Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 20. desember 1989


     Guðmundur G. Þórarinsson:
    Virðulegi forseti. Ég stend hér upp til að taka undir orð hæstv. fjmrh. þegar hann svaraði hv. þm. Inga Birni Albertssyni áðan. Ég er einn af þeim sem hafa haft af því nokkrar áhyggjur að virðisaukaskattur við innflutning á vörum gæti valdið talsverðum verðhækkunum þó menn greini reyndar á um hversu miklar þær geti orðið.
    Ég hef líka óttast að sú fjárbinding sem virðisaukaskattur á innfluttar vörur gæti valdið mundi kalla á þenslu á lánsfjármarkaði og jafnvel á hækkun á vöxtum. Áhrif á lánskjaravísitölu mundi þýða hækkun lána o.s.frv., fyrir utan það að við sem að þessari skattbreytingu vinnum höfum eðlilega óttast að ef virðisaukaskattur á innfluttar vörur kæmi til með að valda verðhækkunum mundi það valda mjög neikvæðum áhrifum og viðbrögðum almennings. Þess vegna vil ég sérstaklega taka undir með fjmrh. sem að undanförnu hefur unnið að því, og ríkisstjórnin reyndar öll, að koma í veg fyrir verðhækkanir fram undan. Orð hans um að undirbúa ákvörðun um að greiðslufrestur verði veittur við innflutning á vörum þannig að ekki komi til almennra verðhækkana af þeim völdum nú um áramótin eiga mikinn rétt á sér og ég vil ítreka að ég tek sérstaklega undir þessi orð fjmrh.