Tekjustofnar sveitarfélaga
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 91/1989.
    Í frv. eru lagðar til nokkrar tæknilegar breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Breytingarnar á 1. og 2. gr. eru eftir ósk Fasteignamats ríkisins. Þar er lagt til að einfalda meðferð ágreiningsmála er varða gjaldstofn fasteignaskatts með því að fela Fasteignamati ríkisins að úrskurða í slíkum málum á fyrsta stigi í stað yfirfasteignamatsnefndar eins og nú er.
    Breytingin sem lögð er til í 3. gr. varðar útsvör barna sem misst hafa annað eða bæði foreldri. Breytingarnar sem lagðar eru til í 4. og 7. gr. eru á aðstöðugjaldskafla laganna. Markmiðið með þeim er að koma í veg fyrir ágreining við framkvæmd laganna. Í 8. og 9. gr. og ákvæði til bráðabirgða eru gildistökuákvæði.
    Í 1. gr. er lagt til að í stað orðsins ,,matsverð`` komi orðið álagningarstofn. Breyting þessi er talin eðlileg með hliðsjón af ákvæðum 3. gr. laganna þar sem er að finna nýmæli um stofn til álagningar fasteignaskatts á húsum og öðrum mannvirkjum um allt land.
    Í 2. gr. er lögð til sú breyting frá gildandi lögum að fela Fasteignamati ríkisins að úrskurða í ágreiningsmálum sem varða gjaldstofn skv. 3. gr. þeirra. Ætlunin með þessu er sú að einfalda meðferð slíkra ágreiningsmála. Úrskurðum þessum megi þó ætíð skjóta til yfirfasteignamatsnefndar.
    Breytingin sem lögð er til í 3. gr. er til samræmingar við fyrirhugaða breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt, en þessi breyting var gerð í
meðferð málsins í Ed. Í henni felst breyting varðandi útsvarsálagningu barna sem misst hafa annað eða bæði foreldri. Lagt er til að heimilt verði eftir umsókn að skattleggja slíkar tekjur hjá börnunum sjálfum í stað þess fyrirkomulags sem nú er að skattleggja þær með tekjum þess aðila sem nýtur barnabóta vegna barnsins.
    Í 4. gr. er lagt til að tekið verði upp skýrara og ákveðnara orðalag 34. gr. til þess að koma í veg fyrir ágreining við framkvæmd.
    Í 5. gr. er einnig lögð til smábreyting á 34. gr. laganna til að eyða öllum vafa um það hverjir eru undanþegnir aðstöðugjaldsskyldu.
    Í 6. gr. er lagt til nákvæmara orðalag en er í núgildandi ákvæði.
    Í 7. gr. er í raun verið að leiðrétta prentvillu sem hefur verið í tekjustofnalögunum allt frá 1980 en allir úrskurðir varðandi þetta atriði hafa að sjálfsögðu verið felldir á grundvelli upphaflega lagatextans. Breytingin í 8. gr. er til skýringa og til að taka af allan vafa varðandi gildistöku laganna.
    9. gr. þarfnast ekki skýringa en breytingin sem lögð er til í bráðabirgðaákvæði er til að tryggja að ákvæðin í 3. gr. varðandi útsvarsálagningu barna gildi við útsvarsálagninguna strax á árinu 1990 vegna tekna þeirra á árinu 1989.

    Efni 1., 2., 4., 6., 7. og 9. gr. voru í upphaflegri gerð frv. en 3., 5. og 8. gr. var ásamt bráðabirgðaákvæði bætt við í meðförum félmn. Ed. í samráði við félmrn. Haft hefur verið samráð við embætti ríkisskattstjóra um þessar breytingar.
    Virðulegi forseti. Þótt hér sé nánast aðeins um tæknilegar breytingar að ræða er mikilvægt að þær nái fram að ganga og taki gildi um næstu áramót til að auðvelda framkvæmd laganna um tekjustofna sveitarfélaga.
    Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. félmn.