hv. þm. minnti á að ég hefði verið í hópi þeirra þingmanna sem þá töldu það bestan kost að alls ekki kæmi til óbein skattheimta á matvæli af því tagi sem virðisaukaskatturinn er. Það er rétt munað hjá hv. þm., þetta var mín afstaða og er mín afstaða. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að koma á því skattkerfi hjá okkur að við drögum úr og helst afnemum óbeina skattheimtu á brýnustu lífsnauðsynjum og færa, eftir því sem ríkissjóður þarf á að halda teknanna vegna, þá skattbyrði yfir í aðra stofna. Ég vil sérstaklega nefna tekjutengda eða eignatengda skatta, sem ég tel að séu of lágir að hlutfalli hér á Íslandi, og þá aðra skattstofna sem koma þar niður sem bestar eru aðstæður til að mæta þeim. Þessi afstaða mín er óbreytt.
    Ég minni líka á að ég hélt því fram þegar virðisaukaskattsfrv. var til umræðu hér áður en það var lögfest að væru hins vegar ekki aðstæður til að afnema með öllu þessa skattheimtu eða hafa hana alls ekki á matvælum eða jafnvel öðrum brýnum lífsnauðsynjum, þá væri ótvírætt skynsamlegra að hafa þá skattheimtu á öðru og lægra þrepi en hin almenna skattheimta væri. Þetta er enn fremur óbreytt afstaða mín. Ég hef verið talsmaður þess innan ríkisstjórnarinnar að við reyndum að taka upp það kerfi og að því verður reyndar unnið eða það verður í skoðun nú á fyrstu mánuðum næsta árs. Ákveðin útfærsla á tveggja þrepa kerfi felst í þessari afgreiðslu

á virðisaukaskattinum nú eins og ég veit að hv. þm. er kunnugt um og gerir mér léttbærara en ella að styðja þá útgáfu sem hér er til meðferðar. ( FrS: Vill ekki hæstv. ráðherra skýra hvað hann kallar tveggja þrepa skatt núna?) Ég hygg það þurfi nú allra síst að skýra það út fyrir hv. 1. þm. Reykv. sem er mikill sérfræðingur á þessu sviði og kann þetta manna best. Hv. þm. veit að það er gert með ákveðnum endurgreiðslum á hluta af skattinum inn á tiltekið stig vöruviðskiptanna. Hér á ég við nokkrar mikilvægar innlendar matvælategundir sem óþarft er að þreyta hv. þdm. á að telja upp. Þetta er allt saman mjög vel
kunnugt og í því felst að þessar vörur bera mun lægri skatt en aðrar þó þetta sé kannski ekki sú útfærsla á tveggja þrepa virðisaukaskatti sem ég vil helst sjá komast til framkvæmda, þ.e. að um eiginleg tvö þrep á endanlegu sölustigi vörunnar verði að ræða. Það tel ég vera skilvirkastu og varanlegustu útfærslu á þessu máli.
    Herra forseti. Erindi mínu er þá lokið. Það var ekki annað en að verða við sjálfsögðum óskum hv. 5. þm. Vesturl. um að segja hér nokkur orð. Ég skildi af máli hv. þm. að hann hefði af því áhyggjur og efasemdir uppi um að hjá mér hefðu orðið einhver sérstök sinnaskipti í þessu máli. Svo er ekki. Ég hef nú útskýrt hvernig í þessu liggur og ég vona að það fullnægi hv. þm. og geri hann ánægðan.